28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Þorleifur Jónsson:

Eins og hv. dm. mun kunnugt, þá bar meirihl. fjvn. frv. þetta fram sem sparnaðarmál. En þó frv. þetta hafi upphaflega komið frá nefnd, þá hefir það síðan farið til hv. mentmn., sem hefir klofnað um málið. Hefir hv. meiri- og minnihl. hennar þegar skýrt frá ástæðum sínum.

Jeg skal ekki vera fjölorður um þetta mál að svo stöddu, en vil lítillega minnast á brtt. á þskj. 232, frá fjvn., við brtt. á þskj. 220. Var það m. a. það, sem við fundum athugavert við málið, að óviðfeldið væri, að skólanefndir og fræðslunefndir hefðu heimild til að segja upp barnakennurum með 6 mán. fyrirvara, eins og ráð er fyrir gert í 3. gr. frv. Höfum við því borið fram þessa brtt., sem við álítum, að betur fari á.

Hv. frsm. meirihl. mentmn. (SigurjJ) gat þess, að nefndinni hefði ekki unnist tími til að bera sig saman um þessa brtt. En eftir því sem hv. frsm. minnhl. (BSt) talaði, þá býst jeg við, að hann geti fallist á hana, og get jeg yfirleitt verið minnihl. þakklátur fyrir meðferð hans á málinu.

Það er auðvitað, svo sem altaf má búast við, að ýmsar mótbárur hafa verið bornar fram gegn frv. Sjerstaklega hefir verið um það rætt, að sparnaðurinn með frv. væri í engu öðru fólginn en því að taka úr einum vasanum og láta í hinn. Satt er það að vísu, að altaf verður einhver að greiða þennan kostnað, en trúlegt þykir mjer það, að einhver meiri aðgæsla og sparsemi myndi sumstaðar vera viðhöfð, ef hjeruðin vissu, að þau ættu að bera sinn hluta af þessum byrðum.

Við teljum rjett, að þess sparnaðar sje hjer gætt, sem föng eru á. Þar með erum við ekki að mæla með óhæfilegum sparnaði við kensluna, en það getur ekki talist óhæfilegt, þó sparaðir sjeu kenslukraftar þar, sem kennarar eru fullmargir, eins og átt hefir sjer stað sumstaðar. Hinum stærri bæjum, t. d. Reykjavík er heldur ekki ofætlun að taka allmiklu meiri þátt í gjöldum til barnakenslunnar en nú er. Heimilunum ber skylda til þess að sjá um líkamlegt og að nokkru leyti andlegt uppeldi barnanna, en þau fá aðstoð hjá hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfjelagi, sem taka töluverðan þátt í kostnaðinum. Þótt sagt sje, að það sje hagkvæmara, að ríkið annist þetta sjálft, þá er nú á það að líta, að á þessum óvenjulegu krepputímum verður að spara útgjöld ríkisins á öllum sviðum. Hið þrönga ástand gerir það að verkum, að það verður að forða ríkisjóði við stórum byrðum. Með nýjum lögum, berklavarnarlögunum, hefir ríkissjóði verið íþyngt svo mjög, að hann fær naumast risið undir, og hafa því komið fram raddir um það, að ljetta af honum þessum bagga að einhverju leyti, En yfir á hverja? Á sýslu- og sveitarsjóði; annað er ekki hægt.

Háttv. meirihl. hefir einkanlega að athuga við 1. gr. frv., og telur óviðurkvæmilegt, að launauppbót eftir þjónustualdri greiðist ekki af ríkinu. Þetta er nú svo lítið atriði, að málið ætti ekki að stranda á því. Jeg vænti þess líka, að þessi brtt. frá fjvn. verði þess valdandi, að menn sjái sjer fært að samþ. frv. Jeg er ekki vel settur sem framsögumaður í þessu máli, því jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að rannsaka það. Hæstv. atvrh. (MG) hafði undirbúið það í fjvn. En er hann skifti um stöðu, var jeg fenginn til þess að mæla með frv. af hálfu fjvn. En jeg vænti, að hæstv. atvrh. (MG) láti nú líka til sín heyra um málið.