17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (1911)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Guðmundur Ólafsson:

Jeg vil taka í sama streng og hæstv. forsrh. (SE) um það, að enda þótt ræður þm. kunni að vera prentaðar í Þingtíðindunum með nokkuð öðrum orðum en þær eru talaðar, þá kemur þó sú skoðun, sem þm. hefir haldið fram, skýrt í ljós. Um það er jeg ekki í nokkrum vafa.

Þá hefir verið talað um, að kjósendur gætu sjeð afstöðu þingmanna til þeirra mála, sem fyrir koma, af skjalapartinum. Nokkuð mun hæft í þessu, en ekki er það einhlítt. Tökum t. d. mál það, sem nú er verið að ræða um og telja má stórmál. Lítið verður á skjalapartinum að græða í þessu máli. Nefndarálitin eru ekki lengri en 3½ lína annað og 2½ hitt, og þó eru nál. venjulega greinilegri, er nefndir klofna. Auk þess verður þm. gert mun óhægra fyrir, ef hætt verður að prenta umræður, því að þeir nota þingtíðindin mjög mikið. Þá er ekki víst nema þeir, sem mest tala, taki upp á því að skrifa löng nál., kannske 2–3 arkir í sínum áhugamálum, svo þar verði sjeð, hverju þeir halda fram, og nafnakall við flestar eða allar atkvæðagreiðslur, ef hætt verður að prenta umr., og verður sparnaðurinn þá minni, ef til vill sama sem enginn.

Eins og jeg hefi áður sagt, er bæði ófært og mjög óviðkunnanlegt að fella niður prentun Þingtíðinda, en ef þm. vildu stytta ræður sínar, þá væri mikið unnið.

Hv. þm. Vestm. (JJós) vildi halda því fram, að þm. myndu tala minna, ef hætt væri að prenta umr., en það hygg jeg fjarri sanni. Virðist reynslan, sem fæst á lokuðum fundum þingsins, síst benda í þá átt. Aldrei er talað meira en einmitt þá — og þó eru þær umr. ekki prentaðar.

Jeg skildi ekki vel, hvað hæstv. forsrh. (SE) fór, þegar hann virtist halda því fram, að enginn sparnaður, sem þingið kynni að gera, kæmi að notum. (Forsrh.: Það voru ekki mín orð). Já, jeg veit ekki hvernig skrifararnir hafa tekið þessi orð hæstv. forsrh. (SE), en mjer virtust þau helst hníga í þessa átt.

Að minsta kosti mátti skilja á honum, að hann áliti embætta- og starfsmannastakk þjóðarinnar ekki of stóran, heldur færi hann dálítið illa, en væri annars góður. Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, að alls enginn sparnaður verði að því að fella niður prentun umr.partsins, en þó er jeg á móti því, vegna þess meðal annars, að mjer finst svo margt eiga að ganga á undan, sem lítil eða engin eftirsjá er að.