15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (1946)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg mun láta mjer nægja að gera stutta athugasemd. Það er svo mikill meiningamunur milli nefndarhlutanna, að hvorugur nær til annars. Þess vegna er jeg að miklu leyti samdóma hv. 4. landsk. (JM) um, að langar umræður sjeu þýðingarlitlar. Alt veltur á þessum meiningamun. Frsm. meirihl. gerir ráð fyrir og óskar eftir að minka vald borgaranna um þjóðmálin og minka vald þingsins í sama mæli. Hann vill minka vald kjósendanna og þjóðarinnar í hennar eigin málum.

Við Framsóknarmenn viljum ógjarnan samþykkja stjórnarskrána út úr þinginu með þeim breytingum, sem sýnilega spilla stjórnarfari landsins. En við viljum gefa andstæðingunum öll hugsanleg tækifæri til að bæta ráð sitt og hverfa frá villu síns vegar.

Dálítils misskilnings kendi hjá háttv. 4. landsk. (JM), þegar hann var að tala um, að jeg vildi halda því fram, að þingmenn og kjósendur bötnuðu við kosningar. Jeg álít, að þeir batni ef til vill ekki í ethiskum skilningi, heldur að því leyti sem kemur til að rækja störf sín sem borgarar í lýðfrjálsu landi. Kjósendur vakna við kosningar og verða áhugasamari um þjóðmál og betri borgarar að því leyti, ef kjörtímabilin eru ekki mjög löng. Það mundi einnig vekja tilfinningu þingmanna fyrir þeirri ábyrgð, sem þeir standa í við kjósendur. Einnig er minni hætta á spillingu í þinginu, ef kjörtímabil eru stutt, heldur en ef þau eru löng. Ef koma skyldi til þess, að peningavald yrði notað hjer við kosningar sem mútur, áheit o. s. frv., mun miklu auðveldara að beita þeirri fjármálakúgun, ef sjaldan er kosið. Vil jeg í því sambandi benda á nýorðna atburði í Bandaríkjunum, þar sem jafnvel ráðherra er staðinn að því að hafa látið beita sig fjármálakúgun. Slíkt getur komið fyrir í öllum löndum. Fyrir pólitískt siðferði þjóðanna er ekkert meðal heilsusamlegra, en að ráðherrar og þingmenn verði, með stuttu millibili, að koma fram fyrir borgarana og láta þjóðardóminn skera úr um verk sín.

Hlýt jeg því að vera á móti till. hv. 4. landsk. (JM), sem lúta að því að auka skrifstofuvaldið í landinu, en minka áhrif kjósenda og þá möguleika, sem þeir hafa til þess að ráða yfir stjórn landsins.