17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (1912)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Forsætisráðherra (SE):

Ummæli hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) um tveggja og þriggja lína nefndarálitin voru fyndin, því þau sýndu, hve fróðleikur sá er djúpur, sem menn oft og einatt mundu ausa úr skjalapartinum. Hv. þm. (GÓ) misskildi ummæli mín um sparnaðinn. Auðvitað veit jeg, að gott er að spara 70 þús. kr. á óþörfum embættum eða hverju sem er, en sá sparnaður, þó von væri á honum, sem ekki er, mundi ekki lausn á fjárhagsörðugleikum vorum. Á honum mun krónan eða gengi hennar ekki velta. Til þess þarf dýpri ráð. Og því er það, eða ætti ekki að vera nóg, til þess að friða hina fjárhagslegu samvisku, að rita á blað um niðurlagningu embætta, sjerstaklega ef það svo ekki verður lagt niður. En þrátt fyrir það, vegna framtíðarinnar, þá skiftir það miklu fyrir þjóðina, að embættastakkurinn sje sniðinn efir vexti hennar, því að óþörf embætti eru illgresi í akrinum. Annars hefir baráttan um sum embættin verð brosleg. Að grískudósentinum er gerð hríð á hverju ári, og allir vita þó, að hann verður ekki lagður niður, meðan þessi maður er í embættinu. En einhverja tröllatrú hafa menn að ráðast á hann á hverju ári, þó að sú barátta kosti mörg þús. kr.

En eiga menn nú vissa von á náð hjá þjóðinni, þó að þeir standi í þessari vonlausu, dýru baráttu árlega? (JJ: Íhaldið bjargaði því núna). Já, og gerir það vonandi að ári.