11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (1842)

57. mál, veð

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hygg, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) geri of mikið úr þeim göllum, sem honum virðast vera á þessu frv. Þetta er ekki svo ýkjamikil breyting frá gildandi lögum. Þau heimila veðsetningu á lausafje og að kúgildi megi fylgja með jörðunum til veðsetningar. Jeg held, að undir ýmsum kringumstæðum geti það orðið til bóta, að nokkur áhöfn fylgi með jörðunum, og á þetta frv. að stuðla til þess. Jeg held sem sagt, að það fyrirkomulag verði fremur til bóta. Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) hjelt fram, að með þessu væri bröskurum og öðrum harðdrægum kaupsýslumönnum opnuð leið til þess að ná veði í eignum bænda, umfram það, sem nú er, þá geri jeg ekki svo mikið úr því. Eins og nú er ástatt, geta bændur veðsett megnið af lausafje sínu, þótt önnur lög gildi um þær veðsetningar. Jeg tel ekki ástæðu til að óttast þetta þessvegna. Aftur á móti er ekki hægt að segja fyrirfram neitt ákveðið um það, hversu mikil áhrif þetta mundi hafa á lántökur manna; það verður mest undir lánsstofnunum komið, hversu mikið lán þær veita út á lausafje, og kemur það auðvitað til álita í hvert sinn. Jeg tel rjettmætt t. d., að maður, sem á jörð, sem er lágt metin, segjum 4 þús. kr., og svo á hann búpening, er nemur 10–15 þús. kr., þá tel jeg sanngjarnt, og gæti verið á margan hátt hagkvæmt, að hann fengi nokkru hærra lán en jörð hans stæði fyrir út á eitthvað af bústofninum. Það er því beinlínis tilgangur þessa frv. að gera mönnum mögulegt að fá hærri lán út á jarðeignir sínar með þessu móti. Jeg býst ekki við því, að það þurfi að óttast, að bankarnir mundu hætta meiru fje vegna þessarar breytingar á veðsetningarlögunum en þeim væri óhætt; því undanfarið hefir það verið reglan hjá þeim, að starfsfje þeirra hefir því nær eingöngu farið til annars en landbúnaðar.

Yfirleitt finnast mjer andmæli háttv. 1. þm. Skagf. (MG) ekki svo veigamikil, að þau ættu að verða frv. þessu að falli, og breytingar þær á lögunum um veð, sem frv. fer fram á, álít jeg að muni miklu fremur verða bændum til gagns en ógagns.