28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (2075)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. meirihl. (Sigurjón Jónsson):

Hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði, að því meira sparaðist sem kaupstaðirnir væru látnir greiða meira. En hæpin ályktun verður þetta að teljast. Þess er að gæta, að bæirnir bera nú þegar svo mikil og margvísleg gjöld, að gæta verður allrar varkárni í því að bæta á þá nýjum útgjöldum. Og þó mikið af kostnaðinum við berklavarnirnar verði, eins og hv. þm. (ÞórJ) gat um, flutt yfir á sveitar- og bæjarfjelög, þá er af þeim sökum engin meiri ástæða til að leggja þennan bagga á þau líka. Jeg veit heldur ekki, hversu mikill sparnaður yrði að þessum lögum í styttri kenslutíma og minkuðu kaupi kennaranna, enda geri jeg ekki ráð fyrir, að sá hafi verið tilgangurinn með frv. Meiningin hefir, að því er sjeð verður, aðeins verið sú að flytja hlutfallslega meira af kostnaðinum yfir á bæina. Það er m. ö. o. hinn gamli reipdráttur milli sveita og kaupstaða, sem hjer er að stinga upp höfðinu. En sje þetta rjett ágiskað hjá mjer, þá þurfa menn engu að síður að athuga og bera saman, hvað ríkissjóður fær af tekjum sínum úr bæjunum og hvað úr sveitunum.

Annars er það einkennilegt, að stuðningsmenn þessa frv. eru ekki á eitt sáttir um þau rök, sem fyrir því liggi. Jeg fyrir mitt leyti er í engum vafa um það, að ákvæði 3. gr. muni mjög draga úr því, að fræðslulögunum verði fram fylgt. Kom þetta einmitt til orða í mentmn. Afleiðingar laganna 1922 urðu þær, að á einum vetri bættust við 23 fræðsluhjeruð, sem notuðu sjer undanþáguna frá því að hafa kennara, og ljetu sjer nægja að hafa óvalda menn til eftirlits.

Jeg vil taka undir með þeim mönnum, sem heldur vilja róta niður fræðslukerfinu heldur en að grafa undan því ræturnar. Það væri miklu hyggilegra að fresta fræðslulögunum eða nema þau úr gildi.

Samkv. 2 gr. 1. 1922 geta sveitir en ekki kaupstaðir fengið undanþágu frá að hafa kennara. Þetta þykir sumum að þurfi að samræma með ákvæði um, að kaupstaðirnir geti losað sig við kennarana með sömu skilyrðum og sveitahjeruðin.

Að öllu athuguðu verðum við að skoða mál þetta á þeim grundvelli, hvort rjett sje að velta slíkum skyldum sem þessum yfir á kaupstaðina og sveitarfjelögin. Og þar sem ríkissjóður innheimtir nú ýmsar tekjur sínar með gullgengi og fær þannig sína dýrtíðaruppbót, þá sýnist ríkissjóður einnig eiga að bera uppi dýrtíðaruppbótina á gjöldum samkv. fræðslulögunum.