31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

87. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Jakob Möller):

Hæstv. atvrh. (MG) virðist lítið skyn bera á það, hvað fríverslun er. Hann heldur það brot á henni að hafa tolla. Svo er ekki. Þá standa allir jafnt að vígi sem áður við að reka verslunina. Eins er um bannaða vöru. Það bann kemur einnig jafnt niður á alla, sem við verslun fást.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi láta einkasöluna bíða, þangað til ástandið hjer væri orðið eins og í Frakklandi. En hann var þá nýbúinn að fordæma hv. þm. Ak. (BL) fyrir þetta sama. Það var leitt, að hv. þm. skyldi gera sig sekan um sömu slysni. Jeg get annars ekkert gert við því, að hv. þm. V.-Ísf. skilur ekki í því, að ástandið á Fakklandi sje ilt.

En hitt get jeg vel skilið, að hann hafi ekki mikil skilyrði til að geta dæmt um það.

Það er annars ánægjulegt að sjá það hjer, hvernig Íhaldsmenn, Framsóknarmenn og sósíalistar fallast í faðma. Þó að þeir smá-rífist út af því, þá er það væntanlega aðeins af því, að þeir eru ekki búnir að átta sig á samvinnufjelagsskap þessum. En misskilningur er það hjá hv. þm. V.-Ísf., að það sjeu Íhaldsmenn, sem borið hafa uppi fríverslunina í heiminum. Það hefir frjálslyndi flokkurinn jafnan gert. Hv. þm. kvartaði um það, að verið væri að níðast á bæja- og sveitarsjóðunum. En það er einmitt verið að því með þessari einkasölu, því með henni eru teknir af þessum sjóðum þeir tekjustofnar, sem þeir hafa haft þar áður. Annars er það furðulegt, hvernig þessi hv. þm. talaði um „tap“ á þessum ríkisrekstri. Það er lítill vandi að láta ríkisverslun bera sig, þegar hún getur lagt á eftir vild og er auk þess losuð við alla skatta. En það er fjarri því, að þessar 200 þús. sjeu hreinn gróði, ef rjett er á litið. Mikið af því fje er tekið frá Reykjavík og svo bæja- og sveitarsjóðum út um alt land. Því það er auðsætt, að þeir kaupmenn, sem ella versluðu með þessa vöru, geta ekki, meðan einkasalan stendur, borgað jafnt í þessa sjóði eins og ef þeir hefðu þá verslun með höndum.