20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

82. mál, samvinnufélög

Pjetur Þórðarson:

Jeg vil nú ekki verða til þess að lengja umræður mikið. En jeg vildi aðeins í fám orðum skýra frá því, hvernig máli þessu er háttað, svo mönnum verði hægara að átta sig á því.

Kaupfjelag Borgfirðinga starfar nú sem stendur undir slíkum samþyktum, að það kemst hvorki undir ákvæði samvinnufjelagalaganna eða hlutafjelagalaganna. En þessar samþyktir þess eru nú svo, að ekki vantar nema það eitt til, að það komist undir samvinnufjelagalögin, að það megi hafa takmarkaða ábyrgð út á við. Inn á við mun það ekki ætla sjer að breyta neitt samþyktum sínum, enda eru þær í samræmi við það, sem gerist í öðrum samvinnufjelögum, og í því samræmi sækist fjelagið eftir að fá að starfa eftirleiðis. Og ávinningurinn, sem fjelagið hygst að ná með þessari breytingu, sem hjer liggur fyrir, er sá, að það gerir ráð fyrir að þurfa ekki að gjalda eins hátt útsvar og ella. Jeg get auðvitað ekki sagt um, hvað mikið fjelagið vinnur við þetta árlega. Jeg býst við, að það verði ekki nein stórupphæð, en þó svo, að fjelagið komi til að muna um það.

Það, sem menn því nú þurfa að leggja niður fyrir sjer, er þá það, hvort þeir meta meir þessa einhliða hagsmuni þessa fjelags annarsvegar, eða röskun þá, sem búast má við að þetta geti haft í för með sjer á því fyrirkomulagi, sem nú er á samábyrgð flestra annara samvinnufjelaganna út á við. Þetta tvent þurfa menn að leggja á metaskálarnar, þegar þeir ætla að gera sjer grein fyrir afstöðu sinni til málsins