02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get verið stuttorður, enda mætti sleppa að minnast á margt, sem hjer hefir verið rætt. Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir fært fram ástæður fyrir því, hvers vegna hann vill færa niður tillagið til sóttvarna. Aðalástæða hans er sú, að eftir spönsku veikina hafi reikningar þessir verið svo ósvífnir, að ekki sje við það hlítandi. Jeg veit ekki til, að hæft sje í þessu, en jeg geri ráð fyrir, að heilbrigðisstjórnin vilji ráða, hvenær og hvernig smitandi sjúkdómar verði heftir. Það hefir verið látið í ljós af ýmsum, að óþarft væri að hefta ýmsa sjúkdóma, t. d. mislinga; en hver á að ráða um þetta! Ekki heilbrigðisstjórnin! Jeg held, að það verði að hlíta gerðum hennar í þessu. Jeg tel það áreiðanlegt, að ekki verði komist af með minni upphæð en þetta, þar sem mest af þessu eru föst gjöld fyrir sótthreinsanir úti um land. Hv. þm. V.-Ísf. talaði og um málverkakaup og fjárkláðann. Hann sagði, að listin væri ekki tveggja aura virði, því hún yrði aldrei metin til peninga. Um þetta get jeg ekki verið honum sammála, því að það er ávalt metið til verðs, sem menn annars kalla list; enda þótt jeg geti ekki ávalt sjeð listagildi þess, sem menn meta of fjár, vegna þess að það sje listaverk. Háttv. þm. flytur till. um að verja 2000 kr. til að kaupa fyrir listaverk. Þar metur hann sjálfur listina til verðs, því jeg geri ekki ráð fyrir, að hann vilji kaupa það, sem enginn viðurkennir list í.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði fyrir verksmiðjuna sína, en hann misskildi mig þar allverulega. Jeg sagði aðeins, að þetta mál hans væri ótímabært ennþá; jeg fullyrti annars ekkert um framtíðarskilyrði þessa fyrirtækis. Það er enn órannsakað, hvar þessi verksmjðja á að vera. Jeg hefi ekki haldið því fram, að það þurfi að vera nágrenni Reykjavíkur. En jeg hjelt því fram, að það væri enn ógert að safna þessum 200 þús. kr., enda þótt ábyrgð ríkisins fengist. Jeg álít því, að þetta eigi alllangt í land ennþá, og það geti því ekki komið til mála að veita ábyrgð ríkissjóðs í þessu skyni.

Jeg hefi áður svarað hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) að mestu um sóttvarnirnar, en á aðeins eftir að minnast á tillögu hans um sjúkrahús. Það vantar hjá honum upplýsingar um það, hver reki þetta sjúkrahús hans; hann vill skjóta því undir bæjar- og sýslufjelagið. Þetta skiftir að vísu ekki miklu um málið, en það er rjett að taka það fram, að ríkið á ekki að kosta reksturinn, þótt þetta tillag sje veitt.

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) talaði um þá margumræddu reikninga, sem hann vefengdi, en færði þó engar sönnur á það, er hann sagði. Þótt hann bæri fyrir sig fyrverandi 1. þm. Árn. (Eirík Einarsson) býst jeg ekki við, að hv. deild meti meir en vert er alt skraf hans um smjörlíkisgerðina. Hann sagði, að þinginu væri skylt að veita þetta, vegna þess að upphaflega hefði lánið verið veitt vegna þrábeiðni fyrverandi 1. þm. kjördæmisins, og það telur hann hafa verið sama sem skipun þingsins um að byrja á þessu fyrirtæki. Háttv. þm. talaði með viðkvæmni um júbil-ljósmóðurina og brá einhverjum nefndarmanna um það, að þeim hefði snúist hugur um þennan styrk, en jeg get ekki skilið, hverjir það muni vera, sem snúist hafi, en ef ekki verður unt að hafa áhrif á hugi þeirra með jafnviðkvæmri ræðu og þessari, tel jeg ólíklegt, að þeim snúist hugur síðar. En jeg teldi þetta vera spillandi fordæmi, ef þessari konu verður veitt þetta; allar ljósmæður mundu reyna að keppast við að halda störfum sínum í 50 ár, til þess eins að fá eftirlaun fyrir þau eftir á.

Þá eru þessar 60 þús. kr. til Eimskipafjelags Íslands. Þingið í fyrra samþykti þetta þá og nú hefir fjvn. því ekki annað gert í þessu en aðeins að leggja til, að sama verði nú gert, enda er það hliðstætt við það, sem þingið hefir áður gert. Það heyrðist hjer í þingsalnum frá háttv. 1. þm. Árn., að það væri ekkert við það að athuga, þó að fjelagið færi á höfuðið; þar veit jeg ekki, hvort viðkomandi þm. hefir talað af sannfæringu og af ást á landi sínu og þjóð. Jeg veit ekki, hvernig hann metur það, ef fjelagið verður undir í samkepninni við erlend skipafjelög, ef hann vill ekki nú hjálpa því í örðugleikum, sem það á í aðeins um stundarsakir. Jeg hygg, að þessi háttv. þm. hafi talað þetta alveg óhugsað, og taki því aftur þessi orð sín.

Um till. háttv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um styrkinn til Þorsteins Gíslasonar, er það að segja, þótt ófagurt sje frásagnar, að fjvn. var þessu mótfallin, að undanteknum einum manni, og það var háttv. flm., þm. Str. Fjvn. leit aðallega á þetta þannig, að hv. þm. Str. bæri þetta fram vegna þess, að Þorsteinn Gíslason væri hættur ritstjórn Morgunblaðsins, og vildi hann því verðlauna hann fyrir; en á það gat fjvn. auðvitað alls ekki fallist. Háttv. þm. Str. hefir sjaldnast getið hr. Þorsteins Gíslasonar sem rithöfundar í öðru sambandi en sem ritstjóra. Fjvn. viðurkennir fullkomlega, að hr. Þorsteinn Gíslason er hið prýðilegasta skáld, sem stendur jafnfætis ýmsum öðrum þjóðskáldum okkar, en nefndin telur óviðurkvæmilegt, þegar allir slíkir styrkir eru bútaðir niður og af öllum fjárveitingum er klipið, að veita þennan styrk nú, enda þótt hún mundi, ef til vill, hafa fallist á þennan styrk, ef betur stæði á hag ríkissjóðs. Auk þess er hr. Þ. G. mjög vel starfshæfur ennþá og í góðum kringumstæðum, og er því frá því sjónanniði því síður styrks þurfi. Það hefir verið mælt, að ókveðin ljóð væru fegurst, og þess vegna veit enginn, hvernig framtíðarinnar Lögrjetta ljóðar á þessa samferðamenn sína, og mætti það þá skifta nokkru máli að gera vel við ritstjórann, en nefndin telur hann yfir alt slíkt hafinn og hikar ekki við að halda óbreyttri stefnu sinni, hversu góður tilgangur sem þetta er hjá háttv. þm. Str., enda munu skoðanir ýmsra á nefndinni þykja því betur rætast, sem þetta bætist við, því venjulegast mun hún kölluð fjársynjunarnefnd, auðvitað hjá þeim, sem minst skyn bera á þessi mál. Og við það vill hún una.