31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2079)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minnihl. (Bernharð Stefánsson):

Jeg gat þess við 2. umr., að ef brtt. hv. fjvn. yrðu samþyktar, myndi jeg koma fram með brtt. við 3. gr. frv. við þessa umr. Hún er, eins og hv. deild hefir sjeð, í tveim liðum. Fyrri liðurinn er í því fólginn, að í stað 4 mánaða uppsagnarfrests komi 6 mánaða frestur. Legg jeg þó ekki mikla áherslu á þetta atriði. Hinn liðurinn er á þá leið, að í stað þess að dóms- og kirkjumálaráðuneytið segi kennurum upp, ef fræðslunefndir telji þá óþarfa, komi, að þær sanni það. Það hefir verið talað um, að þetta frv. væri komið fram til að skaða og skerða barnafræðsluna í landinu. Jeg hefi nú ekki haldið því fram, og víst er það, að hver sá, er ekki ætlast til að frv. hafi þann tilgang, getur greitt þessum brtt. atkvæði. Ef til vill má deila um það, hvernig fara eigi að því að sanna, hvort kennarar sjeu nauðsynlegir eða ekki, en þar finst mjer, að hlutaðeigandi ráðuneyti verði að skera úr. Þar sem svo er til orða tekið, að stjórnin eigi að segja upp óþörfum kennurum, finst mjer, að hún hljóti að verða við öllum rjettmætum óskum í því efni. Jeg tek það fram, að jeg vil einkum leggja áherslu á síðari lið brtt. minnar.