20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1869)

82. mál, samvinnufélög

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg skal fyrst víkja að því, sem enn er haldið á lofti, að menn vilja draga í efa, að Kaupfjelag Borgfirðinga hafi nokkurntíma haft sameiginlega ábyrgð. Háttv. þm. S.-Þ. sagði sem rjett var, að jeg mundi ekki vera í fjelaginu, því að jeg er þannig settur, að jeg get ekki náð til þess. En hitt er engu að síður rjett, sem jeg hjelt fram, að fjelagið hafi starfað á nefndum grundvelli 5–7 ár. Nú vill svo heppilega til, að hv. þm. Mýra. (PÞ) er í þessu fjelagi, og get jeg skotið til hans, hvort jeg fer hjer ekki með rjett mál. Hann getur því rekið endahnútinn á það, að kveða niður þann draug, sem andstæðingar frv. eru að burðast við að vekja hjer upp. Hann tók það einmitt fram á síðasta þingi, að meðan haldið var við víðtæku ábyrgðinni, hallaði undan fæti, en síðan núverandi fyrirkomulag var tekið upp, hefir aftur færst til rjetts horfs. Ef menn vilja fá úrskurð á þessari deilu, er handhægt að fá hana í þessum stað, sem jeg hefi nú bent á. Þar sem hv. þm. Str. (TrÞ) gat um, að þegar hann hefði verið þar efra, hefði þetta komist á pappírinn og verið gengið meðal manna til að safna undirskriftum, en gengið treglega, þá hygg jeg, að hann eigi við, þegar sú breyting varð uppi, að fjelagið skyldi ganga í Samband íslenskra samvinnufjelaga. (TrÞ: Þetta er misskilningur). En þá er það líka áreiðanlega, vægast sagt, misskilningur hjá hv. þm., að fjelagið hafi aldrei starfað á grundvelli víðtæku samábyrgðarinnar, nema á pappírnum.

Þar sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) var að tala um, að jeg hefði verið að draga eitthvað undan um tilgang þessa máls, þá hefi jeg lýst því áður, að tilgangur fjelagsins er einungis sá, að það njóti verndar samvinnulaganna á þessum grundvelli, og því aðeins flyt jeg þetta frv., að jeg er sannfærður um það, eins og kaupfjelagsmenn í Borgarfirði, að fjelagið muni ekki verða miður fært um að standa við skuldbindingar sínar út á við. Og það byggja þeir á reynslu sinni. Það leiðir líka af sjálfu sjer, að það fyrirkomulag, sem tryggir skilsemi fjelagsins innbyrðis, það tryggir það jafnframt, að fjelagið geti staðið í skilum út á við og þar af leiðandi notið fulls trausts. Mál þetta er því sett fram á rjettan hátt og bygt á rjéttri hugsun og rjett undirbúið. Alt tal hv. 1. þm. N.-M. um hið gagnstæða, er fjarstæða einber, meinloka í hans eigin hugsun.

Út af því, sem hv. þm. S.-Þ. (IngB) sagði um deildafyrirkomulagið og hvernig það hefir verið „praktiserað“ í Þingeyjarsýslu, þá er það náttúrlega alveg rjett, að áður en samvinnulögin komu til, var hægt að fara þannig að og nota þar með þá tryggingu, sem slíkt fyrirkomulag veitir öruggum viðskiftum, en ákvæði samvinnulaganna taka alveg af um þetta, því samkv. þeim er ekki hægt í slíku tilfelli að tæma gjaldþol hverrar deildar fyrir sig, heldur er skylt að færa tapið yfir á alla heildina. Þar með er vikið frá því öryggi, sem deildafyrirkomulagið, eins og Kaupfjelag Borgfirðinga notar það, veitir. Starfi þau fjelög, sem gengið hafa undir samvinnulögin, á öðrum grundvelli eða hyggist gera það, þá fellur það um sjálft sig, ef á bjátar, því lögin taka af skarið um það.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að það væri einkennilegt, að allir samvinnumenn stæðu á móti mjer í þessu máli, en andstæðingar samvinnunnar væru með. Þetta er nú fyrst alveg rangt, að allir samvinnumenn sjeu á móti þessu máli, það eru ýmsir ágætir samvinnumenn einmitt með málinu, en það eina einkennilega við þetta er, að nokkur samvinnumaður skuli vera á móti þessu máli, sem ótvírætt miðar að því að auka og bæta samvinnuna og bygt er á því, að viðskiftunum sje haldið á þeim grundvelli, sem tryggastur er og bestur. Annars er það nú svo um hvert mál, að gildi þess er í því sjálfu fólgið, en ekki því, hverjir eru með því eða móti. Það má segja Borgfirðingum fremur til lofs en lasts, að þeir hafa lært af reynslunni og fært sjer hana í nyt, og í því ættu aðrir samvinnumenn ekki síst að taka þá sjer til fyrirmyndar.

Það er alveg rangt hjá hv. þm. Str., að hjer sje um nokkurn fleyg að ræða til tjóns fyrir samvinnu í landinu. Hjer er hvorki um skerðingu nje lögboð að tala. Menn mundu heldur ekki hallast eins að þessu fyrirkomulagi og þeir gera, ef það væri ekki til bóta og þeir sæju sjer hag í því.