20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (1865)

82. mál, samvinnufélög

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg skal fyrst víkja að þeim orðum hv. þm. S.-Þ. (IngB), er hann vildi draga það í efa, sem jeg sagði, að Kaupfjelag Borgfirðinga hafi haft samábyrgð í lögum sínum og starfað um tíma á þeim grundvelli. Misskilningurinn er hans megin, því að fjelagið starfaði í 5–7 ár með þessu fyrirkomulagi. (TrÞ: Nei, nei!). Þetta er áreiðanlegt, því að jeg hefi það eftir mönnum, sem eru í fjelaginu og hafa verið lengi í því, og ætti þeim að vera öðrum kunnugra um þetta. Það er því ekki ofmælt, að fjelagið hefir reynt að starfa á hvorttveggja þessum grundvelli, bæði með sameiginlegri ábyrgð fjelagsmanna og með ábyrgð innan hverrar deildar. Jeg þarf ekki að endurtaka það, að vegna þess, að fjelaginu hefir reynst síðarnefnda fyrirkomulagið tryggara á þeim erfiðu tímum, sem verið hafa nú um hríð, vill það halda áfram á þeirri braut.

Það kom í ljós, meðan fjelagið hafði samábyrgðarfyrirkomulagið, að ýmsum óreiðumönnum stóð opnari leið til þess að vinna fjelaginu fjárhagslegt tjón, heldur en þegar samábyrgðin var takmörkuð svo sem nú er. Með því að takmarka samábyrgðina við hverja deild, er reynsla þeirra, að þá sje svo vel trygt, sem nokkur kostur er á, að einstakir meðlimir stofni ekki til meiri skulda en þeir geti staðið í skilum með á ákveðnum tíma. Það næst einmitt með því, að ábyrgðin sje ekki víðtækari en svo, að menn viti, að hver deild verður að greiða skuldina, ef eitthvað brestur á um skilsemi manna, en geti ekki skotið henni yfir á aðrar deildir. Þetta veitir það aðhald innan hverrar deildar, að ekki verði tekið út óvarlega, en af því leiðir aftur, að viðskifti fjelagsins haldast á öruggari grundvelli. En það er vitanlega æðsta boðorð allra viðskifta, að þeim sje hagað svo, að ekki verði tap af þeim. Reynslan hefir sýnt Borgfirðingum, að þetta fyrirkomulag er tryggara, og að því leyti sem góð afkoma og hagsæld hjeraðsins byggjast á verslunarfyrirkomulaginu, telja þeir henni best borgið með þessu. En það er bersýnilegt, að það, sem skapar heilbrigt viðskiftalíf inn á við, getur ekki veikt út á við, heldur styrkir það. Enda sýnir reynslan, að Kaupfjelag Borgfirðinga nýtur fullkomins trausts út á við.

Þar sem háttv. þm. S.-Þ. hjelt því fram, að þetta mundi rýra traust fjelaganna út á við, er þau þyrftu að leita nauðsynlegra lána, þá er það gagnstætt reynslu Borgfirðinga í þessu efni, eins og jeg tók fram. Það virðist því ekki nema sanngirniskrafa, að fjelag, sem rekið er á þessum samvinnugrundvelli, njóti einnig verndar samvinnulaganna og hlunninda þeirra, er þau veita, og sje jeg satt að segja enga ástæðu fyrir samvinnumenn að setja sig upp á móti þessu, því að altaf verður að taka tillit til reynslunnar. Eins og jeg gat um í upphafi, skerðir þetta ekki grundvöll samvinnulaganna, og getur því ekki spilt fyrir þeim fjelögum, sem telja hagkvæmara að starfa á þeim grundvelli, sem samvinnulögin gera nú ráð fyrir.

Háttv. þm. S.-Þ. taldi hættu á því, að önnur fjelög mundu einnig vilja breyta til og taka upp þetta fyrirkomulag, ef frv. yrði að lögum, en það mundu þau auðvitað ekki gera, nema þau sæju sjer hag í því. En telji þau hag sínum betur borgið á þennan hátt, yrði því ekki afstýrt með löggjöf, að þau breyttu til, því að þau mundu gera það alt að einu, þó að lögunum verði haldið í sama horfi sem nú. Það er reynslan og framþróunin, sem kemur þar til greina, og verður þá lagastafurinn að víkja.

Þá mintist hv. þm. á, að þessi beiðni mundi fram komin vegna ókunnugleika á eðli málsins, en svo tel jeg ekki vera. Kaupfjelag Borgfirðinga er með elstu kaupfjelögum á landinu og hefir starfað í full 20 ár, og hygg jeg, að kaupfjelagsmenn þar efra skilji þetta mál engu síður en aðrir.

Loks gat háttv. þm. S.-Þ. þess, að þó að sameiginleg ábyrgð væri innan fjelagsins, mundu vanskil bitna á hverri deild, og ekki gripið til ábyrgðar heildarinnar, fyr en gjaldþol deildarinnar væri þrotið. Jeg hygg, að þetta sje ekki í samræmi við anda samvinnulaganna. Verði einhver deild fyrir skakkafalli, verður eftir samvinnulögunum að jafna því niður á alt fjelagið, en má ekki gersamlega tæma gjaldþol hverrar deildar áður.

Jeg hefi nú svarað mótbárum hv. þm. S.-Þ., og vænti jeg þess, að frv. fái að fara til nefndar, og jeg hefi þegar gert það að tillögu minni, að því verði vísað í allshn.