31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (2033)

87. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þótti leiðinlegt að heyra það í fyrstu ræðu hv. þm. Str., er hann sagði, að jeg mundi standa nærri sjer í þessu máli, og líklega fleirum. Því er nú svo varið um þennan háttv. þm., að hann hefir verið blaðstjóri lengur en þingmaður, og ekki laust við, að það finnist á í ræðum hans hjer. Hann leggur það í vana sinn að meiða menn, suma með oflasti, suma aftur með oflofi. En það er verra. Mjer þykir ilt, ef þessi hv. þm. fer að skipa mjer í þann hóp, sem hann beinir blíðleika sínum að. Annars held jeg, að þessi ummæli hans um það, að jeg hafi lýst mig fylgjandi tóbakseinkasölunni, verði að heimfærast til hins fornkveðna:

Svo mæla börn sem vilja. Þetta er misskilningur hjá hv. þm Str. Skoðun mín í þessu máli hefir í engu breyst. Hitt er annað mál, að þegar illa stendur á fyrir ríkissjóði, þá get jeg ekki gengið inn á það, að hann sje sviftur tekjum, enda þótt þær hafi reynst minni heldur en menn höfðu gert sjer vonir um. Jeg sagði um þetta frv., að til þess að jeg gæti fylgt því, þá þyrfti það að innihalda ákvæði um hækkun á tóbakstolli, sem komið gæti í stað þess tekjumissis, sem það hinsvegar hefir í för með sjer.

Jeg skal nú segja háttv. flm., hvernig mjer hefði þótt viðkunnanlegast að bera þetta mál fram. Það hefði átt að koma fram sem breyting á tollögunum, um hækkun á tóbakstolli, og í lok þess frv. gæti svo staðið, að hjer með væru lögin um einkasölu á tóbaki úr gildi numin. Þá væri alt komið í eitt frv., sem með þarf.

Jeg finn ekki, að hv. flm. eða aðrir geti legið mjer, sem fjrh., á hálsi, þó að jeg geti ekki fylgt þessu frv., sem hjer liggur fyrir, fyr en það er sjeð, hvað komi í staðinn. Jeg vil mæla með því, að frv. verði sett í nefnd. Það er full ástæða til þess, að málið verði rannsakað, hvort sem tími vinst til að ganga frá því á þessu þingi eða ekki. Það, sem einkum þarf að athuga, er þetta, hvers vegna tolltekjur ríkissjóðs af tóbaki hafa lækkað svo gífurlega sem raun er á orðin, síðan einkasalan hófst, og reyna að finna, hvort einhverjar orsakir liggi hjer fyrir aðrar en smyglun. T. d. má athuga, hvort tóbaks- og kaffi-neysla hafa áður fylgst að; og hafi svo brugðið frá því þessi síðustu ár, þá er það vissulega grunsamlegt.