28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2077)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Hæstv. atvrh. (MG) hafði það eftir mjer, að jeg teldi engan sparnað verða af frv. þessu, en í öðru lagi, að það myndi valda því, að ýmsum kennurum yrði sagt upp. Þetta er misskilningur. Mín meining var sú, að enginn sparnaður yrði, nema kennurunum væri sagt upp víða, þar sem þörf er á þeim.

Bæði hjá honum og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) virtist þessi tilgangur frv. skína í gegn. Þeir virtust halda, að til væru margir kennarar, sem óþarfir væru. Jeg ætla, að kennaratalan sje í hverju hjeraði miðuð við fjölda barnanna, og jeg held, að sú tilfinning sje svo rík til sveita að hafa enga óþarfa kennara, að hún ein dugi og þurfi ekki ný lagaákvæði til að koma í veg fyrir slíkt.

Mjer var einnig borið á brýn, að jeg teldi fleiri börn ólæs nú en áður en fræðslulögin komu. Það hefi jeg aldrei sagt, aðeins hitt, að fleiri börn væru ólæs nú heldur en fyrir nokkrum árum. Síðan 1914 hefir ástandið, hvað fræðslumálin snertir, farið versnandi. Frá því fræðslulögin komu og fram að stríði var óvenjumikil breyting. Mátti heita svo 1914, að þau væru alveg komin í gildi, og hygg jeg, að hvergi hafi fljótar eða betur tekist að koma slíkum lögum á. Sýnir það, að þau eru sniðin eftir okkar þörfum og menningu.

En er erfiðleikar stríðsáranna komu, var farið að draga úr framkvæmdum og eins síðar, þegar örðugt fór að verða fyrir ríkissjóði. þessar vandræðatilraunir hv. Alþingis eiga sök á því, að nú eru til ólæs börn á fermingaraldri. 1922 var lögleidd sú undanþága, að hrepparnir þyrftu ekki að halda uppi venjulegri fræðslu. 25 hreppar hafa þegar notað sjer þá undanþágu. Þetta þótti þá stórsigur, þó aðeins nokkur þús. kr. hafi sparast, en aftur á móti hafa mörg börn verið svipt bráðnauðsynlegri fræðslu. Nóg er það, að þessari barnalegu rjettlætiskröfu sveitanna væri hlýtt, þó nú væri ekki farið að leiða þá bölvun yfir kaupstaðina.

Því hefir verið haldið fram, að frv. sje til þess, að sveitirnar nái rjetti sínum. En það er ekki gert með því, að kaupstaðirnir verða að búa við jafnharða kosti. Ef slíkt ætti að gerast, hefði frv. orðið að fara fram á, að aukinn væri fræðslustyrkur við sveitirnar. Enginn rógur milli sveita og kaupstaða á að heyrast nefndur í slíkum málum. Börnin eru börn og eiga jafnan rjett til fræðslu, hvort sem þau eiga heima í sveit eða í kaupstað.

Jeg sagði, að það væru þau börn ein, sem ekki hafa notið fræðslu samkv. fræðslulögum, sem nú eru ólæs, þau börnin, sem goldið hafa fleyganna, sem settir hafa verið í fræðslulögin, og óska jeg ekki, að þau verði fleyguð enn meir, svo þau verði að lokum ónýt eins og bannlögin; svo má fleyga fræðslulögin, ef haldið er áfram, að þau verði ónýt og allir missi trú á þeim. Annaðhvort er að halda lögunum eins og þau eru og reyna að bæta þau, eða þá að svifta þeim alveg af og hverfa til einhvers annars fyrirkomulags, sem þá væri upp tekið.