27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Eggerz:

Hv. 1. þm. Rang. (EP) hjelt því fram, að fjölgun ráðherra hefði verið orsök þeirrar flokkariðlunar, sem hefir átt sjer stað í þinginu nú á síðari árum. En þetta er alls ekki rjett hjá hv. þm. Ástæðurnar til þeirrar flokkariðlunar voru alt aðrar.

Upphaflega var það sjálfstæðismálið og sambandið við Dani yfirleitt, sem skifti flokkum á þingi hjer. En þegar sambandsmálið var til lykta leitt, þá fóru flokkarnir að skiftast eftir öðrum línum.

Þegar dæma á, hvernig þriggja ráðherra fyrirkomulagið hafi heppnast, þá verður að taka tillit til, að sá tími, sem þeir hafa farið með stjórn landsins, hefir verið eitthvert erfiðasta tímabil í sögu þjóðarinnar, og óvíst er, að 1 ráðherra hefði á því tímabili tekist eins vel stjórnin og 3 ráðherrunum. Yfirleitt er meiri trygging fyrir því, að vandasömum málum sje betur ráðið til lykta af 3 mönnum en 1. Og þungamiðjan í ráðherrafjölguninni verður altaf á þessu atriði.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og hv. 5. landsk. (JJ) sögðu um þá landsk., að þeir mundu yfirleitt ekki reynast betur en þeir kjördæmakjörnu, skal jeg taka það fram, að jeg ætlaði mjer alls ekki að fara að dæma neitt um þá landsk. þm., sem nú sitja á þingi, enda hætt við, að dómurinn um samþingmennina gæti orðið all skeikull. En jeg vil hinsvegar halda því fram, að landskjörnu þingmennirnir sjeu yfirleilt mikið óháðari. Kjósendur í einstökum kjördæmum heimta altaf af þingmönnum sínum, að þeir komi fram áhugamálum íbúa kjördæmisins, og ef þeir reynast linir í því að koma slíkum málum í framkvæmd, getur það orðið til þess, að þeir nái ekki kosningu framvegis. Þetta getur aftur orðið til þess, að kjördæmakjörnir þingmenn beiti sjer meira en góðu hófi gegnir fyrir slíkum áhugamálum kjósenda sinna.

Landskjörnir þingmenn eru aftur á móti algerlega óháðir slíkum kröfum kjósenda, og standa því fyrir ofan alla hreppapólitík. Mjer finst það því mjög hyggilegt að hafa nokkra slíka menn í þinginu, og þess vegna vil jeg halda í landskjörið.

En viðvíkjandi ummælum, sem hjer hafa komið fram um þöglan þingmann, vil jeg taka það fram, að jeg þekki ekki neinn þm., sem jeg treysti betur, en einmitt þeim þögla þingmanni.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) bar mjer það á brýn, í sambandi við ummæli sín um, að þetta mál og ýms slík mál væru hreinn peningaþjófur vegna kostnaðar við umræður, sem fyrirfram væri vitað, að kæmu að engu haldi, að jeg hefði borið fram sparnaðarfrv., sem aðeins hefði orðið til þess að eyða fje í umræður, en hefði svo fallið.

En út af þessu vil jeg benda háttv. þm. á, að jeg lagði ekki önnur sparnaðarfrv., af þeim frv., sem fjellu á fyrra þingi, fyrir þetta þing, en þau, sem jeg bjóst við, að kæmust í gegnum þingið. Og þó hefi jeg óbilandi tröllatrú á, að sparnaðarfrumvörpin, sem jeg kom með á síðasta þingi, hafi verið rjettmæt og muni ganga fram á sínum tíma. Aðeins var þingið enn eigi nægilega þroskað til þess að skilja frumvörpin.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að ef stjórnarskránni yrði nú slátrað, þá væri það jeg og minn flokkur, sem ætti sök á því. Jeg skal alls ekki neita því, að jeg er á móti allri þessari nýjungagirni, sem nú er að æra hið háa alþingi, og tel mjer heiður í því að standa yfir moldum þessa stjórnarskrárfrv. En hinsvegar er það nú einkennilegt, ef 2 flokkar, annar 20 manna, en hinn 15 manna, í 42 manna þingi, sem báðir eru með stjórnarskrárbreytingu, gætu ekki komið henni fram gegn mótstöðu aðeins 6 manna. Allfríður má sá 6 manna flokkur vera, sem ber 35 menn ofurliði. En sannleikurinn er sá, að það er alt leikaraskapur hjá stærri flokkunum um stjórnarskrárbreytingu nú. Litli flokkurinn horfir á málið með alvöru, og sigrar því.