17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

71. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg á ef til vill að skilja það svo, að hv. þm. (ÁF) vilji láta frv. sigla nefndarlaust gegnum þingið. Sje svo, þá er það fjarri mjer að vera á móti því, að það sigli svo góðan byr.

Háttv. þm. (ÁF) byrjaði annars á því, að þetta frv. væri ekki borið fram í því skyni að bæta hag fiskveiðanda, og kvað það ljóslega hafa komið fram í flutningsræðu minni. Jeg skal játa, að það yrði til þess, að fáeinir fiskeigendur biðu tap eða óhag við þetta, en öllum þorra hinna yrði það til hags, en það er einmitt á hag fjöldans, sem jeg vil líta, en ekki á hag fárra einstakra manna. Háttv. þm. leit svo á, að engin leið væri til að ætla það, að þessi leið yrði frekar til þess að fyrirbyggja mistök við söluna. Reynslan sker hjer úr. Við höfum þegar næg dæmi þess, hvernig þetta hefir farið í höndum einstakra manna, og við höfum líka reynslu fyrir því, hvernig verslunin með sjávarafurðirnar úr hendi ríkisins hefir farið. Gefur sú reynsla hinar bestu vonir um framtíðina, ef sú aðferð yrði tekin upp, en hinsvegar lítur svo út, að ef sama fyrirkomulagi verður haldið áfram með þessa verslun, þá fari alt í hund og kött.

Háttv. þm. kvað ríkisstjórnina geta haft nægileg áhrif á bankana eins og nú stæði. En jeg vil bara spyrja: Hvar er þau áhrif að finna? Við verðum að láta reynsluna tala hjer sem annarsstaðar.

Jeg skal játa það með háttv. þm., að verð þessarar vöru hlýtur altaf að vera nokkrum breytingum háð. En það þarf ekki að vera háð svo miklum breytingum eins og nú á síðustu árum. Það er að minsta kosti hægt að girða fyrir þann breytileik, sem stafar af því, að einstakir menn eru að „spekúlera“ með vöruna — geyma hana og halda henni í afarverði, þangað til einn góðan veðurdag að alt brestur. Það fyrirkomulag, sem frv. þetta fer fram á, yrði undir öllum kringumstæðum tryggara. Háttv. þm. játaði það líka, að menn væru of sundurlyndir og ósamtaka í þessum efnum, svo það er auðsjeð, að hann veit sjálfur af göllunum, sem þessu gamla fyrirkomulagi fylgja. Munurinn á skoðunum okkar er því ekki svo ýkjamikill, (ÁF: Jú!) því jeg fer aðeins fram á það, að ríkið þrýsti mönnum til þessarar samvinnu, sem hv. þm. (ÁF) þráir, að komist á.

Háttv. þm. játaði, að stórfje hefði tapast við fiskikaupin um árið, en hann kvað það tap aðallega hafa komið niður á fáum mönnum. Jeg held því fram, að þetta hafi einnig komið hart niður á almenningi. Bankinn tapaði stórfje við þetta og gat því síður fullnægt viðskiftaþörfinni á eftir. En það er beint tap fyrir fjöldann. Að því er snertir þá röksemd háttv. þm., að „Fiskhringurinn“ hafi þó altaf orðið til þess að veita mönnum aukna vinnu, þá vil jeg svara því, að það er betra, að vinnan sje jöfn og stöðug en að ofvöxtur hlaupi í hana um stuttan tíma, til þess að alt fari svo á eftir í kalda kol.

Þá er það misskilningur hjá háttv. þm., að enginn muni treystast til að reka veiðar, ef stjórnin taki að sjer söluna. Allir smærri útvegsmenn myndu telja þetta happ. Myndi það gera þá öruggari og ötulli og myndi því aðeins verða til þess, að þeir rækju veiðarnar af meira kappi en áður og mundu auka útveg sinn.

Þá talaði háttv. þm. um það, að skakt væri, að fiskisalan hjer væri að talsverðu leyti í höndum útlendinga. Jeg verð að halda því fram, að þessu sje svo varið í raun og veru. Veit jeg líka, að háttv. þm. muni sem öðrum vera kunnugt um þá útlendinga, sem hafa komið hingað til landsins í þeim erindagerðum að kaupa fisk, og að þeir hafa ekki farið erindisleysu. Einnig er það kunnugt, að margir Íslendingar hafa verið milliliðir fyrir erlenda menn í þessum efnum.

Háttv. þm. játaði, að rjett væri að gera eitthvað fyrir markaðinn, en það var jafnframt á honum að heyra, að menn mættu yfirleitt vera ánægðir með hann eins og hann væri nú. En jeg verð að halda því fram, að það sje fjarri því, að menn sjeu alment ánægðir með hann. Fyrir skömmu síðan kröfðust Spánverjar þess, að við breyttum innanlandslögum okkar, svo framarlega sem við vildum njóta bestu kjara við saltfisksöluna hjá þeim. Við urðum undan að láta og breyta þessum lögum, sem ef til vill hafa haft mest siðferðislegt gildi allra íslenskra laga. Veit jeg, að mörgum þykir hart við þetta að búa og eru óánægðir með að hafa ekki markað nema í þessum eina stað. Óttast þeir að vera framvegis svo háðir annari þjóð sem við erum nú Spánverjum. Er það og orsökin til þess, að svo mikið fje er ætlað til markaðsleitar í frv. þessu.

Þá drap háttv. þm. á ríkisverslunina. Gerði hann sig þar fáfróðari en hann er í raun og veru, því hann kvaðst ekki þekkja aðra ríkisverslun en tóbaks-, vín- og olíuverslunina. Man háttv. þm. virkilega ekki eftir landsversluninni, sem rekin var á stríðsárunum? (ÁF: Það var bara bráðabirgðaráðstöfun.) Háttv. þm. var þá einn af stjórnendum þeirrar verslunar, og á hann þakkir skilið fyrir þá starfsemi sína. Sú reynsla sýndi ljóst, að það er hentugra, að ríkið hafi hönd í bagga með versluninni, og því skyldi það ekki einnig vera svo framvegis? Get jeg hugsað mjer, að mikið af þeim örðugleikum, sem við eigum nú við að búa, stafi af því, að við höfum ekki slíka verslun, Mun og innan skamms reka að því, að þetta verður almenn krafa, að landsverslunin verði færð í það horf, sem hún var í á stríðsárunum.

Jeg vil að endingu endurtaka það, að í rauninni er ekki svo mikill munur á skoðunum okkar í þessum efnum. Hv. þm. (ÁF) viðurkennir, að ólag sje á fiskisölunni og óskar jafnframt eftir betri samvinnu. En hann er bara á móti því, að ríkið knýi menn til þeirrar samvinnu. Hann nálgast mjög skoðun mína á göllunum, en vill bara bæta úr þeim á þann hátt, sem ekki er hægt.