28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Halldór Stefánsson:

Af umræðunum um þetta mál er það bert, að skoðanir um einstök atriði þess eru nærri því eins margar og mennirnir eru margir. Af þeirri einu ástæðu virðist mjer ekki rjett að samþ. frv. Stuðningsmenn þess hafa fært fram þrjár ástæður, sem þeir hafa talið því til gildis. 1) að það hefði sparnað í för með sjer, 2) nauðsyn ríkissjóðs, að ljett sje gjöldum af honum, 3) að þetta sje í samræmi við rjetta hugsun. — Því hefir margsinnis verið mótmælt, að nokkur sparnaður væri í því fólginn að færa útgjöldin af einum á annan. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að þetta væri sambærilegt við það, að hætt væri að leggja fje úr ríkissjóði til sýsluvega, en svo er alls ekki; mismunurinn er sá, að engin skylda ber til þess að vinna að vegalagningum í sýslunum. Í fræðslulögunum þar á móti liggur skyldukvöð á mönnum til þess að framkvæma þau. Þess þyrfti þá, að losa menn við skyldukvaðirnar, til þess að þetta gæti verið sambærilegt. (MG: Er ekki skylda að viðhalda sýsluvegunum?) Jú, en ekki að umbæta þá. Háttv. þm. A.-Sk. hjelt einnig fram sparnaðinum. En nú er það svo, að laun kennaranna og form og framkvæmd fræðslulaganna er fastákveðið af þinginu. Það yrði því að slá í sundur þennan ramma, eins og jeg hefi sagt áður, til þess að sparnaður gæti orðið að þessu. Háttv. þm. A.-Sk. hjet á menn til fylgis við frv., vegna nauðsynjar ríkissjóðs. Jeg skal ekki draga í efa, að nauðsynin er mikil. En hver hefir bundið ríkissjóði þennan bagga? Það voru ekki sveitirnar og ekki heldur bæjarfjelögin. Það var ríkisvaldið sjálft, þ. e. Alþingi. En nú vill það varpa af sjer þessari byrði og koma henni á herðar öðrum, án þess þó að gefa nokkur skilyrði til þess að geta risið undir henni. Ef þetta kæmist á, þá ætti ríkisvaldið að selja sveitarstjórnunum í hendur einhverja af þeim skattstofnum, sem það hefir, til þess að byggja á tekjur á móti til þess að standast þessi auknu útgjöld. En þegar ríkið heldur nálega öllum skattstofnunum fyrir sjálft sig, verður það einnig að bera útgjöldin. Þriðja ástæðan, að það sje rjett hugsun, að þeir borgi dýrtíðaruppbótina, sem launin greiða, og eftir sömu hlutföllum, er mjög athugaverð, eins og á stendur. Því mætti alveg eins snúa við, þannig, að það væri rjett hugsun, að ríkið gyldi öll laun. Ríkisvaldið hefir ákveðið þetta, án þess að ætla sveitarstjórnunum nokkurn skattstofn, og þess vegna ætti ríkið að bera allan kostnaðinn. — Þá hefir verið sagt um sum ákvæði frv., að það liti út eins og verið væri að koma aftan að fræðslulögunum. Jeg segi það ekki sem mína skoðun, þótt líkur megi nokkrar færa til þessa. En hjer er þó komið aftan að í öðrum skilningi, það er komið aftan að öllum almenningi, og á hann á að varpa útgjöldum, sem ríkisvaldið hefir ákveðið og því ber sjálfu skylda til að greiða, þar sem það eitt hefir vald yfir öllum skattstofnum.