02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal geta þess út af ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að hefði jeg tekið eftir því, að hann miðaði útreikning sinn um sparnað þingkostnaðar við þinghald annaðhvert ár, hefði jeg ekki notað svo sterk orð sem „sjálfsblekking“. Hans áætlun var 14 þús., en mín 20 þús.; hygg jeg að mín tala sje sönnu nær. Myndi jeg geta fært rök að því, ef jeg áliti það máli skifta. Háttv. þm. sagði, að unt hefði verið að sleppa þinghaldi árið 1926, ef stjórnarskrárbreyting hefði verið samþykt á þessu þingi. Jeg held að það hepnist ekki að taka fyrst stjórnarskrána og fjárlög fyrir eitt ár, og fara síðan að leggja annað fjárlagafrv. fyrir næsta ár fyrir hið sama þing, eftir að nýja stjórnarskráin væri staðfest. Jeg er heldur ekki viss um, að það þætti viðeigandi, að svo mikilsvarðandi lagastaðfesting væri gerð símleiðis.

Þá ætla jeg að víkja örfáum orðum til hv. þm. Str. (TrÞ), og strax segja það, að jeg ætla engin náttvíg að vega. Jeg ætla að tala um hann og ræður hans eins og jeg mundi gera að honum fjarstöddum, svo það þarf ekki að kosta hann svar.

Af því jeg þykist vita, að hv. þingdeildarmenn sjeu búnir að fá nóg af þeim ræðuhöldum, sem ekki snerta verkefnið, get jeg þess, að jeg þykist ekki hafa gefið tilefni til þess, hve langt þessi hv. þm. fór í síðustu ræðu sinni. Mjer þótti ekki gott samræmi milli þess, sem hann sagði nú um fjárstjórnaryfirlit mitt, sem jeg gaf fyrir þingbyrjun, og þess, sem hann sagði í blaði sínu rjett á eftir, að það kom fram. Þá var borið það lof á mig, sem mig langaði ekki eftir, en nú segir hv. þm., að jeg vilji mála ástandið sem svartast (TrÞ: Jeg sagði samt ekki „of svart“), til þess að minn ljómi yrði meiri. Sú hugsun liggur þarna að baki, að jeg muni ef til vill fá einhvern ljóma af þessu starfi, sem jeg hefi tekið að mjer. Jeg vil yfirleitt vara menn við því að líta svo á. Það tjáir ekki, að menn sjeu svo bjartsýnir að ímynda sjer, að þótt einhver, sem þeir kunna að treysta jafnvel sem hv. þm. Str. treystir mjer, taki að sjer ráðsmensku fjármálanna, þá verði snögg umskifti. Að vísu hefir aflast vel í nokkrar vikur og lítur ekki óbjörgulega út sem stendur, en menn mega þó ekki láta neina bjartsýni glepja athygli sína frá því, hve ástandið er alvarlegt. Jeg segi það hreinskilnislega, að jeg geng í þessa stöðu eins og að hverju öðru nauðsynjaverki, sem leysa verður af hendi, en býst ekki við, að nokkur ljómi muni falla á mig af því starfi. Eftir því, sem á undan er gengið, getur árangurinn ekki orðið sá, að um neinn ljóma verði að ræða. Það er gott, að menn geri sjer engar vonir um þetta. Þingið verður að sýna sjálfsafneitun í hverju spori og mikið erfiði til þess að ráða bót á ástandinu, og það verður að gera um langan tíma, áður en það getur borið verulegan árangur.

Háttv. þm. Str. kvað mig altaf vera að bogna. Mjer þykir engin minkun að kannast við, að jeg er ekki tiltakanlega ósveigjanlegur. Færði hv. þm. síðan til þess, að jeg hefði gengið undir 5 jarðarmen. Jeg verð að játa, að hv. þm. er betur að sjer í fornsögunum heldur en jeg er. Jeg minnist þess ekki, að þar sje talað um að ganga undir jarðarmen öðruvísi en sem talsvert helga athöfn, þegar menn gengu í fóstbræðralag. Það kann vel að vera, að jarðarmen hafi einnig verið notað við önnur tækifæri, en jeg minnist þess ekki í snöggu bragði. Það var síður en svo, að forfeðrum vorum þætti minkun í þessu, og er það því engin minkun fyrir mig, þó að hv. þm. segi, að jeg hafi gengið þrisvar undir jarðarmen, þegar jeg settist í ráðuneytið með þeim mönnum, sem þar eru með mjer. Að vísu höfum vjer ekki blandað blóði að fornum sið, en vjer göngum að sama starfi með eins góðum samhug og ásetningi um samvinnu sem fornmenn, þá er þeir gengu saman undir jarðarmen.

Að jeg hafi afneitað aðalkosningamáli mínu og flokksmanna minna, get jeg ekki viðurkent. Jeg var ekki hjerlendis, þegar aðalkosningahríðin stóð, og get jeg því ekki um það dæmt, hvað allir flokksmenn mínir kunna að hafa sagt. En á þeim 2 fundum, sem jeg átti með kjósendum mínum hjer í bænum áður en jeg fór utan. sagði jeg nákvæmlega hið sama, sem jeg hefi sagt hjer í hv. deild.

Þá taldi háttv. þm. mig mundu ganga undir tvöfalt jarðarmen í nótt með hæstv. forseta (BSv). Ekki veit jeg, hvort það muni verða, en undarlegt er það, er hv. þm. er að tilkynna opinberlega úrskurð forseta, sem er ennþá óuppkveðinn. Jeg vona, að það bendi ekki á nein undirmál milli háttv. þm. Str. og hæstv. forseta. (TrÞ: Alls ekki).

Háttv. þm. gerði að umtalsefni yfirlýsingu mína um afstöðu ráðherranna til fjáreyðslu utan fjárlaga, og mælti þá það, sem mjer líkaði ekki vel. Hann kvað mig vilja með því friða landsmenn, að engin umframgreiðsla mundi eiga sjer stað. Það er rjett að taka strax fyrir þessa hugsun. Það verður umframgreiðsla á þessu ári og á næsta ári, alveg eins og verið hefir á hverju ári síðan vjer fengum fjárforræði. Það liggur í hlutarins eðli, að hjá því verður ekki komist. Jeg hefi enga yfirlýsingu gefið um það, enda væri það ekki annað en barnaskapur. Það er um það eitt að ræða, að hinir ráðherrarnir ákveði ekki neitt um það án þess að samþykki fjrh. komi til. En eins og allir vita, eru flestar Upphæðir í fjárlögum áætlunarupphæðir, sem á engan hátt verður vitað fyrirfram, hvort nægja munu. Jeg skal leyfa mjer að benda á, að nú þegar er þó unt að sjá það fyrir, að allar launaupphæðir í fjárlagafrv. fyrir 1925 eru áætlaðar of lágt, því að nú munu allir þykjast vita, að dýrtíðaruppbót muni verða mun hærri en gert var ráð fyrir, þegar frv. var samið. Menn mega því ekki gera sjer hugmynd um, að þeir geti fengið svo röggsaman fjrh., að hann geti afstýrt allri umframeyðslu. Það væri einungis að blekkja sjálfan sig.

Jeg gaf ekkert tilefni til samanburðar á afstöðu meðstjórnenda minna til mín og til Pjeturs heitins Jónssonar. Jeg sagði að meira samræmi væri í skoðunum okkar en verið hefði í samsteypuráðuneytum áður. Það er að vísu rjett, að ráðuneyti það, sem Pjetur heitinn Jónsson átti sæti í, var samsteypuráðuneyti, þegar það myndaðist, en það breyttist tiltölulega fljótt, eða undir eins og myndast fór sparnaðarbandalagið eða drög til Íhaldsflokksins. Þá hölluðust ráðherrarnir allir þrír þar að, en áður voru þeir studdir af 2 hópum í þinginu.

Ummæli hv. þm. Str. út af þessu, að meðráðherrar mínir væru innlimaðir undir Reykjavíkurvaldið, sem hlýtur að merkja það, að jeg muni beygja þá undir mig, eru ekki í samræmi við það, sem hann sagði áður, að jeg væri altaf að bogna. Hví skyldi jeg þá ekki miklu fremur bogna undir þá og kjósendur þeirra, svo að segja mætti, að jeg væri lagður undir vilja kjósenda norður í Skagafirði eða allra hinna mörgu kjósenda hæstv. forsrh. (JM) úti um alt landið.

Þó að hv. þm. hafi farið að rekja nokkur verkfræðingsstörf mín, þá er ekki meiri ástæða fyrir mig að svara því heldur en endranær. Jeg hefi jafnan haft það fyrir reglu að svara aldrei, þó að störf mín sem verkfræðings hafi verið gerð að umtalsefni í blöðum. Þó skal jeg geta þess í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um móinn í Kringlumýrinni, að með skorti mínum á fljótfærni forðaði jeg Reykjavíkurbæ árið 1917 frá því að leggja út í fyrirtæki, sem mundi hafa leitt af sjer hræðileg vonbrigði og útgjöld fyrir bæjarbúa, en það var rekstur kolanámu vestur í Dufansdal. Það var ekki um að villast, að það var almenningsvilji, að í þetta væri ráðist, og fjekk jeg miklar ákúrur og ámæli meðal manna fyrir það, að jeg reis öndverður gegn því, eftir að jeg hafði rannsakað málið, og forðaði bænum frá stórtjóni. Og þó að margt hafi sagt verið móti mótekjunni í Kringlumýri, hefir ekki enn í dag verið unt að benda á neitt, sem skynsamlegra var að taka þá til bragðs. Jeg skal leiða hjá mjer að minnast á Kveldúlfskassann, en þar sem hv. þm. gat um vatnsleysi í pípunum við rafmagnsstöðina, skal jeg skýra frá því, að hann getur lesið alt um vandkvæði á rekstri rafmagnsstöðvarinnar í skýrslu, er jeg gaf bæjarstjórninni sem verkfræðingur áður en ráðist var í það verk. Meira varð ekki heimtað af mjer, og jeg hygg. að Reykvíkingar muni ekki enn í dag óska þess, að það verk hefði ekki verið unnið. En Elliðaárnar eru, eins og svo fjöldamargt annað, ekki eins góðar og æskilegt væri, en við það verður ekki ráðið, og verðum vjer að taka því, sem náttúran býður. Að verkið varð dýrt, er ekki mín sök, heldur þeirra, sem spornuðu á móti því, að fylgt væri mínum ráðum. Ef jeg hefði mátt ráða, þá hefði stöðin verið reist 1½ ári fyr, og hefði það spara mörg hundruð þúsundir króna, en við atkvæðagreiðsluna vóg mín hönd ekki meir en hinna, sem á móti voru. Af þessu frestaðist verkið fram á óheppilegri tíma. En þó var betra, að verkið var unnið þá heldur en ef það hefði verið látið niður falla.

Jeg kem þá að biðilsförunum, og skal jeg reyna að stilla orðum mínum í hóf. Það hefir komið fyrir margan góðan dreng að verða fyrir hryggbroti um æfina. Jeg skal ekki mótmæla því, sem hv. þm. Str. sagði um mig í því sambandi. En jeg er drengur svo góður, að jeg ber ekki kala til neins þeirra, sem jeg hefi fengið hryggbrot hjá. Svoleiðis á það altaf að vera. En mjer líkar ekki við hv. þm. Str., hvílíkur kuldi og óvild kom fram hjá honum í garð hæstv. atvrh. eftir að þessi orðsending fór þeirra á milli.

Jeg vona, að jeg hafi nú stilt svo í hóf, að jeg gefi ekki tilefni til frekari eldhúsverka. Mjer er sagt, að hv. 2. þm. Árn. (JörB) hafi haldið klukkutímaræðu með 50% dýrtíðaruppbót, eða talað í 1% stund, meðan jeg þurfti að víkja mjer frá í nauðsynlegum erindum seinni hluta dags. Jeg hefi fengið skýrslu um aðalatriðin í ræðu hv. þm., en ekki fundið neitt, sem jeg teldi þess vert að lengja umræðurnar með því að svara.

Jeg skal þá snúa mjer að brtt., og vil jeg þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefir fallist á, að vextir af viðlagasjóðnum væru eins og áður notaðir til útgjalda ríkissjóðs. Jeg vænti þess, að hv. deild fallist á þetta, enda veitir sannarlega ekki af.

Þá kem jeg að hinum umþráttuðu tillögum mínum. Hv. þm. Str. og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafa báðir látið í ljós, að þeir teldu æskilegt, að jeg tæki þær aftur. Það get jeg ekki gert, vegna þess, að báðar ganga í þá átt, er jeg sem fjármálaráðherra og flokksmaður Íhaldsflokksins verð að telja þá einu rjettu stefnu nú. Báðar miða þær til þess að rjetta við fjárhaginn og færa niður útgjöldin, og verður því að virða mjer til vorkunnar, þó að jeg fari eins langt og jeg get. Ef hæstv. forseti vísar þeim frá, hefi jeg gert skyldu mína, einnig í því efni.

Um VI. brtt., að færa niður fjárveitinguna til sóttvarna, verð jeg að segja, að jeg skil hana ekki. Þessi kostnaður hefir að langmestu leyti gengið til sótthreinsunar á húsnæði og húsmunum á þeim heimilum, er farsóttir hafa komið upp á. Jeg get ekki hugsað mjer, að það sje tilætlun hv. flm., að þetta eigi að falla niður. Kostnaðurinn við þessa sótthreinsun, sem er alveg nauðsynleg, hefir síðustu árin verið heldur hærri en 15 þús. kr., og sje jeg því ekki, að rjett geti verið að lækka áætlunina, nema sýnt verði fram á, að meira hafi verið greitt fyrir unnin verk en nauðsyn bar til. Þetta hefi jeg ekki rannsakað, en jeg get fullvissað hv. þm. um, að það skal verða tekið til athugunar, hvort meira hefir verið greitt en þörf var á, og komi það í ljós, að svo hafi verið, skal því verða kipt í lag. Vænti jeg þess, að hv. deild verði sjálfri sjer samræm í þeirri stefnu, að áætla varlega og lofi liðnum að standa með fullri upphæð.

Jeg skal svo ekki gera aðrar einstakar fjárveitingartillögur að umtalsefni. Jeg get fallist á flestar tillögur hv. fjvn., en fáar aðrar. Um brtt. við 21. og 22. gr. skal jeg geta þess, að jeg verð að fallast á tillögu hv. fjvn. um að heimila ábyrgð á 40 þús. kr. láni til Húsavíkurhrepps. Af þeim ástæðum, sem nefndin og hv. þm. S.-Þ. (IngB) hafa fært fram, virðast þarna svo miklir almenningshagsmunir í veði, að rjett sje að verða við þessari beiðni. Og varla er ástæða til að ætla, að þetta kauptún sje svo naumlega statt, að ríkissjóði yrði baggi að þessari ábyrgð. En svo vil jeg setja punktinn þarna og leyfa mjer að óska, að ekki verði samþyktar neinar aðrar ábyrgðarheimildir.

Um tillöguna um að heimila stjórninni að greiða Eimskipafjelagi Íslands alt að 60 þús. kr. skal jeg taka það fram, að verði hún samþykt, tel jeg sjálfsagt, að fjeð verði ekki greitt nema því aðeins, að fjelaginu sje það í raun og veru öldungis nauðsynlegt. Samskonar liður er í gildandi fjárlögum, og er sá styrkur nauðsynlegur fjelaginu, því að afkoman hefir verið mjög óhagstæð undanfarandi ár. Jeg vona, að eitthvað rætist úr á þessu ári; að minsta kosti hefir byrjunin verið betri nú en í fyrra, en þó er erfitt að fullyrða um, hvernig áframhaldið verður. Þessi styrkur er veittur í því skyni að styðja fjelagið gagnvart samkepni erlendra fjelaga. Jeg hefi ekki tekið eftir, að gerð hafi verið beinlínis grein fyrir því, en það er tilætlunin, að þessi heimild komi í stað þess, sem fjelagið fór fyrst fram á, að það yrði undanþegið vitagjaldi og afgreiðslugjaldi fyrir skipin. Þessi gjöld hafa nýlega verið hækkuð um 25%, og hafi fjelaginu verið illfært að bera þau eins og þau voru, þá getur það því síður greitt þau nú, en þessi gjöld nema nú eftir hækkunina einmitt um 60 þús. kr. yfir árið. Það er því í raun og veru farið fram á að veita heimild til að endurgreiða það, sem fjelagið greiðir í ríkissjóð á þennan hátt, ef það er nauðsynlegt vegna afkomu fjelagsins. Vil jeg því leyfa mjer að mæla með því, að heimildin fái að standa í fjárlögunum fyrir 1925, eins og í gildandi fjárlögum.