11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (1843)

57. mál, veð

Flm. (Magnús Torfason):

Mjer kom það allmjög á óvart, að háttv. 1. þm. Skagf. (MG) skyldi snúast á móti þessu litla og saklausa frv. mínu. Jeg fæ alls ekki skilið afstöðu hans í þessu máli á annan veg en þann, að hann hljóti að vera orðinn allókunnugur kjörum bænda yfirleitt. Í lögunum frá 1887, um veð, má veðsetja með jörðum, auk kúgilda, öll hús á jörðinni, öll húsgögn og búsáhöld og allan heyforða; það eina, sem ekki má veðsetja, eru skepnurnar. Mjer þótti þetta allmerkilegt atriði í lögunum, að bóndi mætti veðsetja nær alt, sem hann á og eignast kann, hey og annan forða búsins, en alls ekki bústofninn. Það er rjett, sem háttv. 1. þm. Skagf. (MG) drap á, að erlendis eru skepnur veðsettar með jörðunum, og er það að skoða sem tryggingarráðstöfun til þess að tryggja jörðunum áhöfn. En aftur á móti held jeg að það sje ekki venja þar, að afrakstur jarðanna, svo sem heyforði, korn og þessháttar, fylgi með til veðsetningar. Hingað til hefir eigi borið svo mjög á því, að braskarar hjer á landi hafi tekið veð í áhöldum, búsgögnum eða heyforða, og held jeg því, að vart muni vera hætta á því, þó að rýmkað sje á leyfinu til veðsetningar, að braskararnir leggist hjer eftir meira á lifandi en dautt fje bænda. Ekki síst nú, er braskarar og okrarar eru nær hættir að lána út fje, vegna þess, að þeir eru búnir að fá þau afhroð undanfarið, að þeir hafa sjeð sjer vænst að draga inn uggana. Af þessu stafar það að nokkru leyti, að þrátt fyrir öll peningavandræði og illt ástand manna á meðal, hafa inneignir manna í sparisjóðum heldur aukist á síðari árum heldur en hitt. Þess vegna held jeg, að það sje engin ástæða til þess að óttast braskarana, enda get jeg ekki betur sjeð en að þeir geti notast við lausafjárveðin til þess að ná í eignir bænda, ef þeir ætla sjer það á annað borð. Veð í lausafje er aldrei veitt nema til eins árs í senn; en braskarar lána aðeins til skamms tíma, til þess að geta fremur náð veðunum, og til þess að veðsetja fje til aðeins eins árs duga reglur um lausafjárveð fullkomlega. En til þess að geta veðsett skepnur með jörðunum þarf slíka lagabreytingu sem þessa, er frv. fer fram á. Jeg tel því aldrei vera betra tækifæri en nú til að koma þessu í lög, er peningavelta braskaranna er senn þrotin. En það er ekki aðeins það, að braskarahættan er nú orðin hverfandi, heldur á þessi lagabreyting að verða til þess að hægra verði að hafa hendur í hári allra braskara. Nú sem stendur geta menn ekki veðsett skepnur sínar með jörðunum; jarðirnar eru nú í háu verði, en búast má við að þær falli í verði síðar, og því verða veð í þeim verri. Þegar ungir bændur eru að koma sjer upp búi, er það alsiða, að þeir veðsetja jarðir sínar með 1. og 2. veðrjetti og með ábyrgðarmönnum, en ábyrgðarmennirnir hafa eigi átt veð í skepnunum. Þetta hefir orðið til þess, að þegar þessir ungu bændur hafa komist í peningalegt öngþveiti, hafa þeir oft veðsett skepnur sínar öðrum en ábyrgðarmönnunum eða farið til braskara og fengið lán út á þær þar, og þegar ábyrgðarmenn bænda hafa ætlað að ganga að sínu, hafa þeir alls ekkert fengið. Þetta ætti því að verða til þess að koma því sama á, sem bankarnir hjer komu á eftir peningaekluna 1908. Fram að þeim tíma höfðu þeir ekki hirt um veð í fasteignum með öðrum veðrjetti, en ljetu sjer nægja með ábyrgðarmennina. Þetta varð til þess, að ábyrgðarmennirnir, sem áttu að sjá um að ganga eftir tryggingunum, urðu oft allhart úti. Eignir voru þá stundum veðsettar alt öðrum með 2. veðrjetti eða lausafje þeirra hafði verið lógað á annan hátt. Eftir þetta fóru bankamir einnig að taka veð í jörðum með 2. veðrjetti, með sjálfskuldarábyrgðarmönnum bænda. Þessi lagabreyting, sem frv. fer fram á, er sú, að þetta sama verði látið gilda um áhafnir jarðanna sem jarðirnar sjálfar. Jeg held því, að þessi breyting verði miklu fremur til bóta en til skaða fyrir bændur.

Þá benti hv. 1. þm. Skagf. (MG) á það, að ekki væri tekið neitt fram í frv. um þinglestrarreglur um þessar veðsetningar. Þess álít jeg eigi vera þörf, þar eð þetta heyrir undir lögin um veð, og er því óþarft að taka það fram í frv., enda hjer um samningamál milli lántakanda og lánveitanda að ræða, sem þeir haga eftir ástæðum. Að öðru leyti kann ýmislegt að vera til í því, sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir sagt, en jeg sje ekki, að það hafi mikla þýðingu í þessu máli. Það er vitanlega hægt fyrir jarðeigendur, ef þeim sýnist svo, að setja ótakmarkaðan kúgildafjölda á jarðimar og koma þeim þannig undir veðlögin um fasteignir. En eftirgjaldið eftir jörð og bústofn samlagt verður aldrei hærra en sæmilegir vextir af verði þeirra fjárstofna samlagt.

Skal jeg svo enda mál mitt með því að þakka háttv. nefnd fyrir góðar undirtektir í þessu máli og skal að síðustu geta þess, að þessa hugmynd, um að breyta lögunum um veð í þessa átt, fjekk jeg meðan jeg stýrði Landsbankaútibúinu á Selfossi. Þar komst jeg að raun um, að ákvæði um þetta vantaði tilfinnanlega í lögin og að talsvert tjón hefði orðið að því.