22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Jón Magnússon):

Það er hvorttveggja, að hjer þarf ekki langa framsögu, enda treysti jeg mjer ekki til að halda langar ræður í dag. Aðalatriði þessa máls eru kunn frá fyrri tímum, og ekki síst frá síðasta þingi. Fækkun þinga og ráðherra eru aðalatriði þessa frv., og að því er sparnað snertir er þingafækkunin aðalatriðið. Því hefir verið haldið fram, að enginn sparnaður væri í því að hafa reglulegt þing aðeins annaðhvert ár, því að reynslan hefði sýnt, að aukaþing voru haldin á hverju ári fyrir því. Þetta er ástæða, sem hefði mikla þýðingu, ef rjett væri. En aukaþing hafa aldrei verið haldin nema af sjerstökum ástæðum, einungis þegar brýn nauðsyn hefir krafið. Og síðan innlenda stjórnin kom, hafa engin þing verið haldin á árunum 1904–6–8 og 10. En 1912 og 1914 voru aukaþing, og þá vegna stjórnarskrárbreytinga. En svo kom ófriðurinn, sem ruglaði þessu, ekki síður en öðrum athöfnum. En nú má búast við, ef eitthvert framhald verður á þeirri sparnaðarviðleitni, sem nú virðist byrjuð, að aukaþing verði ekki haldið, nema brýna nauðsyn beri til. Annars hefir reynslan líka sýnt, að þingin voru ekkert lengri, meðan þau voru aðeins haldin annaðhvert ár, en þau eru nú, þegar þau eru haldin á hverju ári. Ef gera ætti róttækan sparnað við þinghaldið, gæti vel komið til greina að fækka þingmönnunum, því að við höfum miklu fleiri þingmenn en líklega öll önnur lönd, miðað við fólksfjölda. Ef hjer ætti t. d. sami fólksfjöldi að koma niður á hvern þingmann eins og í Englandi, ættum við ekki að hafa nema einn þingmann heilan og brot úr öðrum. Jeg segi nú ekki, að rjett sje að miða eingöngu við fólksfjölda, en vel mætti fækka þingmönnum hjer.

Þá er annað aðalatriði frv. þessa, að hafa aðeins einn ráðherra, og jafnframt landritara, sem jeg álít, að þurfi að vera, til þess að fá meiri festu í stjórnina. Landritaraembættið var í raun og veru framhald af landshöfðingjaembættinu.

Þá er ráðherrunum var fjölgað, var það aðallega gert vegna ýmissa örðugleika, sem að okkur steðjuðu vegna ófriðarins mikla. Annars skal jeg taka það fram, að jeg er þeirrar skoðunar, að ráðherrarnir eigi ekki að vera tveir. Ef þörf þykir að hafa þá fleiri en einn, tel jeg rjettara, að þeir sjeu þrír. Sparnaður við breyting í þessu efni er ekki sjerlega mikill, einar 10 þús. kr. En það, sem jeg legg mestu áhersluna á, er að fá landritara eða landshöfðingjaembættið aftur.

Um önnur atriði frv. skal jeg ekki fjölyrða, því að þau eru að mestu fólgin í því að hverfa að því er áður var, og þá sjerstaklega að því, er var áður en stjórnarskránni var breytt síðast og ráðherrunum fjölgað. Þó er eitt nýmæli, er jeg vil minnast á, og það er, að hæstirjettur dæmi um, hvort þingmenn sjeu rjettkosnir. Jeg tel það engan skaða fyrir þingið, þó að það losni við þetta, því að oft hefir það verið sakað um, að úrskurðir þess væru hlutdrægir. Jeg segi ekki, að ásakanir þessar hafi verið rjettmætar. Þegar komið hefir tilorða áður að láta dómstólana skera úr þessu, þá hefir því einatt verið haldið fram, að engin kosning myndi standast fyrir dómstólunum, svo mjög sem þær væru oft gallaðar. En þetta er hreinasti misskilningur á störfum dómara, því að þeir dæma ekki altaf eftir bókstaf laganna, eins og margir halda.

Legg jeg svo til, að frv. þetta sje látið fara í nefnd, og þá gjarnan í allsherjarnefnd, en ef nauðsynlegt þykir, þá má bæta við mönnum. — Þyki rjettara að kjósa sjerstaka nefnd, þá er jeg fyrir mitt leyti ekkert á móti því.