31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (2082)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að jeg hefði viðurkent, að dýrtíðaruppbótin væri of þung byrði fyrir sveitarsjóðina. Jeg sagði, að svo hefði verið í upphafi; en nú, þegar hún er orðin meira en helmingi lægri en hún var þá, horfir málið öðruvísi við. Hann talaði um, að verið væri að draga valdið úr höndum forsætisráðherra með þessu. Jeg sje ekki, að hægt sje að ætlast til, að hann sje alstaðar kunnugur, og síst er hjer nokkur hætta á ferðum í þessu efni, ef till. á þskj. 257 verður samþ. Hvað viðvíkur lengingu uppsagnarfrestsins, þá álít jeg, að slíkt sje óþarft með öllu. Fjögra mánaða frestur er meira að segja einum mánuði lengri en gerist. Vantraust það á forsrh., er hv. þm. V.-Ísf. var að tala um, er vitanlega aðeins talað út í loftið. Jeg bjóst satt að segja við, að málið væri útrætt. Þetta er aðeins fjárhags- eða launamál, þótt sífelt sje blandað inn í það óskyldu máli, barnakenslunni yfirleitt. Jeg sje ekki annað en að barnakennurum megi standa á sama, hvaðan þeir fá laun sín. Eða hví er mönnum svo umhugað um að hafa fleiri kennara en þörf er á til framkvæmdar fræðslulaganna?