31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (2029)

87. mál, einkasala á tóbaki

Björn Líndal:

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). ljet sem hann hefði ekki skilið orð mín áðan, eða að minsta kosti talaði hann á þá leið. Jeg neita því ekki, að það sje fjárhagslegt tjón að því, að einkasalan á tóbaki haldi áfram eitt ár enn, en hinsvegar tel jeg þessu til kostandi, til þess að menn geti lært af því. Skil jeg ekkert í því, að hv; þm. V.-Ísf., slíkur frömuður mentamálanna sem hann er — hann, sem vill verja svo miljónum króna skiftir til þess að menta þjóðina — skuli ekki geta fallist á þetta. Jeg býst t. d. við, að hann muni líta svo á, að því fje hafi verið vel varið, sem gerði hann að guðfræðingi, jafnvel þótt lítið af því sje aftur komið í ríkisfjehirsluna. Jeg vil jafnvel halda því fram, að nokkru væri ennþá til kostandi að koma honum á það þroskastig, að hann viti og skilji, að það samir illa guðfræðingi að gera sjer leik að því að snúa út úr orðum manna, því skrifað stendur: Þú skalt færa orð náunga þíns á betra veg.