02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. minni hl. samgmn. (Sveinn Ólafsson):

Það virðist næstum vera samviskusök að lengja þessar umræður mikið, því það er þegar orðið áliðið, en tilætlunin mun vera að ljúka þessari umræðu í nótt. Það er líka orðið svo fáment hjer í þingsalnum, að nærri virðist tilgangslaust að halda uppi umræðum lengur. En sú slysni hæstv. fjrh., að fara að efna til eldhúsdags nú, hefir orðið til þess, að umræðurnar hafa farið á víð og dreif og orðið miklu lengri en ella. Jeg ætlaði mjer að víkja nokkrum orðum að hv. frsm. fjvn., en hann er nú ekki viðstaddur. (PÓ: Hann er nú ekki langt í burtu). Hv. frsm. ljet þess getið, að hv. fjvn. mundi ekki sjá sjer fært að styðja þær brtt., sem jeg ber fram, og hafði hann ýmislegt við þær að athuga. Mjer kemur nú alls ekki á óvart, eftir því, sem á undan er gengið, þótt hann eða nefndin snerist á móti þeirri brtt. minni, sem er 10. brtt. á þskj. 261 og er um hækkun fjárveitingarinnar til akfærra sýsluvega. Hv. frsm. sagði, að úr því að ríkið gæti ekki lagt fram fje til vegagerða eins og vant er, þá væri ekki ástæða til þess að vera að veita mikið fje til sýsluvega. En jeg er þar á gagnstæðri skoðun. Mjer finst, að úr því að ríkið getur ekki lagt fram fje til þjóðvegagerðar, svo neinu nemi, þá sje einmitt ástæða til að styðja þau hjeruð til framkvæmda, sem bæði vilja og eitthvað geta unnið að vegabótum innan hjeraðs. Hjer er líka um svo lítilfjörlega fjárhæð að ræða, að jeg verð að líta á hana eins og hreint og beint smáræði. En það er öldungis fyrirsjáanlegt, að þessar 10 þús. kr., sem til sýsluvega eru ætlaðar, hrökkva ekkert til, og það mætti því alveg eins fella þessa fjárveitingu alveg niður, því að 400–500 kr. í sýslu munar engu. Annars ætla jeg ekki að fjölyrða frekar um þessa brtt. Jeg vona, að hv. deild líti öðruvísi á þetta en hv. frsm. fjvn. og samþykki þessa brtt., því ef jeg man rjett, þá var ekki mikill atkvæðamunur þegar samskonar brtt. frá hv. þm. Mýramanna var feld við 2. umr., en sú fjárhæð, sem hann fór fram á, var nokkru hærri en mín.

Þá vil jeg minnast nokkuð á 50. brtt. á þskj. 261, sem jeg flyt ásamt háttv. 1. þm. N.-M. Háttv. frsm. fjvn. taldi það ekki tímabært að hugsa um slík fyrirtæki sem dúkaverksmiðjur, því að nauðsynlegur undirbúningur væri ekki fenginn. Jeg verð að segja, að mjer finst þetta innantóm ástæða. Þetta mál er löngu tímabært og var það fyrir mörgum árum. Jeg hefi við fyrri umræðu skýrt frá þeim viðbúnaði eystra, sem gerður hefir verið um staðarákvörðun og fjársöfnun, og málið hefir verið athugað af sjerfræðingum. Hjer er ekki um það að ræða, að Alþingi eigi að hafa vit fyrir þeim mönnum, sem að þessu fyrirtæki standa, heldur er aðeins spurt um það, hvort Alþingi vilji hjálpa hjeraðsmönnum til þess að koma fyrirtækinu á stofn með tiltölulega lítilli lánsábyrgð. Og það getur ekki verið um neina áhættu að ræða fyrir ríkissjóð, því fyrst og fremst kemur þetta ekki til framkvæmda nema því aðeins, að takist að safna 3/5 stofnkostnaðar, og í öðru lagi getur ríkisstjórnin heimtað hverja þá tryggingu, sem hún heldur næga. En því verður ekki í móti mælt, að svona fyrirtæki eru öðrum fremur nauðsynleg, og jeg veit ekki, hvaða fyrirtæki geta talist tímabær, ef ekki einmitt slík sem þessi.

Jeg varð þess var, að fyrir hv. frsm. fjvn. vakti sú hugmynd, að koma ætti ein allsherjarklæðaverksmiðja fyrir alt landið hjer í Reykjavík eða grendinni. En jeg býst nú varla við, að það fyrirtæki komist bráðlega í framkvæmd eða verði heimilisiðnaðinum sjerleg hjálparhella. Finst mjer líka ótrúlegt, að slík verksmiðja fengi mikinn stuðning af Norður- og Austurlandi, enda óhægara fyrir þá landshluta að hafa not af henni. Slík verksmiðja yrði aðallega fyrir Suður- og Vesturland, eða næstu hjeruð, og eðlilegt, að hún væri hlutafjelagseign þeirra. Jeg býst við, ef Austfirðingum tekst ekki að koma upp klæðaverksmiðju, þá muni þeir framvegis halda viðskiftum sínum við norskar klæðaverksmiðjur, þó verksmiðja væri í Reykjavík, sem ætti að vera fyrir alt landið, en hlaðin gjöldum hjer og ófær til að bjóða betri kjör þeim útlendu. Jeg býst varla við, að hún dragi til sín svo rótgróin viðskifti, þó verksmiðja á Austfjörðum, eign hjeraðanna, gæti það.

Þá fór hv. frsm. fjvn. nokkrum orðum um b-lið 50. brtt., sem er um lán til Norðfjarðarhrepps gegn endurábyrgð sýslunnar. Hv. frsm. benti á, að erindi um slíkar fjárveitingar eða lánsábyrgðir ættu að rjettu lagi að koma frá sýslunefndum. En fordæmi var skapað í fyrra með því að veita hreppsfjelagi einu lán, án þess að beiðni um það kæmi frá hlutaðeigandi sýslu, nefnil. Gerðahreppi, og sjálf fjvn. hafði lagt til við 2. umr., að slíkt lán skyldi veitt Bessastaðahreppi, án þess beiðni kæmi frá sýslunefnd. Það var því ekki nema eðlilegt, þó að við flutningsmenn brtt. færum þessa leið, enda er þessi viðbára hjegómi og aðeins formsatriði.

Þá er álit samgöngumálanefndar. Nokkurs misskilnings kennir ennþá viðvíkjandi styrknum til flóabáta. Minni hl. og meiri hl. nefndarinnar eru ekki eins fjarlægir hvor öðrum og af hefir verið látið. Minni hl. leggur til, að áætlunarupphæð stjórnarinnar verði látin standa óbreytt. En meiri hlutinn leggur til, að bætt verði við þá upphæð 5 þús. kr.

Af þeim fimm hjeruðum eða landssvæðum, sem styrks njóta til bátaferða, er áreiðanlegt, að ekkert þarfnast hans svo mjög sem Skaftafellssýsla. Þykir minni hluta nefndarinnar hún fara varhluta af styrknum samkv. till. meiri hl. Af 65 þús. kr. styrk leggur meiri hl. til, að veittar verði 25 þús. kr. til Suðurlands eða Borgarnessferðanna einna. Vil jeg í því sambandi benda á, að 1918–1919 voru aðeins veittar 18 þús. kr. til samgangna við Faxaflóa; en nokkru þar áður 12–15 þús. kr. Önnuðust þá samgöngurnar bátarnir Skjöldur og á undan honum Ingólfur. Þykir mjer auðsætt af reynslunni, að þessir bátar hafa verið betur við hæfi og hentugri til slíkra ferða en Suðurland, sem líka hefir tvöfaldað styrkinn og hafði í fyrra 35 þús. kr. Skal jeg að öðru leyti ekki fara fleiri orðum um þetta, en er ásáttur um að eiga það undir hæstv. atvrh. (MG), að skifting styrksins verði rjettlátleg.

Jeg verð þó að taka fram út af orðum hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), að mjer þótti hann misskilja styrkþörf til vorferða milli Austfjarða og Hornafjarðar. Telur hann að úthaldið á Hornafirði gæti sjálft borið kostnað af slíkum ferðum. Með sama rjetti má t. d. segja, að bændur við Breiðafjörð eða Faxaflóa ættu sjálfir að annast allar samgöngur innan fjarða eða flóa og milli Breiðafjarðar og Reykjavíkur án nokkurs styrks frá ríkinu, og mundi þó þykja óbilgjarnt. Jeg vil því minna hv. deild á, að í Hornafirði er rekinn allmikill útvegur síðari hluta vetrar. Er sá atvinnurekstur ekki aðeins hagsmunamál útvegsmanna þar og á Austfjörðum, heldur og ríkissjóðs, sem vitanlega nýtur því meiri tekna af þessum útvegi, sem hann blómgast betur. Mælir því öll sanngirni með því, að reynt verði að ljetta nokkuð undir með þeim mönnum, er þar eiga hlut að máli. Það má gera ráð fyrir, að af 25–30 vjelbátum, sem þarna stunda veiðar, verði brúttótekjur á vertíðinni ¼–½ milj. kr. Þetta er talsverð búbót fyrir útvegsmenn, en hinsvegar líka hagsmuna að gæta fyrir ríkissjóð. Í mörgum tilfellum styrkir ríkissjóður starfsemi þar, sem ekki er öllu brýnni nauðsyn. Sumir útvegsmenn þarna koma langt að og þeim er alls ekki hægt um vik að nálgast nauðsynjar sínar austan af fjörðum með þeim smáfleytum, sem þeir hafa. Þeir geta lítið flutt að heiman annað en veiðarfæri, fargögn og nokkrar vistir, og mundu missa blíðustu og bestu daga vertíðarinnar til flutninga austur og austan, ef ekki fengjust milliferðir. Vegna þessara erfiðu aðstæðna til aðdrátta hafa þeir lagt mesta kapp á að fá styrktar milliferðir sá vertíðinni, og undanfarið fengið þær nokkrar.

Jeg held að hv. 2. þm. N.-M hafi orðið mismæli um það, að styrkurinn til bátaferða undanfarið hafi einkanlega gengið til Suður-Múlasýslu. Síðustu árin hefir sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu ráðið meðferð styrksins, og er mjer óhætt að fullyrða, að þörf þeirrar sýslu hefir einkum verið höfð fyrir augum með ferðunum. Vitaskuld er það, að ferðirnar hafa náð til Suður-Múlasýslu jafnframt. Þar hafa millilandaskipin landsett vörur Hornfirðinga og þangað hafa verið fluttar til umskipunar ísl. vörur frá Hornafirði. Annars hafa bátaferðir venjulega legið milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar; miklu sjaldnar til Langaness.

Jeg skal þá víkja að nokkrum brtt., sem fyrir liggja og bráðlega koma undir atkv. Þegar jeg lít yfir þær í einu lagi, verður mjer fyrir að athuga, hve þær eru ósamstæðar og stefna sín í hverja átt. Sumar eru bornar fram af brýnustu nauðsyn, aðrar þarflitlar, eða verða alls ekki heimfærðar undir nauðsyn. En hver lítur á málið frá sinni hlið og einn telur nauðsyn það, sem annar telur fánýti. Engum blandast hugur um, að þegar farið er fram á að veita fje t. d. til málverkakaupa, þá er engri nauðsyn til að dreifa, eins og sóttvarna eða heilbrigðismála. Sumar till. eru einskonar neyðaróp bág staddra manna og vekja hluttekningarsemi. Hæstv. atvrh. mælti t. d. í gærkvöldi fyrir einni fjárbeiðni frá sjúklingi, — manni vestan af landi, — og lýsti ástæðum hans. Af því jeg trúi fyllilega skýrslui hæstv. atvrh. varð það mjer nægileg hvöt til að ákveða mig eða þeirri till. Hinsvegar hlýt jeg að verða nokkuð hikandi um ýmsar aðrar till., þótt jeg viti, að einhver þörf búi að baki þeim, af því að ekki er sýnd brýn nauðsyn. T. d. fer 14. till., frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), fram á launauppbót til talsímakvenna, 11 þús. kr. Jeg veit vel, að þessar konur hafa heldur lág laun, en mjer datt í hug að skjóta þeirri spurningu til hv. flm., hvort ekki væri ærin eftirsókn eftir þessum störfum. Mjer hefir verið skýrt svo frá, að stöðugt sæki fleiri um þessa starfa en komist geti að, og bendir það ekki á nein neyðarkjör. Eftirsóknin ætti að geta verið sæmilegur mælikvarði í þessu efni, og sennilega nota flestar stúlkurnar þetta starf eins og aukaatvinnu eða tilbreytingarstarf.

Um nokkrar till. stendur svo á, að það getur verið metnaðaratriði, hvort styðja skuli eða fella, þó ekki sje um brýna nauðsyn að ræða. Skal jeg benda á 46. lið á atkvæðaskránni, till. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), um það að veita ekkju Jóhanns heitins Sigurjónssonar 1 þús. kr. styrk. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þennan lið, því báðir hv. flm. hafa talað vel og röggsamlega fyrir þessari till. Jeg tel metnaðarmál að láta ekki þennan styrk niður falla, sem lengi hefir í fjárlögum staðið og nokkru hærri; getur líka verið, að hjer sje um brýna þörf að ræða. Er mjer því ant um samþykt þessarar till. Mjer er vel kunnugt um þær hviksögur um þessa konu, sem hafa verið á sveimi. Get jeg vel skilið, að hv. fjvn. hafi þótt skuggi fallinn á verðleika styrkþegans. En þótt svo kunni að virðast, þá finst mjer ekki mega gleyma verðleikum konunnar frá fyrri tíð. Við könnumst allir við, að Jóhann Sigurjónsson hefir unnið okkur ómetanlegt gagn. Hann hefir borið á arnarvængjum skáldhróður Íslands út um heiminn og er einhver frægasti skáldhöfundur seinustu tíma hjer á landi. Við vitum, að þessi kona hefir unnað honum og stutt hann að þessu verki bæði með fje og þrótti, og það út af fyrir sig eru nógir verðleikar. Hvað sem líður þeirri hrösun hennar, sem svo mikið er talað um, þá vitum við lítil skil á henni; ef til vill eru það ýkjur að mestu, ef til vill hefir skortur og fátækt knúð hana til örþrifaráða. Jeg vil í þessu sambandi minna á gamla sögu, sem allir þekkja, og spyrja, hver vilji kasta fyrsta, steininum á hana. Jeg held, að Alþingi ætti ekki að gera það.

Enn er ein till. hv. fjvn., sem jeg vildi drepa á, 53. brtt. á atkvæðaskránni, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að greiða Eimskipafjelagi Íslands 60 þús. kr. Það er síður en svo, að jeg vilji draga úr því, að Eimskipafjelagið sje stutt og gert fært til að halda uppi samkepni við útlend fjelög. En mjer finst þessi till. bera á sjer einkenniblæ fátækrastyrks, svo sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók fram, og held jeg það verði fjelaginu til lítils álitsauka. Ef hinsvegar frv., sem nú liggur fyrir, um það að losa fjelagið undan skatti og aukaútsvörum, verður samþykt, þá hygg jeg, að það mundi fjelaginu hagkvæmari aðstoð en þessi styrkur. En þann stuðning tel jeg þó mestan og bestan fjelaginu til handa, ef landsmenn keptust eftir að nota skip þess og tækju þau ætíð fram yfir önnur skip. Þetta væri sú drengilegasta hjálp og ætti að verða svo öflug og almenn, að engu fjelagi yrði fært að keppa við Eimskipafjelagið á leiðum ísl. viðskifta.

Jeg hefði viljað víkja nokkrum orðum til hæstv. fjrh., en tímans vegna verð jeg að sleppa því; enda þykist jeg vita, að það mundi ekki leiða til annars en aukinnar orðasennu.