31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2019)

87. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (JJ):

Jeg álít frv. þetta óaðgengilegt, eins og það liggur fyrir. Væri nauðsynlegt til þess að jeg gæti aðhylst það, að í sama frv. væri gert ráð fyrir tollhækkun á tóbaki, til þess að bæta ríkissjóði upp það tap, sem hann liði við það, að einkasalan legðist niður. 1921 var gert ráð fyrir því, af okkur, mótstöðumönnum einkasölunnar, að hækka heldur tóbakstollinn en að fara þessa leið. Jeg skal geta þess, að allar tekjurnar af tóbakseinkasölunni hafa verið ríkissjóði vonbrigði síðan sú tilhögun var upp tekin. Var gert ráð fyrir því af ráðherranum 1921, að á næsta ári mundi tóbakstollurinn gefa ca. 700 þús. kr., en þetta brást, því að tekjurnar af tóbakstollinum og einkasölunni námu það ár aðeins 440 þús. kr., en árið 1923 námu þær 630 þús. kr. Voru þær þannig bæði árin mun lægri en tollurinn einsamall áður. Ef þessi lækkun stafar af því, að tóbaksneysla þjóðarinnar hafi minkað, þá er ekki ástæða til að sjá eftir því, en stafi hún af því, að tóbakið hafi verið dregið undan tolli, þá er það afleitt. Annars hefi jeg óbundið atkvæði um þetta mál. Jeg hefi tjáð kjósendum mínum afstöðu mína, sem er sú, að jeg álít, að ríkið megi ekki, nú sem stendur, missa tekjurnar af einkasölunni, en hinsvegar er jeg og hefi frá öndverðu verið tilhögun þessari mótfallinn. Sæi jeg eigi eftir því, þó að reynsla væri fengin í þessu efni eitt ár enn; mætti þá taka ákvörðun um málið á næsta þingi. En ef það á að gerast nú, tel jeg nauðsynlegt, að sett sje í frv. ákvæði um tollhækkun á tóbakinu.