11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (1844)

57. mál, veð

Magnús Guðmundsson:

Háttv. frsm. allshn. í þessu máli (JörB) og háttv. flm. (MT) hafa báðir tekið það fram, að frv. stefni að því að tryggja fastá áhöfn á jörðunum. Fæ jeg ekki sjeð, að það sje á rökum bygt. Ef sala fer fram á veðsettri jörð ásamt áhöfn, er ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt þessu frv., að viðtakandi jarðarinnar eftir söluna, eða kaupandinn, komi með jafnmargar skepnur með sjer og þær, er voru þar fyrir, og skifti þannig um áhöfn á jörðinni. Áhafnarskifti geta því altaf orðið, þrátt fyrir þetta. Þá hefir hv. flm. (MT) haldið því fram, að braskararnir gætu látið sjer nægja með lausafjárveðin, en það vita allir, sem nokkuð hafa við slík mál fengist, að þau veð eru svo gölluð, að nær liggur að telja þau alónýt. Auk þess er erfitt að búa svo um þau veð til sveita, að þau verði vel trygg, og veit hv. flm. (MT) þetta fult eins vel og jeg. Ennfremur kemur þetta ljóst fram við gjaldþrot manns, sem hefir veðsett eigur sínar; þá liggur það í augum uppi, hve geysimikill munur er á því, hvort þar er um lausafjár- eða fasteignarveð að ræða; það eru mýmargar kröfur, sem ganga fyrir lausafjárveði. Hinu neita jeg þó alls ekki, að það gæti fengist meira lánað út á jarðirnar, ef alt væri veðsett með þeim, en jeg er samt hálfhræddur um það, að bankarnir verði allvarasamir í þessum efnum og þyki veðin í búfje ekki vera vel trygg. Þeir hafa fussað og sveiað við þessháttar veðum hingað til. Þá er jeg og hræddur um, að ákvæðin í lögum um veðdeild Landsbankans banni, að tekin verði þessháttar veð og hjer er farið fram á. Þá get jeg heldur eigi orðið háttv. flm. (MT) sammála, er hann segir, að engin hætta sje á því, að óttast þurfi braskarana, þar eð þeir sjeu nú fjelausir orðnir. Þessu er því að svara, að þegar lög eru sett um eitthvert efni, eru þau eigi aðeins sett fyrir nútímann eða þá líðandi stund, heldur einnig fyrir framtíðina. En þegar búið er að veðsetja jörð með 1. og 2. veðrjetti, verður fjelitlum mönnum það oft, þótt þeim sje það ilt, að veðsetja einnig með 3. og jafnvel 4. og 5. veðrjetti í eignum sínum, en skepnur og bústofn, eftir þessu frv., þá áður bundnar af 1. veðrjetti; sjest þá ljóst, hver ágætis trygging, eða hitt þó heldur, þetta er þeim, sem lægsta veðrjettinn eiga; bönkunum er aftur á móti óhætt með fyrstu veðrjettindin.

Þá sagði háttv. flm. (MT) ennfremur, að þetta frv. ætti að verða til þess að hafa höndur í hári braskaranna, en það tel jeg þó illmögulegt, þar eð ekkert er því til fyrirstöðu, að bændur veðsetji t. d. jarðir sínar með 3. veðrjetti og lausafje með 1. veðrjetti, hvorttveggja fyrir sömu skuldinni. Slíkt veð mundu braskarar taka en ekki bankar, og hlynnir frv. þetta því einmitt að bröskurunum, en hefir ekki hendur í hári þeirra.

Um þinglestrarreglurnar sagði háttv. flm. (MT), að þyrfti eigi að taka neitt fram í frv., þar eð þetta heyrði undir fasteignaveðlögin og þinglestur þeirra, en jeg er því einmitt mótfallinn, að ekki sje fylgt reglunum um lausafjárveðsetningu og þinglestur samkvæmt þeim reglum. Slíkt verður til þess, að fasteign verður höfð með í veðinu sem yfirskin, til þess að komast með lausafjeð undir fasteignareglurnar. Enn sagði háttv. flm. (MT), að sama tilgangi mætti ná með ótakmörkuðum kúgildafjölda á jörðunum; en það má hann sjálfur vita, að kúgildi þekkjast eigi lengur í lagamáli og eru aftekin fyrir góðum tíma síðan. En fyrrum mátti ekki setja fleiri kúgildi á jörð en svaraði einu kúgildi fyrir hver 5 jarðarhundruð, ef þau áttu að vera laus undan tíund, og datt engum í hug að bregða út af þessu. Þó má vel vera, að meiri hluti háttv. deildar sjái eitthvert gagn í þessu frv., en jeg sje fleiri ókosti en kosti á því, og mun því greiða atkvæði á móti því.