20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1864)

82. mál, samvinnufélög

Ingólfur Bjarnarson:

Áður en frv. þetta fer lengra, sem er nokkurskonar afturganga frá síðasta þingi, vildi jeg láta í ljós skoðun mína á því með fáum orðum. Jeg tel, að það myndi spilla mjög fyrir samvinnulöggjöfinni, ef frv. þetta næði fram að ganga, og að það væri mjög varhugavert fyrir kaupfjelögin um land alt, að svo yrði.

Jeg sje ekki annað en að það hlyti að hafa það í för með sjer, að viðskiftatraust eða lánstraust þeirra kaupfjelaga minkaði, sem breyttu fyrirkomulagi sínu í þá átt, sem hjer er bent til, þannig, að sameiginleg ábyrgð væri aðeins innan hverrar deildar, en ekki á milli deildanna. Við það myndu fjelögin algerlega missa þann stuðning, sem þau hafa af ábyrgðinni út á við. En eins og allir vita, sem nokkuð þekkja til samvinnufjelagsskapar, þá er samábyrgðin sterkasta aflið til þess að tryggja lánstraustið út á við, og sömuleiðis hjálpar hún mjög til þess að treysta eftirlitsskipulagið innbyrðis.

Því má nú máske halda fram, að frv. þetta sje ekki hættulegt fjelögunum yfirleitt, þar sem aðeins sje um heimild fyrir þetta eina fjelag að ræða, nefnilega Kaupfjelag Borgfirðinga, en mjer finst samt vera hætt við því, að einhver fjelög önnur kynnu að vilja breyta skipulagi sínu í þessa átt, sem hjer er bent til, ef þetta fyrirkomulagfengi þann stuðning löggjafarvaldsins, sem hjer er farið fram á. Sjerstaklega má óttast þetta, þegar litið er til þess, sem alkunnugt er, að mikið kapp hefir verið lagt á það undanfarið, og eins nú, að gera samábyrgðina tortryggilega og hættulega í augum almennings. Og þar sem fjárhagurinn er nú alstaðar örðugur, þá er því meiri ástæða til að óttast, að þetta ákvæði kynni að valda glundroða og óánægju innan kaupfjelaganna, sem væri illa farið.

Það er þetta, sem mjer virðist dálítil hætta vera á, að þessi undanþága geti náð til fleiri fjelaga en Kaupfjelags Borgfirðinga. Jeg vil taka það fram, að mjer kemur ekki til hugar, að Kaupfjelag Borgfirðinga hugsi sjer, með þessu frv., að spilla samvinnulöggjöfinni, þó sú yrði afleiðingin eftir minni skoðun. Jeg hygg þetta frekar sprottið af ókunnugleik Kaupfjelags Borgfirðinga á eðli málsins, sem skiljanlegt er, þar sem fjelagið mun aldrei hafa haft samábyrgð gildandi, hvorki innan deilda eða í fjelaginu. Þó að hv. flm. (PO) hafi lýst yfir, að kaupfjelagið hafi reynt hvorttveggja, deildaábyrgð og ótakmarkaða ábyrgð allra fjelagsmanna, þá hygg jeg, að það sje eitthvað málum blandað. Jeg hefi mjög góða heimild fyrir því, að þetta kaupfjelag hafi aldrei haft sameiginlega ábyrgð í lögum sínum. Jeg vil einnig benda á, að það væri varla til mikilla bóta, þó að samábyrgðin næði aðeins til deildanna innbyrðis, að því er snertir það atriði, að þær mundu þá fara varlega um úttekt sína. Það mundi sýnilega enga óvarkárni skapa eða hirðuleysi um að standa í skilum, þó að sameiginleg ábyrgð væri milli deildanna, því að vitanlega yrði hin sameiginlega ábyrgð innan deildarinnar notuð til hins ítrasta, áður en vanskil hennar lentu á hinum deildunum.

Jeg ætla annars ekki að fara að hefja deilur um mál þetta, en læt nægja að gera þessar fáu athugasemdir, og mun vitanlega greiða atkvæði gegn frv.