03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (1838)

57. mál, veð

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða það, að það hafi verið einhver almennasta krafan á þingmálafundum fyrir kosningar í haust og í vetur fyrir þing í mínu kjördæmi, að vextir hjá lánsstofnunum yrðu lækkaðir og bændur fengju hagkvæmari lánskjör. En eins og öllum er kunnugt, hækkuðu lánsstofnanirnar hjer vextina 15. f. m., sama dag og þing var sett. Báðar lánsstofnanirnar heilsuðu því þinginu með því að hækka stórkostlega vexti sína. Og ber það ekki sjerstakan vott um það, að bankarnir hafi litið svo á, að þingið mundi ráða mikið fram úr fjármálavandræðunum. Það virðist því harla lítil von um, að bændur muni fá hagkvæmari lánskjör en áður.

Eins og öllum er vitanlegt, eiga bændur feikilega erfitt uppdráttar. Sjerstaklega kemur fall krónunnar ver niður á bændum en sjávarútvegsmönnum. Frv. þetta er því fram komið sem eilítið hænuspor í þá átt að bæta lánskjör bænda. Einkum verður það til þess að bæta lánskjör sjálfseignarbænda, ef það verður samþykt. Því samkvæmt frv. getur bóndinn veðsett ekki aðeins jörðina, heldur líka áhöfnina að einhverju leyti. Eigi bóndinn t. d. 8 kýr, 200 fjár og 20 hross, ætti að mega lána honum út á 5 kýr, 100 ær og 10 hross með jörðinni. Þetta yrðu 9000 kr. með núgildandi verðlagi. Og ef bankinn lánaði út á það að 1/3, mundi veðgildi jarðarinnar hækka um 3000 kr., og væri það ósmá bót. — Þetta er aðaltilgangurinn með frv., og vænti jeg, að háttv. þdm. verði ekki á móti því. Hjer er ekki um annað að ræða en aðeins að heimila bönkunum að taka slíkt veð ásamt með jörðunum. En bankarnir ráða auðvitað sjálfir, hvað mikið þeir taka á hverjum tíma af áhöfn með hverri jörð. En að sjálfsögðu verður fárið mjög varlega meðan reynsla er að fást um þetta.

Slík lög sem þessi hafa það ennfremur til síns ágætis að auka bústofn jarðanna smátt og smátt. En eins og menn vita, gengur oft upp og ofan um jarðir, er stórbændur sleppa þeim og smábændur taka við. Þá hafa jarðirnar oft níðst niður, vegna of lítillar áhafnar, er ábúðarskifti urðu, en ef áhöfn fylgdi jörðinni, væri komið í veg fyrir þetta. Og þetta ætti að verða til þess, að niðurníðsla jarða við ábúendaskifti yrði ekki eins hrakleg eins og nú á sjer oft stað, og yfir höfuð yrðu þessi lög þá til þess að fyrirbyggja úrræktun jarða. Sjerstaklega ættu þau að fyrirbyggja, að smábýli falli í eyði, því það mun auðveldara að fá menn til þess að taka smákot á leigu, ef einhver áhöfn fylgir. Jeg veit til þess, að oft hafa menn, sem hafa átt kot, sett einhverja áhöfn á þau, til þess að fá þau fremur bygð. Ennfremur yrðu þessi lög til þess að fyrirbyggja tjón af ábúðarskiftum á jörð. Fráfarandi getur hafa selt allar skepnur sínar af jörðinni, svo aðkomandi verður að kaupa skepnur að úr öllum áttum, og hefir því verri not af fjenu fyrstu árin.

Að slík lög hafa ekki áður verið sett, kemur aðallega af hræðslu við horfellinn, en svo er guði fyrir þakkandi, að sú hætta hefir stórum minkað á síðari árum. Vitaskuld geta borið að vandræði, sem eigi verður við ráðið, svo sem eldgos, öskufall, jarðskjálftar, langvinn ísalög o. s. frv. En við því er ekki hægt að gera í lögum á annan hátt en að stofna tryggingarsjóði gegn slíkum áföllum. Hjer sem annars staðar, er náttúruöfl gera usla, fellur slíkt sínum herra, og verða eigendur að bera það eða veðhafar. Ennfremur leyfi jeg mjer að benda á það, að ef skepnur verða teknar með í veðunum, mundi það verða til þess að gera viðskiftalífið tryggara. Margir bændur skulda nú út á bæði jörð og bústofn, en samkvæmt lögum um lausafjárveð er nær ómögulegt að nota veð í lausafje. Ábyrgðarmenn bænda, sem treyst hafa á veð í kvikfje, hafa oft orðið illa úti; menn hafa oft verið búnir að lóga skepnunum áður en varði. Þessvegna tel jeg tryggara fyrir alla, að lánsstofnanirnar hafi veð í skepnunum líka. En það, sem mælir einna mest með þessum lögum, er það, að þau munu verða til þess að ýta undir betri meðferð á skepnum. Það er enginn vafi á því, að lánsstofnanirnar munu ganga eftir því, að bændur fari vel með skepnur sínar, og miða lánskjörin við það.

Viðvíkjandi þessu frv. er um tvær nefndir að ræða, fjhn. eða landbn., og geri jeg það ekki að deiluatriði, til hvorrar þeirra því verður vísað.