15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (1942)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meirihl. (Jón Magnússon):

Um þetta mál tel jeg óþarfa að tala mikið nú, því að fyrst og fremst er það vel kunnugt frá þinginu í fyrra, og ennfremur var það rætt allmikið við 1. umr. hjer í þessari hv. deild nú. Ætla jeg því litlu að bæta við álit meirihlutans, en aðeins drepa á það, sem þar er ekki sjerstaklega minst á, og er það aðallega 13. gr. Er hún aðeins til þess að segja með berum orðum það, sem jeg tel, að sje fyrir í stjórnarskránni, að ekki megi veita fje efir þingsályktunartillögum. Þetta hefir komist á, eftir ákvörðun þingskapanna. Þá er 10. gr. frv., um að fella niður síðari málsgrein 30. gr. stjórnarskrárinnar. Því að sú breyting hefir komist inn í stjórnarskrána 1915, að dómendur, sem ekki hefðu umboðsstörf á hendi, mættu ekki eiga sæti á Alþingi. Þetta tel jeg álitamál, og er ekki viss um, að rjett sje að halda þessu ákvæði, ef ekki er þá gengið lengra í þessu efni. Annars geri jeg þetta atriði ekki að neinu kappsmáli.

Þá vil jeg með nokkrum orðum snúa mjer að áliti minnihlutans. Þar er tekið svo til orða, sem ekki er beinlínis rangt, en getur valdið misskilningi, að allir Framsóknarflokksmenn í Ed. hafi borið fram stjórnarskrárbreytingu í þingbyrjun, og jeg borið fram um leið samskonar frv. og fjell í Nd. í fyrra. Við þetta er það að athuga, að jeg afhenti mitt frv. tveimur sólarhringum fyr en Framsóknarmenn sitt. En það munu hafa verið fyrstu málin, sem þingmenn báru fram á þinginu.

Um það skal jeg ekki deila, hvort þriggja ráðherra stjórn hafi í upphafi verið sett mín vegna, því að það skiftir litlu máli. En hafi svo verið, tel jeg það sóma fyrir mig.

Þá kem jeg að þingafækkuninni. Um hana virðist ekki þurfa að deila, því að þar erum við hv. 5. landsk. (JJ) samdóma. Um tölu ráðherra sje jeg ekki heldur ástæðu til að fara að tala mikið um nú, því að það var gert allmjög við 1. umr. þessa máls hjer í deildinni. Hvort rjett sje að hafa þá einn eða fleiri, verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig. En það vita þó allir, að lengi var hjer aðeins einn ráðherra, og þing þá annaðhvert ár. Og úr því að það hefir verið, hefir það þó getað verið. Og jeg get ekki viðurkent það, að sú breyting að fækka ráðherrum, sje nokkuð í einveldisáttina, eins og haldið hefir verið fram í nál. minnihl.

Það er rjett, sem háttv. frsm. minnihl. heldur fram í nál., að þetta frv., sem jeg ber hjer fram, er að nokkru leyti hið sama og frv. það, sem borið var fram í hv. Nd. í fyrra. Þetta frv. er bara miklu ákveðnara.

Þó að hjer yrði aðeins einn ráðherra, þá get jeg ekki sjeð, að það þyrfti að taka svo mikið tillit til veislulífs hans, eins og háttv. frsm. minnihl. virðist halda fram, nema ef vera kynni, að þyrfti að veita honum eitthvað meiri laun sökum þess.

Annars er lenging kjörtímabilsins það, sem jeg býst við, að verði aðalágreiningsatriðið. Og það er að vísu ekkert óeðlilegt, þó að svo geti verið. En jeg vil benda þeim hv. þm., sem þykir 6 ár of langt kjörtímabil, á það, að eftir þeirra röksemdum væru 4 ár einnig of langt kjörtímabil. En það munar hinsvegar svo litlu, hvort það er 4 ár eða 6, að það má segja, að það sje hreint álitamál, hvort rjettara sje. Það er styttra hjá sumum þjóðum, en aftur lengra hjá öðrum, og það hjá þjóð eins og Englendingum, sem meta þingræðið mjög mikils; þar er kjörtímabilið lengra, jeg hygg venjulega talið 5 ár. (JJ: Það eru líka mjög oft aukakosningar í Englandi.) Já, það er sjaldan, að líði svo langur tími milli kosninga í Englandi, og svipað mundi líka sjálfsagt verða oft hjer, ef kjörtímabilið væri 6 ár.

Það, sem aðallega gerir, að jeg vil lengja kjörtímabilið, er það, að mjer finst nokkuð lítið, að þingmenn sitji aðeins tvö þing, eins og verða mundi, ef þingum væri fækkað, án þess að kjörtímabilið væri lengt, en ef það verður 6 ár, þá situr þó hver þingmaður 3 þing, og úr því að lengt er kjörtímabil hinna kjördæmakjörnu þm., þá fanst mjer eðlilegt, að kjörtímabil hinna landskjörnu sje einnig lengt um þriðjung, sem sje úr 8 árum í 12. Hvað því viðvíkur, að það sje illa viðeigandi, að þeir landsk. fari sjálfir að útvega sjer lengra kjörtímabil en nú er, þá sje jeg ekki ástæðu til að fara að deila um það. Það verður að vera komið undir atkv. háttv. deildarmanna, hvort það fær fram að ganga. Og þótt þeir landsk. vildu, þá gætu þeir ekki ráðið þessu einir, enda ólíklegt, að þeir hafi mikla tilhneigingu til að gera slíkt í hagsmunaskyni, því að það er að minsta kosti ekki mikill fjárhagslegur hagnaður að því að sitja á þingi.

Þótt háttv. frsm. minnihl. þyki 12 ár óhæfilega langt kjörtímabil, þá finst mjer það vera hreint álitamál, hvort betra sje að hafa það 8 ár eða 12. Og þótt háttv. flm. finnist ekki mega lengja kjörtímabil þeirra manna, sem á þingi sitja, þá finst mjer, að það mætti engu síður gera en stytta það, og taka þannig tímann frá þm., en það var gert, þegar þetta ákvæði var sett, að kjörtímabilið skyldi vera 8 ár, því áður var það 12 ár.

Jeg er því samdóma, að á kostnað ríkissjóðs beri ekki að líta í þessu sambandi, því hann er svo hverfandi lítill. Öðru máli er að gegna um kostnað einstakra manna við alþingiskosningar, en það getur þó ekki ráðið úrslitum þessa máls.

Því er haldið fram, að kjósendur hafi ekki beðið um þetta, en mjer finst yfirleitt vera örðugt að segja um það, hver sje hinn eiginlegi vilji kjósenda í einstökum málum. Kjósendur hafa yfirleitt ekki tíma til að setja sig inn í öll mál, og skoðanir þeirra fara því oft eftir því, hvernig málin eru túlkuð fyrir þeim.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta mál. Það er ekki rjett, að jeg hafi frv. þetta, eða hugmyndina til þess, að nokkru leyti frá hv. Framsóknarflokksmönnum, það er svipað frv. því, sem borið var fram í fyrra í þinginu og hefði komist í gegnum þingið, ef það hefði ekki einmitt strandað á mótstöðu frá Framsóknarmönnum. Annars finst mjer ekki þýða að vera að halda langar ræður um þetta mál. Hv. þm. verða að gera það upp með sjálfum sjer, hvort þeir vilja þessa breytingu eða ekki.