28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (2065)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hafði verið að vona, að háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) mundi geðjast að till. á þskj. 232, þar sem hún felur í sjer þá breytingu, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið á að segja upp þeim kennurum, sem óþarfir þykja, en ekki skóla- eða fræðslunefndir. En að því var einmitt fundið áður, að sama valdið og veitti embættin segði ekki kennurunum upp, samkv. frv. fjvn. En hv. 4. þm. Reykv. finst víst frv. jafnómögulegt og áður. Jeg hefi áður bent rækilega á það, að í frv. er gert ráð fyrir því, að einungis megi segja upp þeim kennurum, sem ekki sje þörf á til þess að halda uppi lögskipaðri fræðslu. Og hvers vegna á að þröngva hjeruðunum til þess að hafa fleiri kennara? Það skil jeg ekki.

Vegalögin koma ekki þessu máli hið minsta við. En mjer finst vera fullmikill metnaður mentmn., þegar hún vill seilast í öll þau frv., sem að einhverju leyti snerta mentun í landinu, þó að þau fjalli um það, sem í eðli sínu er aðeins fjármál. Því heimtar hún þá ekki að fá að fjalla um 15. gr. fjárlaganna, þar sem um er að ræða bókmentir og listir? Hún á jafnan rjett til þess og að hafa til meðferðar þetta frv.

Jeg skal játa það, að nefndin hefir ekki haldið málinu lengi hjá sér, en það er víst það eina, sem fjvn. getur þakkað henni fyrir.