15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (SE):

Eina brtt., sem báðir nefndarhlutarnir hafa orðið ásáttir um að gera á stjórnarskránni, er ákvæðið um, að þing skuli vera annaðhvert ár. Skilst mjer, að það sje borið fram af báðum sem sparnaðaratriði.

Hv. minnihl. sagði, sem er alveg rjett, að síðan 1911, að því ári meðtöldu, hafi þing verið haldið árlega, og eitt árið tvö. Ætti þetta að benda til þess, að þetta sje ekki neitt sparnaðaratriði. Jeg býst við, að allir sjeu sammála um, að hver stjórn hefði hlotið að kalla saman þing vegna máls eins og t. d. kjöttollsmálsins; hún hefi gert það, þótt eigi hefði átt lögum samkv. að halda þing í ár. Líf og hættir þjóðarinnar eru orðnir svo margbreytilegir, að ekki er hægt að hugsa sjer þann möguleika að hafa ekki þing árlega. Og vegna þessa væri það ekki vel ráðið að fara að samþ. þessa stjórnarskrárbreytingu og vekja upp alla þá gömlu drauga, sem komast á gang, er slíkar breytingar verða.

Jeg óska ekki eftir byltingum nje breytingum á núverandi þjóðfjelagsfyrirkomulagi. Jeg vil vernda það eftir mætti. Og jeg segi þeim, sem eins hugsa, að það skiftir miklu, að þingið komi saman árlega, og liggur í því mikil trygging fyrir því, að ráðum þjóðarinnar verði betur ráðið en ella kynni að verða. En reynslan hefir sýnt og mun sýna, að þótt breytingin verði samþykt, mun hún verða þýðingarlaus. Þingið verður kallað saman árlega eftir sem áður.

En ef svo væri litið á, að vjer hefðum eigi ráð á því að halda þing árlega, legg jeg til, að sú leið verði farin, að fækka fulltrúunum. Jeg vil heldur hafa 24 manna þing árlega en 42 manna þing annaðhvert ár. Það er nú búið að vekja upp þann draug hjá þjóðinni, að með fækkun þinga megi spara svo mikið fje; það getur reynst erfiðara að kveða drauginn niður. Þetta hafa bæði háttv. meiri- og minnihl. sjeð, og því eru þeir nú í öngum sínum.

Hvað snertir þá breytingu á stjórnarskránni að hafa einn ráðherra og með honum einn landritara, þá get jeg ekki fallist á það. Jeg hygg ekki, að ástæðan til þess að ráðherrum var fjölgað, hafi eingöngu verið stríðið, eins og haldið hefir verið fram, heldur hygg jeg, að menn hafi litið svo á, að þau ráð, sem ráða ætti, væru svo stór og þýðingarmikil fyrir þjóðina, að það þætti borga sig að hafa fleiri en einn ráðherra. Þótt einn maður gæti vafalaust annast dómarastörfin í æðsta dómi landsins, hæstarjetti, þá dytti engum manni í hug að taka upp það fyrirkomulag, vegna þess, að trygging borgaranna heimti, að þeir úrskurðir sjeu í höndum fleiri manna.

Það getur enginn neitað því, að þau ráð, sem stjórnir verða að ráða, geti haft ákaflega mikla þýðingu fyrir þjóðina, og það er altaf meiri trygging í þriggja manna stjórn, að ekkert verði gert, er kynni að verða til skaða fyrir þjóðina, því að betur sjá augu en auga. En jafnvel þó að það væri rjett, að ráðherrarnir hafi verið teknir vegna stríðsörðugleikanna, þá leyfi jeg mjer að spyrja: Eru örðugleikarnir minni nú en þá? Jeg efast um að svo sje.

Þegar rætt er um fyrirkomulag stjórnarinnar, þá má ekki gleyma því, að vitanlega eru öll endanlegu ráðin í höndum ráðherrans, og hljóta að vera. Þetta er háttv. 4. landsk. (JM) vel kunnugt um, enda er þetta mjög eðlilegt, því að ráðherra ber einn ábyrgð á öllum framkvæmdum. Og enda þótt landritari kæmi aftur, þá verður afstaða hans til ráðherra mjög svipuð því, sem afstaða skrifstofustjóra stjórnarráðsins er nú. Því að hver vill taka að sjer að vera ráðherra, ef hann ætlar sjer ekki í öllum verulegum málum að hafa síðasta orðið?

Því miður þá finst mjer margt, sem nú kemur fram hjer á Alþingi, bera vott um mikla breytingagirni. Hjer er altaf verið að breyta, og helst því, sem menn gera sjer síst leik að að breyta að nauðsynjalausu annarsstaðar. Á hverju þingi vilja menn breyta hæstarjetti. Og nú á ekki aðeins að fækka dómurum, heldur eiga þeir hjer eftir að kjósa sjer dómstjóra sjálfir. Sífeldar tilraunir eru gerðar til að draga úr viðgangi æðstu mentastofnunar vorrar. Og nú fallast hinir voldugu flokkar, sem ráða því, hvernig hjólin snúast hjer í þinginu, í faðma um að breyta stjórnarskránni. Kannske þeim sje aðalatriðið að fá nýjar kosningar? Eða er þetta alt saman leikur? Margir, sem ekki teljast til stóru spámannanna hjer í þinginu, trúa því best. Enda er haft fyrir satt, að nýja stjórnin, hver sem hún verður, muni setja sig upp á móti þessum breytingum. Annars er ástandið hjer orðið bágborið, ef altaf á að vera að krukka í stjórnarskrána, bara til að fá nýjar kosningar.

Jeg skal játa, að jeg hefi í engu fallið frá því, sem jeg sagði á síðasta þingi. Jeg álít stjórnarskrá vora svo úr garði gerða, að vel megi við una, og að þessar breytingar, sem altaf eru að gægjast upp, sjeu frekar til hins verra. Og vel mega menn athuga, að ef þessar breytingar verða samþyktar hjer nú, þá munu fleiri teygja upp höfuðið, þegar til þjóðarinnar kemur. Þeir, sem greiða frv. þessu atkv., verða því að taka á sig ábyrgðina af eldi þeim, sem ný stjórnarskrárbarátta vekur með þjóðinni. Jeg vil því leyfa mjer að spyrja: Ef stjórnarskrá vor er viðunandi, eru þá þessir tímar vel fallnir til að kveikja þann eld? Er ekki betra að lofa breytingunum að hvíla sig ögn? Ætli örðugleikarnir, sem framundan eru, verði svo litlir, að ver gefist, að 2 eða 3 ráðherrar reyni að ráða fram úr þeim?

En ef þetta er leikur, sem sumir halda, er þá ekki illa farið með tíma þingsins? Mjer sýnist ýmislegt það aðhafst hjer á þinginu, sem ekki mun drýgja tíma þess til að ráða fram úr vandamálunum. Nei, það er ýmislegt annað, sem liggur nær en þessar sífeldu breytingar á stjórnarskránni. Jeg hefi á síðasta þingi varað alvarlega við þessum breytingum, og jeg vil endurtaka þá aðvörun mína. Jafnframt vil jeg enn brýna það fyrir hinu háa Alþingi, að mörg mál standa því nær en stjórnarskrárbreyting.