17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (1904)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg er sammála háttv. 4. landsk. (JM), um að ræðan hans frá 1909 var ágæt, og miklu betri en margar ræður hans á þingi í vetur. Hann hafði því fullkomna ástæðu til þess að telja sjer ræðuna til tekna. En tekjur hans hefðu orðið ennþá meiri, ef hann hefði haldið við þá sannfæringu, sem hann hafði þá, og aldrei snúist í málinu. Jeg held, að enginn maður hafi nokkum tíma reynt að tæma allar röksemdir þessa máls, bæði með og móti, eins og háttv. 4. landsk. (JM) hefir reynt á þingi 1909 og nú. Háttv. flm. hjelt því fram, að nú yrði að spara fyrir hvern mun. En hví hleypur eigi sparnaðarnefndin af stokkunum? Hví ýtir ekki sparnaðarmaðurinn undir flokksbræður sína, háttv. þm. Seyðisf. (JóhJóh), svo að hann láti sparnaðarnefndina koma úr umbúðunum? Háttv. flm. þessa frv. eru í rauninni engir sparnaðarmenn. Verður því varla fundin önnur ástæða líklegri fyrir því, að þeir bera fram frv., en sú, að þeim komi illa, að almenningur fái vitneskju um, hvað þeir aðhafast á þingi og segja. Þessir menn knúðu fram stofnun embættist við bankaeftirlit í fyrra, með háum launum, en ósýnilegu verkefni. Svona var sparnaðurinn þá, og svona er hann enn.

Gremja háttv. 6. landsk. (IHB) yfir þessum atburði, sem jeg mintist á, verður ekki skilin öðruvísi en svo, að háttv. þm. þyki fyrir, að kjósendur hans hafa vitað svo vel um framkomu hans alla á þingi. Samhengið verður þá ofurskiljanlegt og eðlilegt, að kjósendur hafi breytt skoðun á háttv. þm., er þeir fengu frjettir af þinginu. Og ef jeg man rjett, er ritstj. tímaritsins, sem jeg gat um, kona, sem einnig var á landkjörslista kvenna og bar þann lista fram til sigurs. Aðstaðan er jafnan erfið, og óþægilegt fyrir þann, sem snúist hefir frá góðum málstað til verri málstaðar. (IHB: Jeg hefi ágætan málstað). En kunnugleiki kjósenda af þingmálum mun hafa valdið framkomu vantraustsins.

Háttv. 6. landsk. (IHB) kom því upp við 1. umr., að eitthvert samband mundi vera milli vantraustsins og umræðuparts Þingtíðindanna. En þau ráð vil jeg gefa háttv. 6. landsk. (IHB) og bræðrum hans, að vera eigi svo hörundssárir, en sætta sig við það, þótt þingið sje opið og dæmd verði frammistaða þeirra. Þingmenn geta, ef verkast vill, fengið vantraustsyfirlýsingu, rjett eins og ráðherrar, og verður þá að eiga það á hættu.