08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jónas Jónsson:

Mjer er það mikið ánægjuefni, einkum sökum þess, að jeg hefi valið mjer kenslu að lífsstarfi, að sjá það, hversu vel kensluhæfileikar mínir koma að notum, þegar jeg tala við hv. 4. landsk. Hann hefir vaxið af samvistunum við mig. Þegar jeg hefi lesið honum pistilinn, kemur stundum fram í orðum hans og látbragði einskonar dugnaður, kraftur og manndómur, sem annars verður lítið vart við. Það er mjer óblandin ánægja að hafa þannig bætandi áhrif á hann.

En það er nú einu sinni svona, að við erum aldrei sammála og þurfum alt af að deila, nema þá þegar hann tekur upp mínar hugmyndir. En hv. þm. verður að afsaka það, þótt jeg sje ekki orðinn eins reiður og hann, enda hefi jeg minni ástæðu til þess.

Hv. þm. (JM) finst jeg fara út í nokkuð margt í sambandi við þetta mál, en það er mikill misskilningur hjá þm. að halda, að það komi ekki málinu við, hvaða orsakir lágu til þess, að komið hefir verið fram með till. um að hætta að prenta þingtíðindin. Skuldir landsins valda þessu. En hvað veldur skuldunum? Óhæfileg eyðsla kaupmanna og embættisstjetta landsins. Annars þykir mjer það sjerstaklega væmið, að þessi þm. (JM), sem allir vita, að gaf út blað, sem svívirti Björn Jónsson mjög árum saman og átti mikinn þátt í heilsuleysi hans hin síðustu missiri, skuli nú koma, eins og prestur ofan úr stól, og segja, að ekki megi minnast á Björn Jónsson í sambandi við þetta mál.

Hvernig stendur á því að hv. þm. (JM) dettur þessi vitleysa í hug, eða er þm. svo minnislaus, að hann muni ekki hvað Lögrjetta sagði um hann, Lögrjetta, sem allir vita, að var gefin út af honum (JM) og hans nánustu fylgifiskum.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að jeg hefði skrifað ógeðslega grein um Einar Arnórsson. Einar Arnórsson var þá ritstjóri Morgunblaðsins og hafði skrifað margar svæsnar og rógburðarkendar árásargreinar á mig fjarverandi. En þegar jeg kom til bæjarins aftur, svaraði jeg honum með því að taka hann þeim tökum, að hann valt úr embættinu að skrifa fyrir kaupmenn, steinhætti að fást við pólití og hefir látið mig og mína samherja í friði síðan. Sú útreið, sem Einar Arnórsson fjekk þá, er ein hin rjettmætasta hirting, sem nokkur þjónn embættis- og kaupmannavalds hefir fengið hjer á landi.

Þá vildi hv. þm. (JM) telja þingmann þann, er bar fram frumv. um að fella niður prentun Þingtíðindanna 1922, gáfaðan, og vil jeg unna honum þess dómsorðs.

Þetta voru nú allar röksemdirnar, sem hv. þm. hafði fram að færa, og sjá allir, hve lítilfjörlegar þær eru.

Þá vill þm. (JM) blanda saman tilraun til þess að lækka kostnaðinn við prentun Þingtíðindanna og algerðu afnámi prentunarinnar.

Jeg veit það vel, að þm. A.-Húnv. var einn af þeim, sem vildi lækka útgjöldin við prentun Þingtíðindanna, og því greiddi hann atkvæði með því að fella niður prentun Þingtíðindanna á meðan stóð á samningum við prentarafjelagið og reynt var að þrýsta niður kostnaðinum. En annars var hann algerlega á móti því að láta hætta að prenta þau, og þannig var það með Framsóknarflokkinn yfirleitt.

Loks er hv. flm. (JM) svo spaugsamur að kenna mjer um, að hætt verði við prentun Þingtíðindanna, mjer, sem berst á móti því af alefli. En nú skulum við athuga þetta nokkuð nánar. Jeg og hv. 4. landsk. erum andstæðingar. Við erum sjaldan á sama máli, og aldrei nema þá, er jeg styð mál, sem hann hefir tekið upp eftir mjer. Og hann reynir venjulega að áfella mig með stóryrðum og illyrðum. Út yfir hvern gengur það því, ef jeg talaði bjánalega í þinginu eða væri sífelt að skifta um skoðun. Það yrði auðvitað mjer sjálfum til minkunar. Það gengi út yfir mig, en hv. 4. landsk., sem alt af er á móti mjer, mundi skína þeim mun skærara, er hann svaraði mjer, og mundi vaxa af sigurvinningum sínum. Nei, þetta er ekki nein orsök til þess, að þeir vilja láta hætta að prenta Þingtíðindin. Það er áreiðanlega ekki gert af umhyggju fyrir mjer. En máske er Íhaldsflokkurinn það barnalegur, að honum megi segja svona sögur.

Sá flokkur, sem skammast sín fyrir gerðir sínar á þingi, hann er hræddur við að láta prenta Þingtíðindin og leggja gerðir sínar undir dóm þjóðarinnar. En hinir, sem halda því fram, að það eigi að prenta Þingtíðindin, eru ekki hræddir, af því að þeir vita, að þeir hafa ekkert að fela. Þetta er mjög augljóst mál. Hverjir eru það, sem leggja á flótta, þegar á hólminn er komið? Það eru bleyðurnar, ragmennin og hinir sakfeldu, sem vita á sig skömmina. Hverjir eru það, sem fela sig og fara huldu höfði, er lögregluþjónar nálgast? — Það eru þjófarnir, því það er hjer eins og endranær, að sök bítur sekan.

Og ef hv. 4. landsk. (JM) væri það alvara, að nauðsynlegt sje að losna við mig, hví vill hann þá lengja mitt kjörtímabil um 4 ár? En eftir lýsingu þessa háttv. þm. á mjer, gengi það næst landráðum. Þótt honum hinsvegar máske finnist það bót í máli, að hans kjörtímabil lengist þá líka um þriðjung, og sömuleiðis hv. 6. landsk. (IHB), sem hefir löngum verið honum fylgispakur fjelagi á hinum pólitísku villigötum hans.

En þá nægði ekki að hætta að prenta Þingtíðindin til 1930, heldur yrði það að vera að minsta kosti til 1934. Og þá yrðu hinar góðu ræður Íhaldsins grafnar allan þann tíma, og þar með ræður hv. 4. landsk. og 6. landsk., og þjóðin fengi því ekki tækifæri til að sjá alt vit þeirra og drengskap! Samt ætti að vera hægt að prenta ræður okkar, þó aldrei nema það kostaði 20 þús. kr. á ári, ef ekki kæmi neitt 600 þús. kr. „bit“ fyrir ríkissjóð á næstu árum.

Þá var hv. þm. (JM) að tala um blöðin, og þá er það eins og vant er, að það er aðeins eitt blað, sem hann man eftir, sem sje Tíminn, og það sýnir best, hve Tíminn er voldugur, að það þarf að halda margar og langar ræður um hann á hverju þingi, án þess að minst sje á nokkurt annað blað. — En það var eitt blað á Seyðisfirði — Austanfari, — sem talinn var launkrakki háttv. 4. landsk. (JM). í því blaði var venjulega ekkert annað, árum saman, en skammir og illyrði um mig. Og þótt hv. 4. landsk. hafi heyrst sverja fyrir þennan launkrakka sinn, þá er þetta þó, — fyrir utan Lögrjettu meðan hún skammaði Björn heitinn Jónsson mest — eina blaðið, sem hv. 4. landsk. hefir verulega lagt sál sína inn í að styðja.

Þó vill hv. þm. reyna að setja sig á háan hest, þegar hann mintist á önnur blöð. En það situr illa á þeim manni að gera harðar kröfur til dagblaða, sem hefir gefið út annað eins sorpblað og Austanfara, svo ekki sje nefnt nema það aumasta af blöðum spiltra kaupmanna og þjóna þjóðfjelagsins. En þjóðin hefir dæmt Austanfara-pólitíkina að maklegleikum. Blaðið og aðstandendur þess var alstaðar fyrirlitið og að engu haft.

Framsóknarflokkurinn hefir einungis 2 blöð, og það að eins vikublöð, en Íhaldsflokkurinn hefir eitthvað 10–12 blöð, og þar af sum dagblöð, og þó minnist enginn á þau í þinginu. (JM: Hver var að tala um Morgunblaðið?) Það var af því, að hv. þm. gaf mjer tilefni til að minnast á blöðin í landinu, að eg gaf þetta yfirlit um blaðakost Íhaldsflokksins. Hann er mikill. En enginn Framsóknarmaður virðir þann blaðhóp þess að svara þeim í þingsalnum.

Svo eru það þessi stóryrði, svo sem að kasta saur o. s. frv. Þetta er munnsöfnuður eins og í Eastend hjá kjaftakerlingum. Það eru leiðinlegir blettir á hv. 4. landsk., að þegar hann verður reiður, þá hættir hann að tala eins og mentaður maður.

Lögrjetta sagði einu sinni um mann, nákominn Birni Jónssyni, að það væru límdir stolnir bankaseðlar við bert bakið á honum. (JM: Það var ekki um Björn Jónsson, sem það var sagt). Það var um son hans. Og svo vill þessi hv. þm. (JM), sem einmitt var þá útgefandi Lögrjettu, fara að „docera“ mjer blaðamóral, og heldur því fram, að Lögrjetta hafi talað vægilega um Björn Jónsson. Því óviðurkvæmilegra er alt þetta ádeiluskraf um Tímann, þegar þess er gætt, hve hóflega þar er talað um menn og málefni, borið saman við það, sem tíðkaðist um blöð hjer á blómaárum Sjálfstæðis og Heimastjórnar, og blöð Íhaldsflokksins núverandi.

Ritstjóri Lögrjettu fór einu sinni að ámæla mjer fyrir, að Tíminn væri harðorður. Jeg bauð honum opinberlega að bera stíl Tímans saman við hans eigin rithátt í Lögrjettu, en hann treystist ekki til að þola þann samjöfnuð. Og það var þessi maður, sem á sínum tíma varði garðinn fyrir Heimastjórn, m. a. á þeim tíma, þegar Björn Jónsson misti heilsuna í viðskiftum við þáverandi flokksbræður hv. 4. landsk.

Annars var það gott, að hv. þm. kom loksins að aðalatriðinu í þessu öllu saman, nefnilega því, hver ber ábyrgðina á fjárhagslega hruninu. Og í sambandi við það vil jeg geta þess, að það var engin þörf á að eyða þessum 600 þús., sem fóru við konungskomuna. Hver maður veit nú, að það var bruðl og bjánaskapur. Allur blærinn á þeim tildursveislum var hinn sami og á vinafagnaði ómentaðra snápa (snobs). Það var vitlaus eyðsla, yfirborðsfálm, en ekki hin hlýja, gamla, einfalda, íslenska gestrisni.

Svo segir hv. 4. landsk. að síðustu: Gerir það nokkuð til, hverjum það er að kenna, að sú neyð ríkir í landi, sem raun er á. Í hans augum gerir það máske ekkert til, þó að þjóðin verði að hætta við sum sín elstu og helstu menningarverk, eins og að prenta Alþingis tíðindin, sem alt af hafa verið gefin út frá 1845 — alla tíð Jóns sál. forseta og baráttuárin frá 1874–1904. Jeg verð að álíta, að því meira sem neyðin kreppir að, því harðar verði að ganga að þeim, sem hafa leitt þetta ólán yfir þjóðina. Þeir, sem hruninu valda, verða að standa fyrir reikningsskilum. Við vitum vel, hverjir tóku enska lánið, það svívirðilegasta lán, sem tekið hefir verið og komandi kynslóðir munu stynja undir.

Sparnaðurinn er heldur ekki alt af jafn hjá þessum hv. þm. (JM). Það var hann — sá sem nú tímir ekki að prenta Þingtíðindin — sem rjeð bankastjóra með 40 þús. kr. launum á ári. Hver lagði frv. um stofnun hæstarjettar fram? Sami hv. þm. (JM), sem nú vill rífa það niður, af því Framsóknarflokkurinn er búinn að sanna, hver missmíði eru á rjettinum. Hann (JM) hefir altaf verið potturinn og pannan í því að koma upp þeim dýru embættum, sem nú ætla að sliga þjóðina. Og nú kemur hv. þm. (JM) með þennan lúsasparnað, með Þingtíðindin, ekki til að spara, nei, til að reyna að hylja framferði sitt í þinginu. Vill með því kefla þing og þjóð, svo að hún viti minna um eyðslu hans á almennafje.