17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

71. mál, einkasala á saltfiski

Ágúst Flygenring:

Jeg ætla að byrja á þessu, sem hv. flm. (JBald) endaði á, að jeg hefði játað, að það væri ólag á fisksölunni. Jeg stend við það, að jeg teldi frjálsa samvinnu æskilega, en tek það jafnframt fram, að þetta er ekkert einsdæmi um okkar fiskverslun. Um þessar mundir er ólag á verslun og viðskiftum víða í heiminum. Veit jeg t. d. ekki, hvort við stöndum nokkuð að baki Norðmönnum í þessum efnum, hvað fiskverslunina snertir. Þeir versla með fisk sinn í sömu löndum og við, og jeg veit ekki betur en að þeir hafi líka orðið að kenna á verðfallinu hjer um árið, sem ljek okkur harðast. Annað eins og þetta er oft óviðráðanlegt og sama, hvort við eigum hlut að máli eða einhver önnur þjóð. Jeg skal hinsvegar endurtaka það, að það væri æskilegt, að við hefðum víðtækari sambönd og betri samtök um söluna. Jeg skal taka það fram, að með því á jeg ekki við samtök til okurs, eins og háttv. flm. talaði um, heldur samtök til þess að reyna að draga úr. áhættunni. En það er ekki hægt að mynda slík samtök, nema þau sjeu bygð á vilja meirihluta þeirra manna, sem stunda þennan rekstur. Má og geta þess, að tilraun meðal útgerðarmanna og fiskútflytjenda um að hafa samvinnu í verslun með sjerstakri nefnd, sem skipuð yrði úr þeirra hóp, strandaði á því, að meirihluti þeirra áleit slíkt fyrirkomulag vera ofmjög haft á umráðarjetti einstaklingsins. Fyrir mitt leyti var jeg þessu mjög fylgjandi og áleit, að slík nefndarskipun gæti orðið til hagsmuna, eða í öllu falli afstýrt óhöppum í ýmsum tilfellum. En það fekst nú ekki meirihluti fyrir þessu, og sýnir þetta best, að menn vilja umfram alt algert frjálsræði í þessum efnum. Hvað, sem síðar kann að verða, þá er tíminn áreiðanlega ekki enn þá þroskaður hjer fyrir hitt fyrirkomulagið, sem farið er fram á í frv.

Er því augljóst af þessu, að þótt gott og hagkvæmt kunni að vera, að menn hafi samtök sín á milli um sölu afurðanna, þá er það ekki hægt að koma þeim fram, nema meirihluti hallist á þá sveifina. Væri það hreint og beint ósvífið af löggjafarvaldinu, ef það tæki sjer vald til þessa, gegn vilja meirihluta þeirra manna, sem mest eiga hjer í húfi.

Hvað snertir rannsókn sölustaða, þá vil jeg segja háttv. flutningsmanni það, að við þekkjum möguleika og skilyrði fyrir saltfiskssölu í Suður-Ameríku, en það hefir hingað til ekki verið talið borga sig að senda fisk þangað. Um engin bein sambönd er að ræða, heldur verður að fara í stóra króka, annaðhvort til Bretlands eða Noregs, og umskipa fiskinum þar. Tefur það ekki að eins flutninginn, heldur skemmist oft varan og umbúðirnar svo mikið, að þau vandkvæði gera þá leiðina næstum ófæra. Þar að auki er markaðinum þar svo hagað, að ekki er hægt að vita neitt fyrirfram um söluna, því varan kemst ekki fyr á markaðinn en hlutaðeigandi heilbrigðisstjórn hefir lýst hana góða og gilda. Helst þarf maður að eiga þar sína eigin verslun til að koma vörunni út. Er því málinu svo háttað, að ekki myndi meir en svo borga sig að senda þangað fisk, þó gert væri ráð fyrir, að ekkert skemdist og um bein sambönd væri að ræða og jafnframt tekið tillit til þess, hve verðið er hátt.

Skal jeg svo ekki fara meir inn á það mál, þó auðvitað væri æskilegt, að við ættum þar verslun, þegar okkur vex svo fiskur um hrygg, eftir mörg ár, að framleiðslan er orðin máske helmingi meiri en nú.

Jeg sje ekki ástæðu til að draga Spánarvínið nje Spánarsamninginn inn í þessar umræður; hann byggist á því, sem venjulegt er í öllum milliríkjasamningum, að aðalframleiðsluvörumar sjeu gagnkvæmilega frjálsar.

Þess má geta viðvíkjandi fiskverslun útlendinga á síðustu 10 árum, þá hefir það aðallega verið eitt danskt „Konsortium“, sem keypt hefir hjer fisk. Hefir þetta fjelag, sem kunnugt er, tapað stórfje, mörgum miljónum, sem þó ekki voru lánaðar í íslenskum bönkum; það var alt útlent fje, sem þeir unnu með. Og ekki var tap þess fjelags því að kenna, að það væri ókunnugt slíkri verslun, því það hafði rekið hana í Miðjarðarhafslöndunum um 40 ár. Er það sönnun þess, að þeim getur mistekist, sem öflugri eru en við Íslendingar og slungnari í verslunarmálum. Gæti það og hent, að tap yrði, þó stjórnin hefði verslunina.

Mjer virðist, að dæmi hv. flm. (JBald) um okurhringinn mætti snúa upp á stjórnina. Menn myndu krefjast af henni, að hún fengi sem mest verð, og gæti það orðið til þess, að hún hjeldi of lengi í vöruna, eins og okrararnir, og færi svo á rassinn eins og þeir — eins og hann komst að orði.