08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jónas Jónsson:

Hæstv. forsrh. (SE) hefir nú í snjallri ræðu tekið fram mörg af aðalatriðum þessa máls, og læt jeg mjer nægja að bæta aðeins við nokkrum atriðum, er snerta sögulega hlið málsins, eins og hún kom fram í ræðu hv. flm. (JM). Eftir því hafa komið fram á Alþingi 3 till. um málið, fyrst árið 1909, þá 1919 og loks 1922. Má af meðferð málsins í öll þessi skifti nokkuð sjá, hvernig því var farið. Fyrst, 1909, ber það fram leiðandi maður stærsta meirihluta, sem verið hefir á þingi. Samt verður endirinn sá, að þessi maður verður að gefast upp við að koma málinu fram. Samhliða því, að hann tekur við stjórn með mikinn meirihluta að baki sjer, verður hann þó í minnihluta í máli þessu og getur ekkert í því gert. Bendir þetta á það, að þegar flokksmenn þessa manns, sem sje Björns heitins Jónssonar, fóru að athuga málið, þá treystust þeir ekki að fylgja honum í því. Jeg skal geta þess, að það, sem kom fhn. þá til þess að flytja málið, var eigi eingöngu sparnaður, heldur mun hafa ráðið töluverðu þar um annað, nokkurskonar prentsmiðjustyrjöld, en um það atriði skal jeg eigi tala nánar að þessu sinni. Næst kemur málið fram á þingi 1919, en einmitt á því ári er ausið út miljónum úr landssjóði, og þá verða launalögin miklu til. En hver ber svo mál þetta fram þá? Það er maður, sem var oltinn úr ráðherrasessi, maður, sem hafði algerlega mist alt fylgi sitt. Get jeg vel skilið, að hann hafi ekki haft mikla umhyggju fyrir því, að þjóðin fylgdist með í stjórnmálunum á þingi. Maður þessi hafði klofið Sjálfstæðisflokkinn, gengið síðan ofan í sjálfan sig og orðið fyrir það að skotspæni almenningsálitsins. Hann misti því eigi mikils í, þó að prentun Þingtíðindanna fjelli niður. Í þriðja skiftið er mál þetta borið fram af þm. G.-K., sem eigi á sæti á þingi nú, manni, sem aldrei í þingsögunni mun verða talinn með stærri ljósunum. Í þetta sinn verður endirinn sá, að þingið sjer sig um hönd á síðustu stundu og fellir málið. Á þingi 1922 er sparnaðurinn áætlaður 15–16 þús. krónur, eða töluvert minni en nú er gert, en þó var prentun dýrari þá en nú. Bendir það til, að eitthvað sje bogið við útreikninginn. Jeg geri enganveginn lítið úr hinum áætlaða sparnaði nú, en vildi aðeins leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hv. flm. (JM), hvernig það má vera, að sparnaðurinn er meiri nú en fyrir 2 árum, þegar öll prentun var dýrari. Þá var, eins og nú, gert ráð fyrir nokkrum þús. kr. í kostnað við fjölritun ræðanna, og hið sama mun hafa vakað fyrir flm. þá sem nú, hvað geymslu handritanna snertir. Það minnir mig reyndar á gamla bók, frá 12. öld, sem jeg sá í Englandi fyrir nokkrum árum. Hún var járnbent og hlekkjuð föst í múr til varnar móti þjófum. Nú á 20. öldinni erum við á Íslandi að komast í nokkuð svipað ástand með því að gera Þingtíðindin að sjaldsjeðu handriti. Dálítil ónákvæmni er það hjá hv. flm. (JM), þó það skifti ekki miklu máli, er hann segir, að Þingtíðindin hafi kostað 5 kr. út um land. Einn hv. þm. hefir tjáð mjer, að hann hafi orðið að borga fyrir þau 10 kr. Ef það er rjett, að svo fáir kaupendur sjeu að Þingtíðindunum, sem í skýrslu þeirri greinir, er málinu fylgdi, þá er það ofurskiljanlegt, að svo sje, þegar þess er gætt, að um 600 eintökum er dreift út um landið ókeypis. Jeg tek undir það með hæstv. forsrh. (SE), enda er mjer það persónulega kunnugt, að á mörgum svæðum landsins eru Alþingistíðindin lesin með mestu ánægju, og jeg veit, að það yrði álitið hið mesta hermdarverk úti um land, ef frv. þetta yrði samþykt. Hv. flm. (JM) gat þess, að blöðin flyttu nú bæði almennar þingfrjettir og einstakar ræður þm. Jeg er samdóma hæstv. forsrh. (SE), að eins og blöðin eru nú, þá taka þau aðallega svari sinna flokksmanna, enda væri fjarstæða að gera ráð fyrir því öðruvísi. Jeg vil ennfremur leyfa mjer að undirstrika það, sem hv. sami ræðum. (SE) tók fram um blöðin, því að ilt er að þurfa að treysta þeim einum í þessu efni, þegar af þeirri ástæðu, að ríkustu flokkarnir gætu gefið mest út og þannig haft besta aðstöðuna til þess að ná til fólksins. Stærsti flokkurinn í þinginu styðst nú við 10 blöð, sá flokkurinn, sem er næstur, en í honum eru 15 menn, styðst við 2 blöð, sem þó eru aðeins vikublöð, hin 10 sum dagblöð. Það er því eigi nema eðlilegt, að þeir flokkar, sem fá eða engin blöð hafa að baki sjer, kæri sig eigi um það, að þjóðin verði að sækja vitneskju sína um það, sem á þingi er gert, í andstæðingablöðin ein, því að eins og menn vita, er það ekki altaf undir málstaðnum komið, hverjir fá þar inni. Og jeg skal geta þess, að ef svo væri, að einhver blöð tækju peninga fyrir málaflutning sinn, þá gæti það hjálpað mikið þeim flokki, sem mestu fje hefði úr að spila.

Án þess að fara nokkuð út í þá almennu hlið þessa máls, þá vildi jeg leyfa mjer að bæta enn nokkrum orðum við ræðu hæstv. forsrh. (SE). Jeg tel það hneyksli og ósamboðið þjóðinni, eftir að búið er að gefa út Þingtíðindin síðan 1845, að leggja þau niður nú, enda þótt tímarnir sjeu erfiðir. Skil jeg ekki hvernig hv. flm. (JM) getur litið framan í samtíð sína og eftirtíð, þegar hann hugsar um það, hvernig ástatt var fyrir íslensku þjóðinni fyrir 1874, þegar hún var eins og hreppur í Danmörku, en tókst samt að gefa út Þingtíðindin. Þá datt engum í hug að ympra á því að kæfa rödd þingsins eins og nú er gert. Og það er alment álitið, að á tímabilinu frá 1874 til aldamóta hafi verið gætt mjög mikillar varúðar um fjárhag landsins, en þó kom aldrei til mála að hætta prentun Þingtíðindanna, ekki einu sinni milli 1880–90, þegar landsmenn voru að deyja úr hungri og eymd og flúðu til Ameríku þúsundum saman. Það er fyrst eftir að þjóðin hefir fengið stjórnina inn í landið, og þegar fullveldið er fengið, að það fer að bóla á þessari kyrkingartilraun við Alþingi.

Að endingu vil jeg, alveg gremjulaust, beina þeirri spurningu til hv. flm. (JM), hvort hann sjái ekki það sorglega í því, að hann, sem var stjórnarformaður, þegar landið varð fullvalda ríki og mun telja sig eiga einhvern þátt í því, að landið varð sjálfstætt ríki á pappírnum, og hann, sem stjórnaði landinu fyrst á eftir, skuli vera flutningsmaður að frv., er gengur í þá átt að loka þinginu fyrir þjóðinni.

Og jeg fæ engan veginn sætt mig við, að nú sje gripið til þeirra örþrifaráða, sem áður þektust ekki, jafnvel ekki, þegar fátækt og hörmungar hrjáðu landið meira en nokkru sinni og það var þar að auki undir yfirráðum annars ríkis. Og hvernig getur hv. flm. (JM), sem var svo heppinn eða óheppinn að stýra landinu, þegar fjárhag þess hrakaði mest, hann, sem ljet eyða 600 þús. krónum við eitt einasta tækifæri, að mestu leyti að þarflausu, hann, sem hefir látið sóa 20 þús. kr. í fánýta krossa, hann, sem ljet byrja á byggingu prestsetursins á Mælifelli og eyddi þar 30–40 þús. kr. o. s. frv. o. s. frv. — hvernig getur hann látið sjer detta í hug að hefja sparnað sinn með frv., slíku sem hann nú berst fyrir? Hver tilraun hans til sparnaðar af þessu tæi hlýtur að varpa bergmáli á fjármálaóstjórn hans og þeirra, sem honum standa næst, hlýtur að bregða nýju ljósi yfir það öngþveiti, sem þeir hafa komið fjárhag landsins í. Jeg hefði ekki minst á þessi atriði nú, ef þau stæðu ekki í beinu sambandi við þetta mál, og því fremur hefi jeg drepið á þetta, að sömu hv. þm., sem flytja frv. þetta, neituðu hjer í gær rannsókn á því, hvort ekki mætti spara nokkra tugi þús. með því að nota húseignir ríkissjóðs í Rvík fyrir opinberar skrifstofur. Sömuleiðis vísuðu þeir í gær þál. um að skipa sparnaðarnefnd til nefndar, rjett eins og það væri eitthvert sjerlegt vandamál, — og ekkert er líklegra en að þeir drepi þá þál. seinna á þinginu. Og um daginn feldu sömu hv. þm. að leggja niður embættið í klassískum fræðum við háskólann og flytja kennarann að mentaskólanum, sem þó hefði gefið 7 þús. kr. sparnað. Nei, það verða komin mörg kurl til grafar, þegar þetta „sparnaðar“frv. hefir gengið í gegnum 6 umr. hjer í þinginu.

Ennþá er eftir sú ástæðan, sem jeg tel langveigamesta gegn frv. þessu. Hún er sú, að þetta úrræði hjálpar stórum allskonar óheilbrigði að gróðursetjast í stjórnmálalífi voru. Og taki menn eftir! Er ekki merkilegt samræmi í því að fækka ráðherrum, lengja kjörtímabilið og hætta að gefa út Þingtíðindin? Það er engu líkara en að allar þessar till. sjeu bornar fram með það fyrir augum að drepa vísvitandi hið frjálsa lýðræði í landinu, sem stjórnskipulag þess byggist á. Það á að veikja stjórn landsins, en um leið styrkja embættismannavaldið. Hætta að prenta Þingtíðindin, svo að þjóðin fái ekki sjeð framkomu fulltrúa sinna og jafnframt lengja kjörtímabil þeirra, til þess að þeir þurfi sjaldnar að standa reikningsskap gjörða sinna. Það er mjer óblandið sorgarefni að þurfa að horfa upp á allar þessar fyrirætlanir, sem mjer finst bera vott um þá spillingu í voru pólitíska lífi, sem jeg hefi ekki sjeð fyr svo átakanleg merki um.

Það dettur engum í hug, að telja þeim, sem hafa verið riðnir við hina mestu eyðslu, sem sögur fara af hjer á landi, svona sparnað til dygða. Þeir þurfa að sýna alvarlegri sparnaðarviðleitni og stinga niður á líklegri stöðum, ef þjóðin á að trúa þeim. Ef jeg vildi óska hv. flm. ills, þá vildi jeg óska að þeir sigruðu í þessu máli, því að sá sigur þeirra væri rjettnefndur Pyrrusarsigur.