17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (1910)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Hin stutta aths., sem hv. 5. landsk. (JJ) fjekk leyfi til að gera, varð brátt að langri ræðu, eins og hann á vanda til. Jeg ætla mjer ekki að eltast við hana alla, heldur að eins minnast á grískudósentinn. Hv. þm. (JJ) vildi meina, að frv. hans hafi verið felt af því, að meirihlutinn — og þar á meðal jeg — hafi viljað halda hlífiskildi yfir embættinu. Þetta er algerlega rangt, og vil jeg gersamlega vísa slíkri aðdróttun á bug, hvað mig snertir. Því hvenær sem frv. um afnám þessa embættis kemur fram á formlegan hátt, mun jeg greiða því atkv. mitt.

Háttv. þm. (JJ) gat þess, að málinu mundi hafa verið vísað til allshn., þar sem jeg á sæti. En fyrir því er engin vissa. Það gat alveg eins komið til mála að vísa því til hv. mentmn., og enda þótt hv. 5. landsk. (JJ.) eigi sæti í þeirri nefnd, er engin sönnun fyrir því, að hún hefði ekki svæft frv. Því vel má vera — og enda sennilegast — að hv. þm. (JJ) hafi borið frv. fram eingöngu til þess að sýnast. Því að ef nokkur alvara hefði legið á bak við, er ótrúlegt, að hann hefði ekki getað fært málið í sæmilega frambærilegt form. En, eins og jeg áður hefi sýnt fram á, var frv. hans sá óskapnaður, að engum manni með fullri skynsemi var unt að greiða því atkv. í alvöru.