19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (1921)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jóhann Jósefsson:

Við flm. frv. þessa megum án efa vera þakklátir hæstv. forsrh. (SE) fyrir að benda okkur á, að náðartíminn væri ekki úti enn, og því hægt að iðrast. En hvað mig snertir, þá mun jeg þegar orðinn svo forhertur, að jeg get ekki hagnýtt mjer þessa aðvörun hans. Annars er það næsta undarlegt af háttv. andmælendum frv. að vera altaf að neyða okkur út í þessar umræður.

Það er næsta broslegt að gera ráð fyrir, að því verði tekið svo mjög illa út um land, þó að við flm. frv. þessa leggjum til, að prentun umræðuparts Alþingistíðindanna verði frestað. Og jeg er sannfærður um, að aðrar miklu óþægilegri frjettir berast út um land frá þessu þingi, þó ekki væri nema hin mikla tollhækkun og hinar ýmsu álögur, sem þingið verður að leggja á þjóðina nú. Þær frjettir er jeg sannfærður um, að eru þjóðinni miklu ógeðfeldari en þó að við gerum tilraun til að spara 20 þús. kr. á prentunarkostnaði Þingtíðindanna. Er því ekki rjett að nota þetta tækifæri til þess að hella botnlausum getsökum yfir okkur, sem höfum hreyft þessu sparnaðarmáli.

Háttv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði margt, og sumt af því mjög merkilegt, eins og t. d., að kjósendur hans í Suður-Múlasýslu læsu Þingtíðindin alment. Jeg verð að segja, að þetta sje mjög aðdáanlegt fólk, því að þessi orð háttv. þm. skil jeg svo, að það sje að eins undantekning, ef til er maður í kjördæmi hans, sem ekki les þau. Þvílíkri lestrarfíkn og lærdómslöngun er sannarlega vert að halda á lofti.

Svo sterk var rjettlætistilfinning þessa háttv. þm., að honum fanst sanngjarnt að loka áheyrendapöllunum hjer fyrir Reykvíkingum, ef hætt yrði að prenta umræðupartinn. En jeg vil nú spyrja, hvað á þá að gera við Sunnmýlinga, ef þeir skyldu einhverjir koma hingað og vildu t. d. fá að hlusta á þennan háttv. þingmann sinn? Á þá ekki einu sinni að opna pallana fyrir þeim? Að draga slíka ályktun út af þessari sparnaðarviðleitni okkar, er næsta barnalegt.

Þá komst hann meðal annars að þeirri niðurstöðu, að við flm. frv. þessa værum með því að leggja til efniviðinn í okkar pólitísku líkkistu. Það er ekki nema eðlilegt, að hann segði þetta, því að „svo mæla börn sem vilja“. Hann sagði, að þetta væri sín trú. Jæja, jeg vona, að hann verði talinn af flokksbræðrum sínum rjetttrúaður í þessu efni.