02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra, (JÞ):

Mjer þótti það dálítið leiðinlegt að heyra það á hv. þm. Mýra. (PÞ), að það hefði slegið óhug á hann, þegar jeg skýrði þessi lög á annan hátt en venja er til. Jeg get huggað þennan háttv. þm. og aðra með því, að till. mín viðvíkjandi umræðupartinum hefir verið borin undir lögfræðinga, sem mest er leitað til hjer um vafaatriði í lögum, tvo prófessora við háskólann. Annar hefir lýst yfir því afdráttarlaust, að ekkert væri till. til fyrirstöðu frá formsins hálfu, að hún væri borin fram og til atkvæða. Hinn prófessorinn sagði ekki svo mikið, en í þá átt, að hann hefði talsverða tilhneigingu til að líta svo á, að hjer væri ekkert athugavert. Vona jeg, að dragi nú ofurlítið úr óhug háttv. þm. Mýra. við það, að heyra um skoðun þessara lögfræðinga. Hin till. hefir ekki mjer vitanlega verið borin undir þessa lögfræðinga. En það hefir komið fram í þinginu, að einn af okkar mest metnu lögfræðingum, núverandi hæstv. forsætisráðherra, hefir lýst því yfir, að hann teldi þá till. fullkomlega löglega. Heimildin til að verja fje landhelgissjóðsins til landhelgisvarna er skýr, og þykist jeg ekki þurfa að biðja velvirðingar á því að koma með þessa till., og get jeg með engu móti kannast við, að hún myndi hafa glæfralegar afleiðingar, eins og hv. 1. þm. Ám. (MT) vildi vera láta.

Það má vera, að sje lagður í till. sá rangi skilningur, sem háttv. 1. þm. Árn. og aðrir hafa reynt að leggja í þær, megi fá út úr þeim, að þær muni hafa aðrar afleiðingar en þær í raun og veru geta haft. Það er svo um báðar þessar till., að hvorug þeirra fer fram á að gera í fjárlögum breytingu á gildandi lögum.