15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Rannsókn kjörbréfa

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki tefja umræðurnar mikið, en vil þó víkja nokkrum orðum að háttv. 1. þm. Árn. (MT). Hann sagði að eftir 48. gr. kosningalaganna væri ólöglegt að láta úrskurð vafaseðlanna bíða þangað til síðast. Jeg hefi líka lesið þessa grein kosningalaganna og sje ekki, að þetta sje ólöglegt. Meira að segja var þetta gert við landskjörið í fyrra. (BK: Það er altaf gert í Hafnarfirði). Og jeg sjálfur hefi altaf haft þessa reglu og tel hana praktiska. Því að það er sjerstaklega nauðsynlegt fyrir yfirkjörstjórnir að geta borið vafaseðlana saman alla í einu. Því að þá er miklu betra að úrskurða þá en hvern út af fyrir sig. Jeg tel því þessa aðferð fyllilega löglega og jafnvel nauðsynlega.

Þá talaði háttv. þm. um 33. gr. kosningalaganna og taldi þar rangt að orði kveðið, er sagt væri, að „brjóta“ ætti seðilinn saman. Það má vel vera, að betra mál sje að segja „leggja“ hann svo saman. En háttv. þm. sleit þetta eiginlega út úr sambandi, því að hefði hann lesið dálítið lengra, gat hann sjeð, að þetta, „að brjóta seðilinn saman“ má vel vera, því að ennfremur stendur: „í sama brot er hann var í, er hann tók við honum.“ En þessa setningu las hann ekki upp, því að þá hefði hann sýnilega slegið vopnið úr höndum sjer.

Um gáfnaprófið, sem háttv. 1. þm. Árn. (MT) var að tala um, get jeg verið samþykkur því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði, að það væri algerlega út í bláinn og hrein heimska að dæma gáfur manna eftir því, hvort þeir eru vanari að fara með ritblý eða reku og pál, ár og öngul.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) var að tala um, að það væri gefið í skyn í kosningakærunni, að það hefðu verið viðhafðar mútur við þessa kosningu, og slíkt væri alþekt frá síðustu kosningum á Ísafirði. En þar til er því að svara, að þá var lagt fyrir stjórnina að rannsaka það mál. Var þá sendur maður vestur til að rannsaka þetta, en það reyndist alt tilhæfulaust, er um þessar mútur hafði verið sagt. Mjer finst því harla fjarstætt, ef nú ætti að ónýta þessa kosningu sökum sama orðrómsins eða tilgátunnar, sem áður hefir reynst staðlaus. Og víst er um það, að ætti að gera þetta, mætti ónýta kosningu okkar allra með því einu að segja sannanalaust, að mútur hefðu verið viðhafðar.

En þá fyrst kastaði alveg tólfunum, þegar háttv. þingmaður var að tala um, að sagt væri, að bæjarfógetinn á Ísafirði hefði eigi geymt kjörgögnin nógu vel. Og hið sama er að segja um söguna, sem hann var að segja af kosningunni, sem hefði verið lagfærð aftur. Væri æskilegt, að þeir menn, sem leyfa sjer að slá slíku fram, vildu gera svo vel og færa einhver rök fyrir því, ella standi þeir ómerkari eftir en áður.