21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla ekki að fara að ræða fræðslulögin, heldur frv., sem hjer liggur fyrir. Út af því, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, mótmæli jeg því alveg, að frv. sje nokkur árás á fræðslukerfið eða kennara. Það felur ekki í sjer neina breytingu á launakjörum kennarastjettarinnar. Hún hefir eftir frv. nákvæmlega sama kaup og nú. Hv. forsrh. sá hættuna í 3. gr. frv. Hann er hræddur um, að þjóðin muni misbrúka það vald, sem henni er þar gefið. En mjer finst ekki nema sanngjarnt og rjett, að fræðslu- og skólahjeruð þurfi ekki að burðast með fleiri kennara en þeim finst nauðsynlegt. Þá hefir verið minst á það, að óviðkunnanlegt væri, að annað vald víki kennurum úr embætti en það, sem hefði skipað þá. Jeg sje ekki neitt á móti því, ef áður verða komin lög um það efni. Ef til vill væri rjettara að koma með brtt. um þetta, ef mönnum finst þá frv. aðgengilegra.

En það, sem fyrst og fremst vakti fyrir mjer, er sparnaður ríkissjóðs við þetta frv. Sá sparnaður er hvorki meiri nje minni en 100 þús. kr. á ári. Og svo er því haldið fram, að þetta sje enginn sparnaður, vegna þess, að þjóðin borgi hvort sem er þá upphæð, sem sparast. En hvað sparast þá með fækkun embætta? Taka þeir menn, sem sviftir eru störfum sínum, ekki laun sín af þjóðinni, eftir sem áður? (BL: Þeir geta lifað af framleiðslu). Já, háttv. þm. Ak. segir, að þeir geti lifað á framleiðslu. Það má vel vera, en þeir munu fæstir leggja það fyrir sig, þar sem þeir hafa lært sjerstakt lífsstarf og hafa vanist því, en auk þess tækju þeir þá framleiðslustarfið frá öðrum, og jeg sje ekki betur en afsettir kennarar geti alveg eins fengist við framleiðslu og afsettir embættismenn.

Háttv. þm. V.-Ísf. var hræddur um það, að þjóðin mundi samkvæmt heimildinni í 3. gr. losa sig við alla kennara.

En eins og allir sjá, sem athuga frv., nær þetta ekki nokkurri átt. Í 3. gr. stendur, að segja megi upp þeim kennurum, sem ekki sje talin nauðsyn á til þess að halda uppi lögskipaðri fræðslu. Jeg sje ekki, að fræðslu- eða skólahjeruð sjeu neitt bættari fyrir það, þó að haldnir sjeu óþarfir menn. Og geti menn haldið uppi lögskipaðri fræðslu án kennara, þá eru þeir ekki eins þarfir ok þeir sjálfir halda.

Því hefir verið hampað, að engin sanngirni sje í því að velta byrðum ríkisins yfir á aðra. En má jeg þá spyrja: Er það þá nokkur sanngirni, að ríkissjóður einn greiði dýrtíðaruppbót þeirra starfsmanna, sem sveitirnar eiga að lögum að launa að sínum hluta? Og eins og liggur í augum uppi, er dýrtíðaruppbótin ekkert annað en uppbót á laununum. Þá uppbót finst mjer eðlilegast, að sveitir og ríkissjóður greiði eftir sömu hlutföllum og launin sjálf. Þegar þetta ákvæði um greiðslu ríkissjóðs á dýrtíðaruppbót var gert að lögum, sá þingið, að þær upphæðir, sem þar var um að ræða, mundu vaxa sveitunum mjög í augum. Þetta var 1919, en þá var uppbótin mikið hærri en nú. Þegar hún hefir nú minkað mikið og sveitunum er gefið færi á að losna við alla óþarfa kenslukrafta, sje jeg ekki annað en full sanngirni mæli með því, að þær að sínum hluta, taki þátt í greiðslunni.

Því er slegið fram, að ríkisvaldið hafi lagt á gjaldið. Jú, það er rjett, þ. e.: þingið hefir ákveðið laun kennara. En aftur á móti hafa fræðslu- og skólanefndir því nær ótakmarkað vald í framkvæmdinni. Af þeim er þess eins krafist, að fræðsluskilyrðin sjeu uppfylt.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á það, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði um setu barna í skólunum. Jeg er alveg á sama máli og hann um það, að hún getur orðið þeim skaðleg. Jeg þekki dæmi til þess hjer í Reykjavík, að börn, 10–11 ára gömul, sitji í skóla frá kl. 8 að morgni til kl. 6 að kvöldi. Verð jeg að telja, að það sje altof langt fyrir börn, sem ekki hafa þá því betra viðurværi. Börnin þreytast, fara að sitja skökk á bekkjunum, þegar á liður daginn, og geta fengið hryggskekkju, sem margt ilt leiðir af. Og eigi jeg að segja, hvort jeg kjósi heldur, að börnin verði aumingjar að heilsu og fái eitthvert þekkingarhrafl — eða þau fari á mis við þekkingarhraflið og verði líkamlega hraust, þá held jeg, að jeg segi óhikað, að jeg kjósi það síðara fyrir hönd þjóðarinnar.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var eitthvað að tala um mann, sem ræki nagla upp í fótinn og sprautaði vatni inn í eyrað, en jeg gat ekki fundið í því neina meiningu eða sjeð, að það kæmi neitt við þessu máli.

Fjvn. vill spara ríkissjóði 100 þús. kr. á ári með þessu frv. Annað ekki.

Því er haldið fram, að sveitar- og bæjarfjelög hafi ekki efni á að halda uppi fræðslu, með þeim launakjörum, sem kennarar eiga við að búa, ef dýrtíðaruppbótinni sje einnig að nokkru leyti varpað á þau. Þetta má vel vera. En þá vil jeg spyrja: Hefir þá ríkissjóður betur efni á því?

Jeg hefi haldið mjer fast við efni frv., og fer að lokum fram á það við þá hv. þm., sem eiga eftir að tala, að þeir fari ekki út fyrir málið í ræðum sínum.