20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (1877)

82. mál, samvinnufélög

Björn Líndal:

Hv. þm. Str. (TrÞ) var miklu hógværari í ræðu sinni en jeg hafði búist við. En nokkur atriði í ræðu hans þurfa þó nokkurrar lagfæringar við.

Jeg vil þá fyrst og fremst leiðrjetta þann misskilning hjá hv. þm. (TrÞ), að jeg hafi sagt, að bændur hefðu þegar tapað miklu fje vegna samvinnufjelagsskaparins. En hinu hjelt jeg fram, að fjelögin hafi ekki reynst vel, og það er alkunna.

Það mun satt, að upphaflega hafi verið til þess ætlast, að samtök bænda um vörukaup næðu aðeins til lífsnauðsynja. En á síðari árum hefir verið farið alllangt út fyrir þetta mark, og það einmitt í „spekulations“-augnamiði, og afurðasalan hefir oftast ekki tekist betur en svo, að jafnhátt verð hefir fengist hjá kaupmönnum.

Heiður þykir mjer í því að vera bendlaður við síldarútveg. Það er atvinnuvegur, sem löggjafarvaldið hefir lagt í einelti og sem „Tíminn“, þetta stórveldi meðal blaðanna, hefir jafnan haft á hornum sjer. Og þó hefir hann gert mjer það mögulegt að laga nokkuð kotið mitt á Svalbarði og kanske öllu meira en sumir samvinnukappamir í landinu hafa bætt sínar jarðir.

Þar sem allflestir bændur eru þegar í samvinnufjelögum, þá er auðvitað ekki auðvelt að gera nákvæman samanburð á efnahag þeirra og hinna, sem fyrir utan hann standa. En þröngt mun ýmsum bændum þykja um sig í þessum fjelagsskap, enda mun ekki einsdæmi, að þeir sjeu farnir að kaupa sig lausa úr honum.