12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2092)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, hefir tvær hliðar, aðra fjárhagslega, en hin snýr að alþýðumenningu vorri.

Ef árið 1924 er lagt til grundvallar, mun áætlað, að hægt sje að spara landssjóði útgjöld, er nema 80 þús. kr. En þessi útgjöld, sem sparast, eru aðeins færð yfir á bæjar- og sveitarfjelögin. Á Reykjavík mundi koma 25 þús. kr., á aðra kaupstaði um 22 þús. kr. og á sveitarfjelögin um 34 þús. kr. Er mikil spurning, hvort bæjarfjelögin eru fær um að taka á sig þessar gjaldabyrðar af ríkissjóðnum. Hefir bæjarfjelögunum ekki verið sjeð fyrir neinum nýjum tekjustofnum, en skattar á landsmenn þó verið þyngdir að mun á þessu þingi. Lít jeg svo á, að það sje ekki verjandi, fjárhagslega sjeð, að fara þessa leið.

Hjer er ekki um neinn þjóðarsparnað að ræða, heldur hvort er færara að bera þessi gjöld, ríkissjóður eða sveitar- og bæjarfjelögin.

Þá er hin hlið málsins, sú, sem að menningu þjóðarinnar lýtur. Það er óþarfi að undirstrika það, að þessi aukagjaldabyrði á sveitunum mundi skapa andúð gegn alþýðumentun. Margir, sem ótrú hafa á alþýðumenningu vorri, mundu grípa tækifærið og draga úr útgjöldunum til hennar. Sú alda fór einu sinni yfir þetta land, að sjálfsagt þótti að ráðast á embættismannastjettina fyrir það, hve mikil laun hún bar úr býtum. Nú er þessi alda hjöðnuð. Enda var hún ástæðulaus orðin, því að laun flestra embættismanna eru síst hærri en hæfilegt er, og margra jafnvel bágborin. Nú hefir úlfúðinni verið snúið gegn kennarastjettinni, og er reynt að vekja öfund á því, hve mikið þeir beri úr býtum.

Kennarar eiga og hljóta að njóta samúðar löggjafarvaldsins. En til þeirra verður að gera miklar kröfur, því að starf þeirra með þjóðinni er svo afar þýðingarmikið. Jeg er sannfærður um, að ekkert verður til þess að tryggja framtíð þjóðar vorrar betur en aukin menning. Álít jeg það nauðsynlegt, ef þjóðin á að fá staðist ýmisleg óholl áhrif, sem að henni munu steðja, bæði að utan sem innan.

Fjárhagslega sparast ekkert við frv. fyrir þjóðarheildina, en menningarlega er það spor aftur á bak. Því er sjálfsagt að fella það.