20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1880)

82. mál, samvinnufélög

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal taka það fram, þegar í byrjun, viðvíkjandi þessu frv., sem hjer er borið fram eftir ósk Kaupfjelags Borgfirðinga, að jeg hefði helst kosið að greiða atkvæði með því. Ef þetta sveitarfjelag, þar sem kaupfjelagið starfar, misbeitir heimild sinni til þess að leggja útsvar á fjelagið, þá vildi jeg gjarnan, ef mögulegt væri, losa fjelagið undan ásælni þessa sveitarfjelags.

Háttv. þm. Borgf. (PO) segir, að fjelagið hafi haft ástæðu til þess að kvarta, og þá þykir mjer fyrir að geta ekki greitt frv. atkvæði. Breyting á þessari löggjöf verður að koma frá þeim samvinnumönnum, sem lengi hafa búið undir þessu fyrirkomulagi. Jeg get búist við því, að þessum lögum verði breytt innan skamms. En sú breyting verður að koma frá þeim, sem mesta reynslu og þekkingu hafa á málinu. Og jeg get ekki unnið það til að hjálpa þessu fjelagi, ef breytingar þær, sem gerðar væru á samvinnulögunum, yrðu til skaða. Jeg verð að vænta þess, að þetta sveitarfjelag, sem hjer á hlut að máli, gæti hófs í álögum sínum framvegis, þó fjelagið verði ekki undanþegið þeim með lögum.

Sem sagt, þá tel jeg það heppilegra, að brtt. komi frá rjettum aðiljum, því þó það sje ekki sjálfsagt, að þessi breyting verði til ills, þá vil jeg samt ekki eiga neitt á hættu.

Þá vil jeg víkja örfáum orðum að þeim umræðum, sem hjer hafa orðið í háttv. deild. Einkum voru það ummæli, sem fram komu í ræðu háttv. þm. Ak. (BL), sem jeg vildi andmæla, af því, að hann fór ekki með rjett mál. Að vísu var ýmislegt í ræðu háttv. þm., sem ástæða hefði verið til að athuga, en jeg sleppi því að mestu; háttv. þm. Str. hefir líka vikið að því nokkrum orðum. Jeg læt því nægja að víkja aðeins að einu atriði.

Háttv. þm. Ak. (BL) sagði, að hann hefði verið bendlaður við síldarútveg, og tæki hann það ekkert nærri sjer og teldi slíkt engan vansa. Jeg er háttv. þm. (BL) sammála um, að ekki sje ástæða til þess. Þegar sá atvinnuvegur er rekinn með dugnaði og forsjá, þá er enginn vansi að stunda hann, og getur verið til mikils góðs. En þegar háttv. þm. (BL) drap á það, að löggjafarvaldið hefði ekki haft fullan skilning á því máli, og frekar lagt þessa atvinnugrein í einelti heldur en stutt hana, þá er það rangt með farið og órjettmætt með öllu. Það getur verið, að löggjafarvaldið hafi um stund lagt heldur hátt útflutningsgjald á innlenda síldarútvegsmenn, samanborið við útlenda. Útlendir síldveiðamenn gerðu mikið tjón, og hefði verið ástæða til þess að beita við þá harðari lagaákvæðum en gert var. Jeg býst nú við því, að háttv. þm. Ak. (BL) hafi ekki átt við ósanngirni gagnvart útlendum síldveiðamönnum heldur innlendum. En ummæli hans um þetta tel jeg alveg ómakleg. Jeg skal ekki neita því, að 3 kr. útflutningsgjald af tunnu hafi verið fullmikið. En jeg held, að það sje rjett, að nokkuð af því gjaldi hafi verið endurgreitt innlendum síldarútvegsmönnum. Nú er gjald þetta lækkað, og getur ekki talist ósanngjarnt. En jeg vil minna háttv. þm. Ak. (BL) á það, að á þingi 1918 ábyrgðist ríkið þessum atvinnurekstri um 6 miljónir kr. fyrir síld, hvort sem hún seldist eða ekki. Síldarútvegurinn stóð þá mjög höllum fæti. Allmiklar birgðir af tunnum og salti voru til í landinu, en horfurnar hinar verstu, að nokkuð yrði flutt út, vegna hins illa ástands, sem þá ríkti í heiminum. Þá leituðu útgerðarmenn til þingsins, að það trygði þeim nokkurt verð fyrir veiði þess sumars. Jeg var þá á þingi og ljeði því það að, sem hægt var. Þarna lá við borð, að þessi atvinnuvegur yrði að hætta. En það má segja til hróss þinginu, að það tók þessari málaleitun vel.

Mjer virðist, að það komi því úr hörðustu átt, þegar því er slegið fram af síldarútvegsmanni, að löggjafarvaldið hafi lagt í einelti þessa atvinnugrein. Jeg held löggjafarvaldið hafi aldrei lagt nokkurntíma eins mikið fje í hættu fyrir nokkra atvinnugrein. Jeg er ekki að telja það eftir. En það sýnir skilning og frjálslyndi mikils meirihluta þingsins, hvernig það tók í þetta mál. Á það vildi jeg minna, úr því hreyft var við þessu.