02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1925

Pjetur Þórðarson:

Jeg vil byrja á því að vekja athygli á, að ekki er orðið framorðið ennþá, sje miðað við 3. apríl, sem nú er vitanlega byrjaður. Geta hv. þm. því rólegir haldið áfram að tala fyrir brtt. sínum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gaf mjer tilefni til að minnast á sína eigin tillögu á þskj. 261, IT., 4. lið, um heimild fyrir forseta til að láta falla niður prentun umræðuparts Alþingistíðindanna. Þetta tilefni fellur því fremur í ljúfa löð, er jeg tel vel viðeigandi að gera grein fyrir atkvæði mínu, ef tillaga þessi kemur til atkvæða.

Hæstv. ráðherra mintist á, að á þinginu 1922 hefði jeg verið meðflutningsmaður að samskonar tillögu ásamt sjer og fleiri háttv. þdm. Þetta er alveg rjett, og jeg get meira að segja bætt því við, að jeg var einnig meðflutningsmaður að till., sem gekk í þessa átt, á þinginu 1917. Hefi jeg þannig tvisvar sinnum verið meðflytjandi slíkrar tillögu. En í hvorugt skiftið hefi jeg sagt eitt einasta orð um þetta mál í þingræðu. Skal jeg því nú lýsa yfir því, í eitt skifti fyrir öll, að jeg hefi aldrei talið þetta mál eins mikilsvert og fyrstu flutningsmenn þess hafa haldið það vera; enda er það stundum svo, að þegar 1. flm. hyggur málstað sinn hæpinn, þá keppir hann eftir að ná í marga meðflutningsmenn. Jeg hefi því fylgt þessu máli fyrir fortölur hygginna fyrstu flutningsmanna, af því að jeg hefi litið svo á, að dálítið mætti með þessu spara, en mjer hefir aldrei til hugar komið, að sparnaðurinn gæti orðið svipaður því, sem hæstv. fjrh. og fyrstu flm. þessara frv. hafa gert ráð fyrir.

Nú stóð svo á, að eftir þingið 1917 voru kjósendur mínir í Mýrasýslu mjög óánægðir með það, að jeg skyldi hafa verið meðflutningsmaður slíks frv., og ennþá óánægðari voru þeir þó eftir þingið 1922. Annars skal jeg taka það fram, að Mýramenn eru samt mestu sparnaðarmenn og eru sammála mjer um að spara allar ónauðsynlegar vörur, óþörf embætti o. m. fl., þó að sá sparnaður fari ekki beinlínis saman við bráðabirgðahag ríkissjóðs, að því leyti, sem hann missir tolla af þeim vörum, sem sparaðar eru.

Hafa þeir haldið því fram, að þeir ættu fullan rjett á að fá að sjá það, sem þingmenn segðu og legðu til málanna, og að sparnaður á því sviði gæti því ekki komið til greina.

Jeg hefi nú orðið við vilja kjósenda minna og fallist á þessa skoðun þeirra, fyrst og fremst fyrir þá sök, að jeg hefi aldrei talið þetta stórt sparnaðarmál, og í öðru lagi hefi jeg ekki viljað fylgja þessu fram í trássi, mót vilja þeirra, því að jeg get ekki neitað því, að mjer finst, að kjósendur yfirleitt eigi beinlínis heimtingu á að fá að fylgjast með gerðum fulltrúa sinna. Þegar svo við þetta bættist, að allir flokksbræður mínir voru sömu skoðunar og kjósendur mínir, var mjer ljúft að verða þeim að skapi og vera á móti þessum sparnaði.

Það má nú vel vera, að þetta verði kallað að skifta um skoðun, en þá er því þar til að svara, að fyrst og fremst hefir skoðun mín aldrei verið sterk í þessu máli, og í öðru lagi mætti þá benda á, að fordæmi eru fyrir slíku, og nægir þar til að nefna, að einn af foringjum Íhaldsflokksins, einmitt sá sami maður, sem flutti frv. um niðurfellingu á prentun umræðupartsins í byrjun þessa þings í hv. Ed„ hefir ekki aðeins skift um skoðun í kyrþey, heldur snarsnúist og færir nú fram rök gegn öllu því, sem hann hefir áður sagt um málið. Gæti jeg nefnt fleiri dæmi í þessa átt, en læt þetta duga. En minna mætti á, að andstæðingar Framsóknarflokksins, og þar á meðal hæstv. fjrh., hafa ekki altaf látið sjer það fyrir brjósti brenna, þó að þeir hafi haldið einhverju fram, sem hefir komið í bága við þeirra fyrri skoðanir og fyrirætlanir, þegar flokksfylgið gerir kröfu til, vegna andstöðu við mótflokkinn. Jeg verð því að segja hæstv. ráðherra það, að jeg finn ekki til samviskunnar mótmæla, þótt hann vilji nú gera áberandi, að jeg hafi skift um skoðun í þessu atriði.

Jeg get ekki sagt, að það hafi haft nokkur óþægileg áhrif á mig, að íhaldsmenn tóku að sjer stjórn á landinu. Það er síður en svo, að jeg geti ekki vel við það unað. En jeg verð að játa það, að það er ekki laust við að slegið hafi á mig óhug, þegar hæstv. fjrh. gerði með þessari till. sinni augljósa tilraun til þess að skýra lög á alt annan veg en jeg tel rjett vera. Er þetta mikilsvert atriði, ef það yrði að fordæmi þeim, er á eftir koma, og er það út af fyrir sig nægilegt til þess, að jeg verð að vera á móti till. Með öðrum orðum, jeg er á móti því, að tekið sje fje úr landhelgissjóði án lagalegrar heimildar. Jeg verð að lýsa því yfir, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að jeg hefði verið tilleiðanlegur til að fallast á, að fje yrði veitt úr landhelgissjóðnum nú þegar eða sem fyrst til landhelgisvarna, ef bein lagaheimild hefði legið fyrir. Þess vegna hafði jeg hugsað mjer að greiða till. hv. 3. þm. Reykv. á þskj. 292 atkvæði mitt. En við nánari athugun sje jeg það, að hún bætir alls ekki úr skák, sakir þess, hversu óskýrt hún er orðuð. Jeg tel enga tryggingu fyrir því, að frv. hv. 1. þm. Árn. (MT) á þskj. 290 fái að ganga í gegnum þingið, og álít jeg því litlu betra að samþykkja till. hv. 3. þm. Reykv. heldur en till. hæstv. fjrh. Vera má, að þetta megi færa í lag áður en þessu máli líkur á þinginu. En nú held jeg, að rjett sje að ganga hreint til verks og fella till. hæstv. fjrh. Jeg get ekki látið vera, út af ræðu hv. þm. Borgf. (PO.), að minnast á styrkinn til flóabátanna. Fellst jeg á till. hans til hæstv. landsstjórnar í því efni, að því leyti sem honum finst það „lítilfjörlegt af hæstv. stjórn að flýja“ eins og hann komst að orði — í þessu efni til samgmn., í stað þess að snúa sjer t. d. til hv. þm. Borgf. sjálfs. Mjer hafði reyndar dottið í hug, að eins gott hefði verið að snúa sjer til hv. þm. V.-Sk. (JK), því þó að jeg alls ekki vilji, að Faxaflói verði afskiftur, þá finst mjer þó, að taka verði tillit til þess, hversu mikla þörf þeir hafa fyrir styrkinn, sem á Suðurlandsundirlendinu búa og í Vestur-Skaftafellssýslu. Býst jeg við því, ef hv. þingmenn athuga málið vel, að þeir komist að þeirri niðurstöðu, að Vestur-Skaftafellssýsla, Rangárvalla- og Árnessýsla verði þungar á metum í þessu efni.

Jeg ætla þá að enda þessi orð mín með þeirri ósk, að hv. þingdeildarmenn vildu sjá og skilja, hve nauðsynlegt er að hækka styrkinn sem mest, svo að hægt verði á viðunandi hátt að ráða fram úr þessum samgöngumálum, því með styrknum eins og hann er nú skorinn við neglur sjer verður það ekki gert; það er blátt áfram ókleift.