17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (1859)

72. mál, einkasala á útfluttri síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg veit ekki, hvort rjett er að leggja þetta frv. líka undir hnífinn, eins og hið fyrra. Háttv. þdm. virðast hafa í huga að láta ekki þessi frv., sem eru til hagsbóta þjóðinni, ná fram að ganga.

Jeg vil þó fara nokkrum orðum um málið, þó grundvallarástæðurnar sjeu þær sömu og málsins næst á undan, um saltfiskseinkasöluna.

Að því leyti ætti þetta frv. að fá betri viðtökur en hitt, að mönnum er það vitanlegt, að síldarútvegsmenn hafa undanfarið haft áhuga á því, að ríkið hefði hönd í bagga með sölu og útflutningi síldarinnar. Og 1921 kom fram og var samþykt hjer í hv. Nd. víðtækt frv. um að lögfesta samtök þeirra og annað, sem þeir töldu nauðsynlegt viðvíkjandi sölunni og útflutningnum. Er það nokkur trygging þessa máls, því þó frv. þetta gangi ekki nákvæmlega í sömu átt, þá er það þó til þess að koma betra fyrirkomulagi á söluna og útflutninginn en verið hefir.

Jeg ætla mjer ekki að fara út í mistök þau, sem urðu, þegar einstaklingarnir tóku síldarsöluna í sínar hendur; þau eru öllum kunn. En þegar ríkið hafði hann 1918, gekk hún ágætlega, og voru smærri framleiðendur sjerstaklega ánægðir með framkvæmdir ríkisins í því efni og einnig nokkrir hinna stærri. Síðar, er einstaklingarnir tóku við henni, töpuðust miljónir, ef til vill tugir miljóna kr., á örstuttum tíma.

Þótt nú síldarútvegurinn sje ekki eins stór atvinnuvegur og fiskiveiðarnar, þá er hann samt svo mikilsvarðandi, að fullkomin ástæða er til að ríkið láti hann sig miklu skifta. Ekki síst af því, að það er álit þeirra, sem kunnugastir eru, að háskalegast sje fyrir söluna, að of mikil veiði sje, að menn megi ekki veiða nema sáralítið af þeim ógrynnum af síld, sem streymi meðfram landinu, ef hægt eigi að vera að selja aflann.

Í frv. eru engin ákvæði um takmörkum veiðinnar, en með því er stungið upp á fyrirkomulagi, sem gerir mögulegt að selja alt, sem við getum veitt.

Menn vita hvernig einstaklingunum gengur að afla sjer nýrra markaða, að þeir hvorki hafa dug nje efni til þess. En í frv. er farið fram á, að ríkið fái dálitlar prósentur af andvirði seldrar síldar, í því skyni að afla nýrra markaða. Ætti það að vera auðvelt fyrir ríkið, þegar það hefir fje til þess handa á milli að senda menn og afla upplýsinga, þar sem helst væri söluvon fyrir síld, og á jeg þar sjerstaklega við Eystrasaltslöndin og Rússland. Gæti það og gert tilraunir með vörusendingar, sem einstaklingunum er um megn. Myndi það ekki muna litlu fyrir þjóðina, ef þetta gæti komist á og hægt væri að selja takmarkalaust síld, eða jafnmikið og útvegsmenn gætu aflað með nokkru móti. Og er því þessi einkasala ef til vill brýnni en á öðrum vörutegundum.

Jeg ætla mjer ekki að fara fleiri orðum um frv.; býst við, að örlög þess sjeu ráðin fyrirfram. Geta má þó þess, að á síðasta þingi náði slíkt frv. að ganga til nefndar, þó það yrði ekki útrætt. Vil jeg því vænta þess, að frv. verði nú vísað til hv. sjútvn. að þessari umræðu lokinni. Jeg vil ekki þurfa að búast við, að sama skammsýnin ráði í þessu máli og því undanfarna. Því þó sumir kunni að halda, að skipulagsleysið sje best, hefir reynslan sýnt annað. Það er sýnt, að einstaklingarnir eru ekki færir um að fara með söluna nje útvega nýja markaði, og er því eðlilegt, að ríkið taki málið í sínar hendur og tryggi þennan atvinnuveg landsmanna. Því hann er ekki eingöngu fyrir útvegsmenn og örfáa gróðabrallsmenn, heldur fyrst og fremst til lífsviðurværis verkalýðnum og landsmönnum í heild, og rjettlætir það fullkomlega, að ríkið taki söluna í sínar hendur.

Trúi jeg því ekki, að þetta mál fari í sömu gröfina og hið fyrra, að svo blind ofstæki ríki hjer í velferðarmálum þjóðarinnar, að menn láti einstaklingana fara lengur með þetta, eftir að þeir eru búnir að sýna sig ófæra til þess.