24.03.1924
Efri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (1932)

43. mál, sameining kennarastarfs í hagnýtri sálfræði forstöðu Landsbókasafnsins

Forsætisráðherra (JM):

Út af fyrirspurn hv. 5. landsk. þm. (JJ) um, hvað hafi gerst í þessu máli árið 1919, skal jeg geta þess, að það er satt, að þá kom kvörtun, en ekki harðort brjef, frá eftirlitsnefnd safnsins til landsstjórnarinnar. Var síðan bæði þetta brjef og svar landsbókavarðar lagt fyrir mentmn. Nd., en hún sá ekki ástæðu til að gera neitt frekar í þessu máli. Sje jeg ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta mál. Annars stendur eins á með þetta frv. og frv. um grískudósentinn. Annað frv. er komið fram í Nd. og er komið lengra en þetta, og teldi jeg verksparnað að bíða eftir því og sameina þetta alt.

Annars hefi jeg aldrei heyrt getið um, að nokkurt þing ljeti sjer detta í hug að leggja niður prófessorsembætti, sem var stofnað fyrir sjerstakan mann, og hefir þingið í því gengið lengra en dæmi eru til, þar sem það hefir sett nafn mannsins inn í lögin.