11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (1841)

57. mál, veð

Magnús Guðmundsson:

Jeg er satt að segja dálítið hissa á háttv. allshn., að hún skuli leggja það til, að þetta frv. verði samþykt óbreytt. Frá mínu sjónarmiði eru það aðallega tvær ástæður, sem mæla á móti frv. eins og það er. Í fyrsta lagi er það frá lagalegu sjónarmiði óviðkunnanlegt að leyfa veðsetningu á öllu, sem sjálfseignarbóndi á, og láta fylgja reglum um fasteignalán. Í öðru lagi verður þetta ekki heppilegt í framkvæmd. Það verða ekki peningastofnanir, sem þetta nota mest, heldur braskarar. Þeir geta haft þá aðferð að taka 3., 4. og 5. veðrjett í jörðinni, og í búi bóndans aftur 1. veðrjett. Og svo á þetta að fara eftir fasteignalögunum. Jeg get ekki skilið, að þetta bæti fyrir bændum. Jeg er hræddur um, að þessum ákvæðum verði misbeitt þeim í hag, sem síst skyldi. Hjer er talað um, að menn geti veðsett jörð með ákveðinni áhöfn. Það er því ekkert því til hindrunar, að bóndi veðsetji alt sitt bú. En það má teljast mjög varhugavert, því á þann hátt getur hann veðsett alla eigu sína: jörð, hús, allan búpening, innanstokksmuni og heyforða. Jeg held bændur eigi ekki meira yfirleitt. Jeg hygg, að yfirleitt geti það frekar spilt lánstrausti en aukið að hafa svona ákvæði. Jeg skal játa, að svipuð ákvæði þessu eru til hjá Dönum. En þar er öðru máli að gegna. Þar er það venja, að áhöfn fylgi t. d. herragörðum, þegar þeir eru seldir. En þeir hafa líka þar samfara öryggisráðstöfun, sem er ekki nefnd á nafn í frv. En jeg legg aðaláhersluna á það, að það verða ekki bankar eða lánsstofnanir, sem þetta nota, heldur alt aðrir.