31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (2016)

87. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Jakob Möller):

Það hefir gengið svo illa að koma þessu máli áleiðis undanfarið, að jeg vildi gefa mikið til þess, að það gengi greiðar úr þessu. Jeg ætla mjer því ekki að sinni að stofna til langra stælna við þessa umr. Sjerstaklega ætla jeg ekki að gefa tilefni til þess þeim hv. þm. sem lofaði því fyrir nokkru síðan að víkja að frjálsræði einstaklinganna gagnvart rjetti heildarinnar í sambandi við þetta mál. Jeg ætla mjer ekki að tala um málið frá því sjónarmiði, sem venjulegast er, þegar fríverslunarmenn ræða slík mál gegn einkasölumönnum.

Jeg sje ekki ástæðu til þess, þar sem sú einkasala, sem hjer um ræðir, er ekki lögleidd út frá því, að æskilegast væri, að ríkið tæki verslunina yfir höfuð í sínar hendur, heldur eingöngu af því, að ríki þurfti þess fjár með, sem talið var, að hægt væri að græða á þessari vöru. Þegar svo var ástatt, að ríkið þurfti á verslunargróðanum af þessum vörutegundum að halda, þá virtist mönnum, þar sem ekki var um brýna nauðsynjavöru að ræða, ekki vera í það horfandi, þó að verslunin yrði dýrari í höndum ríkisins en einstaklinganna.

En þegar gengið er út frá því, að þessi einkasala er stofnuð eingöngu til þess að græða á henni, þá er fyrst á það að líta, hvernig sú von hefir ræst. Hafi hún brugðist, þá er þessi grundvallarástæða þar með burt fallin.

Eins og kunnugt er, var frv. um einkasölu á tóbaki lagt fyrir þingið 1921, og var þá gert ráð fyrir, að ágóðinn gæti orðið 200 þús. kr., þótt ekki yrði lagt meira á vöruna en 15–50%, en nefndinni þótti þetta of lítið og færði það þessvegna upp í 25–75%, og var sú uppfærsla bygð á þeirri forsendu, að heildsöluverslanir kaupmanna legðu alt að 100% á þessar vörur.

Reynslan hefir orðið sú, að þrátt fyrir þessa heimild, eða rjéttara sagt skipun, að álagið skuli vera 25–75%, í stað 15–50%, er ágóðinn ekki meiri en hann var upprunalega áætlaður með lægri álagningunni.

Í öðru lagi er það, að verslunin hefir ekki sjeð sjer fært að leggja meira en 20–30% á varninginn, og þó hefir vöruverðið hækkað stórum í smásölu, þrátt fyrir það, að smásöluálagningin hefir lækkað stórum.

Þetta er nóg til að sýna það, að það er gersamlega röng forsenda, sem lögin eru bygð á. Menn ætluðu, að gróðinn yrði margfalt meiri en raun hefir á orðið, og auk þess hafa komið í ljós margir gallar á þessu fyrirkomulagi, sem menn að vísu þóttust sjá fyrir, og aldrei var neitað alment, en minna var þó gert úr en rjett var. Það er sjerstakt atriði í sjálfu sjer, að á þessum árum hefir salan minkað mikið, svo að tolltekjur ríkisins af þessum vörum hafa rýmað stórkostlega. Er það ein aðalástæðan á móti því, að ríkið fari þessa leið.

Það er líka fullyrt, enda kunnugt, að minsta kosti grunað, að allmikið hafi borist af tóbaksvörum inn í landið utan við þessa verslun, og missir ríkið ekki eingöngu verslunarhagnaðinn af þeim, heldur líka tollinn. Það er auðvitað, að þó mikil brögð hafi verið að þessu undanfarið, þá færast þau í aukana eftir því, sem lengur líður. Virðist því, sem stefnan sje sú, að ríkið tapi meir og meir af tolltekjunum, og að það tap muni fullkomlega vega upp verslunarhagnaðinn.

Hjer við bætist, að öllum verslunarrekstri — og ekki síst hjer — fylgir áhætta. Þessari verslun fylgir sú áhætta, t. d., að vörurnar eru vandþektar og ilt fyrir aðra en þá að versla með þær, sem hafa reynslu og þekking í þeim efnum. Önnur áhætta er skemdarhættan. Loks er sjerstök áhætta, sem fylgir hvaða verslun sem er, og eykst meðal annars við gengisóvissuna. Það er upplýsl. að þessi verslun er rekin á þann hátt, að aðalveltufjeð er víxlar, sem gefnir eru útlendum birgðasölum og hljóða upp á langan tíma. Liggur í augum uppi, að gengið getur þá valdið því, að upphæðin að lokum er alt önnur en hún var í fyrstu. Er þannig hægt að tapa stórfje á stuttum tíma. Þegar af þessari ástæðu virtist það sjálfsagt, að ríkið losaði sig sem fyrst við þessa verslun. Væri dálítið öðru máli að gegna, ef ekki væri hjer um ónauðsynlega vöru að ræða, heldur brýna nauðsynjavöru, sem ríkinu bæri skylda til að byrgja landsmenn upp með. Mætti benda á steinolíuverslunina í þessu sambandi. Sýnist frekar vegur til að ríkið leggi sig í einhverja áhættu, til að tryggja landsmönnum hagkvæma verslun á slíkum nauðsynjum. En engin ástæða virðist til að leggja sig í áhættu til að tryggja verslun með munaðarvöru, sem menn geta eins vel án verið.

Annað mál er það, hvort það er talið heppilegt að fara inn á ríkisverslunarbrautina undir nokkurum kringumstæðum, hvort sem um nauðsynjavörur eða munaðarvörur er að ræða.

Þá er eitt atriði ekki þýðingarlaust í þessu máli, sem gerir betur og betur vart við sig, eftir því, sem lengra líður. Það er ósamræmi það, sem á sjer stað milli þessarar starfsemi ríkisins og annara, að því er snertir starfsmannahaldið. Embættismenn eru yfirleitt ljelega launaðir, en við verslanir ríkisins starfa menn við mjög góð kjör, og samanburðurinn á launum þessara manna og annara, sem vinna við opinberar stofnanir, sýnir áberandi ósamræmi. Sje jeg ekki, hversu lengi það á að haldast. Það er enginn vafi á því, að eigi þetta ósamræmi að haldast, og eigi að hækka laun annara starfsmanna svo, að samræmi verði hjer á milli, að gróðinn af versluninni gerir ekki betur en hrökkva til. En, sem jeg sagði, þá er það víst, að ósamræmið vekur fullkomlega rjettmæta óánægju meðal annarra starfsmanna ríkisins.

Það þykir nú ef til vill ekki blása svo byrlega fyrir ríkissjóði, að vænlegt sje að leggja niður gróðafyrirtæki hans. En nú er því haldið fram, að hægt sje að ná fullkomlega eins miklum tekjum með tóbakstollinum eins og með þessari tóbaksverslun. Hjer hefir verið vitnað til annara landa, sem hefðu tóbakseinkasölu, eins og t. d. Frakklands. Þar horfir málið þó alt öðru vísi við, því að þar hefir ríkið líka einkarjett til tóbaksiðnaðar, og virðist engin furða, að það versli sjálft með sína framleiðslu. Þó hefir einkasalan þótt gefast þar svo illa, að á síðari árum hafa komið fram sterkar raddir um að leggja hana niður. Jeg hefi nýlega lesið í opinberu riti, að tekjur franska ríkisins af einkasölunni hafi verið síðasta ár 1 miljarður pappírsfranka, en í Englandi námu tolltekjur af tóbaki 1½% miljarð gullfranka Mjer finst þetta nú ekki vera glæsileg útkoma fyrir einkasöluna frönsku. Þar við bætist, að stórkostleg spilling virðist hafa náð tökum á þessu fyrirtæki þar; það er orðið nokkurskonar ríki í ríkinu; leggur ekki fram reikningana, nema þegar því sýnist, og þar fram eftir götunum. Þó að vor einkasala sje vitanlega í miklu smærri stíl, held jeg, að ekki sje laust við, að hið sama hafi orðið uppi á teningnum. A. m. k. hefir verið að því fundið, að reikningar hennar væru leynilegir, þó að vísu eigi að heita svo, að efnahagsskýrsla sje birt, en rekstrarreikningur enginn.

Frv. er, eins og það liggur fyrir hjer, ekki fullkomið. Ef það verður samþ., verður jafnframt að tryggja ríkissjóði, að hann losni við fyrirliggjandi birgðir, er tóbakssalan hættir. En jeg ætlast til að málinu verði vísað til nefndar, til frekari rannsóknar. Geri jeg því að tillögu minni, að málinu verði vísað til fjhn.