24.03.1924
Efri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (1933)

43. mál, sameining kennarastarfs í hagnýtri sálfræði forstöðu Landsbókasafnsins

Sigurður Eggerz:

Jeg stóð gegn stofnun þessa embættis, en hinsvegar er jeg sömu skoðunar og hæstv. forsrh. (JM), að jeg álít það ósamboðið virðingu þingsins að fella það niður, þar sem það er bundið við nafn ákveðins manns. Fyrv. stjórn bar fram frv. um samsteypu Landsbókasafnsins og þjóðskjalasafnsins, og hygg jeg, að ekki sje hægt að færa nein gild rök gegn þeirri samsteypu, enda vona jeg að hún nái fram að ganga. En hinsvegar yrði það alt of mikið starf fyrir landsbókavörðinn að vera jafnframt kennari í sálarfræði við háskólann. Þó að nú í augnablikinu mætti fá mann, sem gengt gæti báðum þessum embættum, þá er hinsvegar sýnilegt, að í framtíðinni eru engar líkur til þess, að sami maður hafi báða þá eiginleika að geta verið landsbókavörður og kennari í hagnýtri sálarfræði. Þessi störf eru svo ólík í eðli sínu.

Alt annað mál er að nota tækifærið, ef landsbókavarðarstaðan losnaði, til þess að bjóða Guðmundi Finnbogasyni hana, og ef hann vildi taka boðinu, þá færi vel á því, því að þá væri óþarfa embætti langt niður.

Um eftirlitsnefndina er það að segja, að jeg bað háskólann í vetur og aðra hlutaðeigendur að tilnefna menn í hana. Háskólinn neitaði því með tilvísun til fyrri brjefaviðskifta. En eftir mínum skilningi er háskólinn skyldugur að tilnefna þessa menn, og á hinsvegar engan rjett á því að ráða, hver er landsbókavörður í hvert skifti.

Það hefir komið til mála, þegar fyrir tveimur árum, að landsbókavörður beiddist lausnar. En hann mun ekki hafa sjeð sjer það fært, þar eð þau eftirlaun, sem hann á tilkall til, eru svo lítil, að ómögulegt er fyrir hann að lifa af þeim. Býst jeg við, að hann mundi gjarnan vilja beiðast lausnar frá starfinu, ef Alþingi veitti honum hæfileg eftirlaun.