17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

71. mál, einkasala á saltfiski

Ágúst Flygenring:

Allir útgerðarmenn vita það vel, að tilgangur þessa frv. er eigi að bæta hag þeirra eða atvinnuvegsins yfir höfuð, enda hefir ekkert komið úr þessari átt, sem líklegt hafi verið til þessara hluta. Tilgangurinn er auðvitað sá, að þetta eigi að vera fyrsta sporið í áttina til algerðrar þjóðnýtingar á atvinnuvegunum. Enda veit jeg, að háttv. flm. (JBald) ætlast til þessa. Ef þetta frv. næði að verða að lögum, yrði næsta sporið að þjóðnýta fiskiveiðarnar, útgerðina, sem þá ætti að verða rekin eingöngu af ríkinu. Mundi og fleira á eftir fara, verslunin, peningamálin o. fl. o. fl. Jeg ætla ekki að fara að lýsa afleiðingum slíks atvinnurekstrar, enda þykist jeg vita, að allflestir geti gert þetta reikningsdæmi upp í huga sjer. Það voru aðeins hinar formlegu ástæður háttv. flm., sem jeg ætlaði mjer að athuga lítilsháttar. Það var þá fyrsta aðalástæðan, að þetta ætti að verða til þess að fyrirbyggja mistök á fiskversluninni og tryggja verðið. Önnur ástæðan var að auka erlendan markað fyrir íslenskan fisk með ríkiseinkasölunni, og í þriðja lagi, að ríkið átti að taka þann erlenda gjaldeyri, sem fyrir fiskinn fengist, í sínar hendur og nota hann til þess að rjetta við gengi íslensku krónunnar og draga um leið taumana úr höndum bankanna, sem mestu hafa ráðið áður um skrásetning gengisins. Viðvíkjandi þessu er það að segja, að mjer skilst sem stjórnin hafi nú, eða geti haft, bein afskifti af því, hvernig bankarnir ráðstafi erlendum gjaldeyri, og þurfi því ekki að koma fram óbeint ákvæði um það í þessu frv.

Verðið á fiskinum er ekki hægt að festa eða tryggja á annan hátt, það veit hv. flm. (JBald) eins vel og jeg. Hinar snöggu breytingar á fiskverðinu eiga rót sína að rekja til þess, að fiskurinn þolir ekki ótakmarkaða geymslu. Í öðru lagi er fiskframleiðslan meiri breytingum undirorpin en á flestum öðrum neysluvörum. Auk þess eru ýmsar aðrar neysluvörur seldar á sama markaði, við hliðina á fiskinum, sem eru mjög mismunadi í framboði. T. d. hefir það mikil áhrif á fiskmarkaðinn á Spáni, fyrrihluta vetrar, hvernig uppskeran af „tómötum“ hefir hepnast. Þá er enn ein höfuðástæða gegn frv., sem hv. flm. hefir alls ekki minst á. Fiskframleiðslan í hinum ýmsu löndum, sem keppa við okkur á markaðinum, er mjög mismunandi mikil, en víðast hvar miklu meiri en hjá okkur. Ennfremur er fiskframleiðsla hjá okkur, sem öðrum, mjög svo háð ýmsum náttúruöflum, svo sem veðráttu, hafstraumum o. fl. o. fl., sem við alls eigi getum ráðið við, allra síst, þegar litið er til þess, hversu lítið við höfum að segja í hlutfalli við aðrar fiskframleiðsluþjóðir. T. d. er fiskframleiðslan í Noregi 10 sinnum meiri en hjá okkur, og á Bretlandi er hún 30 sinnum meiri en hjá okkur. Við erum því aðeins sem dropi í hafinu, í samanburði við aðrar þjóðir, sem flytja fisk á heimsmarkaðinn. Það kemur oft fram í blöðunum hjer, ef fiskverðið fellur eitthvað, að það sje þeim að kenna, sem fiskinn selja á Spáni. Þetta er mjög ósanngjarnt og gersamlega fjarri öllum sanni. Hjer þurfa engin mistök að hafa átt sjer stað, og er æði ranglátt að bregða mönnum um slíkt. Sölunni hefir einmitt stundum verið áfátt á undanförnum árum vegna fjeleysis bankanna hjer, sem hafa ekki getað greitt fyrir henni sem skyldi, vegna fátæktar, en það er oft talsverður kostnaður því samfara að koma fiskinum á markað. Ennfremur vita t. d. allir það, að það var ekki með vilja gert, þó fiskhringurinn svonefndi spilti um hríð fyrir sölu á íslenskum fiski, síður en svo, að það væri viljandi gert af fiskhringnum að valda sjer sjálfum og öðrum því tapi, sem varð. Það voru lítt viðráðanlegar ástæður, sem voru þess valdandi. Og þess ber vel að gæta, að það tap, sem hringurinn varð fyrir, hefði væntanlega borið að hvort sem var, en bara í dálítið annari mynd. Verðið undanfarinn tíma hefði þá yfirleitt verið lægra, og hefði almenningur orðið að sæta því. Tapið hefði með öðrum orðum færst til, þannig, að það hefði ekki verið einstakir menn og þessi banki, sem varð fyrir því, heldur allur þorri smærri fiskframleiðenda. Þetta verðfall var líka ekkert einsdæmi hjá okkur. Aðrar þjóðir fengu einnig að kenna á því. Slíkt getur altaf komið fyrir í stærri viðskiftunum við öll lönd, og er því oft þannig farið, að ómögulegt er að sporna við því.

Jeg skal ekki hafa neitt á móti samvinnu í því að selja afurðir landsins. Í því efni get jeg verið samþykkur háttv. flm. En jeg er gersamlega mótfallinn því, að þeirri samvinnu sje hagað þannig, að alt sje sett í hendur stjórnarinnar. Það væri líka einsdæmi, og veit jeg ekki til þess, að það hafi verið gert í nokkru öðru landi með svipuðu stjórnarfyrirkomulagi og hjer er hjá okkur. Það væri þá líka langsanngjarnast að leggja veiðarnar í hendur stjórnarinnar líka, enda myndi það sjálfgert, því fáir myndu vilja reka fiskiveiðar, ef stjórnin ætti að taka við afurðunum og hafa söluna á hendi.

Að því er snertir söluna nú, þá verð jeg að taka það fram, að Íslendingar hafa aðallega haft hana á hendi. Gerir háttv. flm. of mikið úr því, að útlendingar gíni þar yfir okkur, því í rauninni kemur það í sama stað niður, hvort vjer seljum Englendingum fiskinn og fáum pund fyrir, eða látum landann annast söluna til Spánar. Í báðum föllum fer salan fram gegn erlendri mynt.

Mjer þykir það annars helst til þung ásökun, sem háttv. flm. bar hjer fram, að þeir menn, sem ekki vildu aðhyllast þetta frv., vildu gera þjóðinni skaða. Jeg er til í að snúa þessu við og fullyrða, að misverknaðurinn er þeirra megin, sem bera annað eins fram. Hv. flm. sagði, að ríkið hefði haft stóran rekstur með höndum, sem hefði gengið prýðisvel. Jeg veit að vísu um það, að hjer er bæði tóbaks-, vín- og olíueinkasala, en sú verslun er svo ný, að ekki er hægt að dæma um hana ennþá. Hv. flm. kvað þetta verða til þess að hindra það, að einstakir menn brölluðu með gjaldeyrinn. Jeg hefi nú, sannast að segja, litla trú á því, að slíkt brall hafi getað átt sjer stað í stórum stíl, því það hafa, mjer vitanlega, engar gullhrúgur verið erlendis, sem Íslendingar hafa getað „spekúlerað“ með. Það mun vera tóm ímyndun, að íslenskir kaupmenn nú á dögum „spekúleri“ með fje sitt í útlöndum.

Jeg get vel fallist á það með háttv. flm., að gott sje að leita markaðs fyrir afurðir landsins, enda hefir það verið gert. En sáralítill árangur hefir ennþá orðið af þeirri leit. Lít jeg svo á, að fyrst um sinn muni okkur nægja sá markaður, sem við höfum á Spáni og Ítalíu. En þegar þar að kemur, að hann verði ónógur, þá verðum við auðvitað að reyna að færa út kvíarnar. En þess ber vel að gæta, að það er ómögulegt að búa til markað, þar sem engin skilyrði eru fyrir hann. Skal jeg t. d. benda á það, að enska stjórnin gerði sem hún gat á stríðstímunum til þess að síld yrði notuð til manneldis á Bretlandi, Hún ljet lærða prófessora fara um landið þvert og endilangt og prjedika það, hve holl fæða saltaða síldin væri. Óteljandi rit voru um þetta samin og fjöldi sýnishorna var sendur um land alt. En ekkert dugði. Þeir höfðu nú einu sinni ekki list á síldinni og hafa það ekki enn. Nei, við hljótum aðeins að halda okkur við þær þjóðir, sem vilja neyta þessara fæðutegunda. Býst jeg við, að þegar markaður Spánverja verður okkur ónógur, þá höfum við ekki annað að flýja en til Suður-Ameríku. En það kostar bæði fje og fyrirhöfn að tryggja sjer slíkan markað. Skal jeg í því tilliti benda á það, að Englendingar, sem senda mikinn fisk til Rio de Janeiro, Santos og Buenos Aires hafa í öllum þessum stöðum ekki einasta konsúla og verslunarerindreka, heldur hefir líka hvert verslunarfjelag sinn prívat-erindreka og alt, sem með þarf, til þess að greiða fyrir fiskversluninni. Þetta geta stórþjóðirnar, en við getum það ekki, af því að þessi rekstur er í svo smáum stíl hjá okkur.

Jeg verð að lokum að taka það fram, að jeg hefi ótrú á því, og tel það harla óráðlegt, að þeir menn, sem mesta æfingu hafa í því að reka þennan atvinnuveg og selja afurðir hans, að þeir láti af að stjórna honum og aðrir menn taki við, lítt vanir eða óvanir þeim störfum. Veit jeg líka, að það kemur ekki til mála, að slíkri byltingu í viðskiftalífinu verði nú komið á. Tel jeg gersamlega óþarft að sýna þessu máli þá hæversku að láta það ganga til nefndar, og legg því til, að það verði felt tafarlaust.