21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2047)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Árni Jónsson:

Ef jeg á ekki að fara út fyrir efni frv., er mjer illfært að svara sumum þeim, sem jeg annars er ekki sammála. Sjerstaklega á jeg þar við hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem hjelt langa ræðu og kom víða við.

Því hefir verið haldið fram hjer í deildinni, að það sje rangt hjá mjer, að kennarar sjeu manna best launaðir. Jeg verð samt að halda fast við það, að laun kennara eru mjög góð, þegar tekið er tillit til ástæðna. Þeir hafa sumurin frí og nota þau flestir til vinnu, og minsta kosti kennarar í kaupstöðum hafa hærri föst laun en svo, að nokkur ástæða sje til að kvarta fyrir þeirra hönd. Annars má segja það, að launin eru misjafnlega lífvænleg, eftir því, hvar á landinu kennarinn er. Hjer í Reykjavík verður t. d. lífið dýrara en annarsstaðar á landinu. Býst jeg líka við, að sá ágreiningur, sem er um þetta milli okkar hv. þm. V.-Ísf., sje að nokkru leyti sprottinn af því, að við miðum hvor við það, sem við þekkjum best.

Bæði hv. þm. V.-Ísf. og hv. 2. þm. Eyf. (BSt) mintust á það, að heimilin mundu alls ekki vera eins fær um að veita fræðslu og áður hafi verið. En jeg vil þá halda því fram, að þau sjeu að minsta kosti ekki eins ófær um að uppfylla fræðsluskilyrðin og af er látið. Það mun vera rjett, að í stærri kaupstöðunum sje ekki tiltækilegt að láta heimilin hafa fræðsluna á hendi. Í smákauptúnunum er aftur á móti alt öðru máli að gegna. Þar eru menn atvinnulausir mestan hluta vetrarins og hafa þá ekki annað þarfara að gera en kenna börnum. Um heimilin í sveitunum má segja það, að þau hafa breyst ærið mikið á síðustu árum. En jeg lít svo á, að þau muni alls ekki ófær til að annast fræðslu barnanna. Á fundi, sem haldinn var eystra í vetur, hjelt gamall og merkur prestur því fram, að heimilin gætu kent börnunum. Stóð þá upp einn af bændunum og kvað sjer t. d. ekki fært að kenna sínum börnum, svo í lagi væri, en hann átti þau mörg og hafði fátt fólk. En prestur sagði, að frá fám heimilum hefðu börn komið betur að sjer en einmitt frá hans. Kom þarna greinilega fram, að jafnvel þeir, sem erfiðast eiga, geta kent börnum sínum að góðu gagni, ef vilja og áhuga vantar ekki.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) skírskotaði til orða hv. forsætisráðherra um það, að fræðslu- eða skólanefndir gætu hæglega losnað við þá kennara, sem þær teldu óþarfa. Þyrftu þær ekki annað en gera veitingarvaldinu aðvart. Jeg þekki það efni nokkuð. Skólanefndin í sveit, sem jeg þekki vel til, hefir gert ítrekaðar tilraunir til þess að losna við kennara, en árangurslaust. Fjölmennur hreppsfundur hefir meira að segja komið fram með áskorun um það, en enga áheyrn fengið.

Hv. sami þm. taldi, að það kæmi í sama stað niður, hvort sveitarsjóðir eða ríkissjóður greiddu dýrtíðaruppbótina. Jeg er ekki á sama máli um það, — því að þess ber að gæta, að þá er sveitunum er gefinn kostur á að losna við kennara, hafa þær ríkt eftirlit með því, að þeir verði ekki fleiri en brýn þörf er á. En sje svo, að hvorki sveitirnar nje landið hafi efni á að halda uppi skólunum, þá er ekki annað fyrir hendi en fresta framkvæmd fræðslulaganna.